Hoppa yfir valmynd
10. október 2002 Innviðaráðuneytið

Ræða samgönguráðherra á Norrænum ráðherrafundi um upplýsingatæknimál

Sýn stjórnvalda á verðlagningu gagnaflutninga

Ræða Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra á Norrænum ráðherrafundi um upplýsingatæknimál sem haldinn var 10. október 2002 í Osló.

Samráðherrar, góðir fundarmenn.

Við Norðurlandabúar erum og viljum vera í fararbroddi í notkun upplýsingatækni. Notkun fjarskiptaþjónustu er hér almenn í daglegum störfum fólks og raunar orðin ómissandi þáttur í allri efnahagslegri starfsemi. Við Norðurlandabúar höfum einnig náð að tileinka okkur kosti Internetsins í ríkari mæli en aðrir. Þessar staðreyndir hafa þegar bætt lífskjör okkar, hvort heldur litið er til efnahagslegra stærða eða lífsgæða í víðtækari merkingu.

Í mínum huga felst ávinningurinn fyrst og fremst í því að fjarskipta- og upplýsingatæknin gerir fólki mögulegt að eiga samskipti sín á milli án tillits til vegalengda. Því veldur það mér nokkrum áhyggjum að notkun upplýsingatækni virðist helst verða á þéttbýlli stöðum þar sem markaðsforsendur eru fyrir hendi. Þetta veldur mér áhyggjum vegna þess að skortur á samkeppni og fjárfestingu í fjarskiptanetum á jaðarsvæðum kann að hafa áhrif á verðlagningu þjónustunnar þar þegar til lengri tíma er litið, ef ekkert er að gert.

Ísland er ekki frábrugðið hinum Norðurlöndunum að því leyti að þar njóta menn góðrar fjarskiptaþjónustu. Reyndar er fjarskiptaþjónusta á Íslandi ekki aðeins mjög góð hvort heldur litið er til talsímaþjónustu eða breiðbandsþjónustu heldur er hún einnig mjög ódýr í alþjóðlegum samanburði. Hvað varðar talsímaþjónustu þá er landið allt eitt gjaldsvæði og enginn munur á verði í þéttbýli og dreifbýli. Sama gildir einnig um gagnaflutningsþjónustu með allt að 128 kb/s bandvídd, sem telst alþjónusta samkvæmt íslenskum lögum. Hins vegar er ástæða til að hafa áhyggjur af útbreiðslu breiðbandsþjónustu, sem er meiri, og um leið vex hraðar á höfuðborgarsvæðinu og helstu þéttbýliskjörnum en á sjálfri landsbyggðinni.

Notendur á landsbyggðinni hafa kvartað undan verðlagningu á leigulínuþjónustu og hefur sumum þótt ranglæti í því að verð tengist vegalengd. Á síðustu misserum hefur vinna við mat á kostnaðarþáttum í leigulínukerfinu leitt í ljós að óeðlilega mikill munur var á leigulínugjöldum eftir því hvort notendur voru á höfuðborgarsvæðinu eða í dreifbýli. Munurinn hefur samt minnkað verulega. Jöfnun gagnaflutningskostnaðar er hins vegar ekki vandalaust verk. Jöfnun með valdboði getur unnið gegn markmiðum sínum þar sem slíkt valdboð kynni að draga úr vilja til fjárfestinga og hætt er við að framboð þjónustu færi að taka mið af slíkum opinberum kröfum stjórnvalda. Þá setur Evrópulöggjöf stjórnvöldum miklar skorður hvað þetta varðar.

Nauðsynlegt er að hafa grundvallarsjónarmið Evrópulöggjafar í huga um frelsi fjarskiptafyrirtækja til að ákvarða verðlagningu sinnar þjónustu, með þeirri undantekningu sem gildir um fjarskiptafyrirtæki með umtalsverða markaðshlutdeild. Einnig er hollt að hafa í huga að ákvarðanir hins opinbera um hámarskverð eru síður til þess fallnar að lækka verð á þjónustu en virk samkeppni. Vandinn hvað varðar hinar dreifðu byggðir er hins vegar þessi: Hvernig komum við á samkeppni?

Smæð markaðarins víða á landsbyggðinni er slík að hæpið er að fyrirtæki hefji umfangsmikla uppbyggingu breiðbandsneta þar. Kemur þá til álita hvort íslensks stjórnvöld eigi að beita sér fyrir breiðbandsstefnu, eins og t.d. Svíar hafa gert. Af síðari tíma rannsóknum OECD má hins vegar draga þá ályktun að þróun breiðbandsþjónustu á Norðurlöndunum hafi ekki orðið eins og vonir stóðu til þegar höfð er hliðsjón af mikilli og almennri notkun Internetsins. OECD hefur reglulega borið saman fjarskiptamarkaði um allan heim, og ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að aukin samkeppni sé skilvirkasta leiðin til verðlækkunar á þjónustu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og FTC (Federal Trade Commission) í Bandaríkjunum eru á sama máli. Og niðurstaða mín, líkt og svo margra annarra, er að samkeppni megi helst örva með opnum aðgangi að heimtauginni.

Þegar haft er í huga hve mikilvægt það er fyrir dreifbýl svæði að njóta góðrar fjarskiptaþjónustu og þegar haft er í huga að ekki er víst að einkaaðilar muni byggja ný net er nauðsynlegt að hugað sé að því hvernig ríkisvaldið geti komið að málinu. Eitt af því sem til athugunar hefur verið af hálfu íslenskra stjórnvalda er útboð á bandvídd, ef svo má segja. Yfirvöld menntamála hafa boðið út háhraðatengingar um allt land, en með því er ætlunin að tengja saman í öflugu háhraðaneti mennta- og rannsóknarstofnanir landsins. Með þessu er jafnframt gert ráð fyrir að í viðkomandi sveitarfélögum aukist til muna framboð háhraða gagnaflutningsþjónustu. Þannig aukast líkur á því að kostnaður við að tengja aðra notendur verði minni en ella. Í kjölfar þessa er rökrétt að álykta sem svo að fjárfestingar og samkeppni á netum utan þétttbýlisstaða komi til með að aukast.

Eitt af því sem ég hef lagt ríka áherslu á í ráðherratíð minni er að jafna sem frekast er unnt gagnaflutningskostnað um landið allt. Nýverið skilaði af sér nefnd, er ég skipaði til að fara yfir gagnaflutningskostnað almennt. Í tillögu þeirrar nefndar er lagt til að endurgreiddur verði í ATM-kerfinu mismunur sá sem notendur greiða vegna fjarlægða. Með samþykkt þeirrar tillögu yrði stórt skref stigið í þá átt, að fjarskiptakostnaður á Íslandi verði sá sami. Þá verður með sanni hægt að segja að öll almenn fjarskiptaþjónusta, svo sem hefðbundinn talsími og farsími, ISDN, ADSL og ATM og þar með IP-þjónusta, verði seld gegn sama verði um allt land.

Kæru samráðherrar, góðir fundargestir,

Ég hef ávallt lagt áherslu á þá skoðun mína að fjarskiptin séu einn mikilvægasti samgönguþátturinn. Það er á þeim grundvelli sem ég hef undirstrikað að fjarskipti eigi að vera fyrir alla, og að þau eigi að vera ódýr, örugg og aðgengileg. Þess vegna hef ég lagt svo ríka áherslu á nauðsyn þess að gagnaflutningsþjónusta sé aðgengileg sem flestum landsmönnum á sem jöfnustu verði.

Eitt er þó sem ég vil gera hér að umtalsefni rétt í lokin. Tækninni hefur óumdeilanlega fleygt hratt fram. Við hér á Norðurlöndunum höfum verið fljót að tileinka okkur tækninýjungar. Mennta- og tæknistig þjóða okkar er hátt og velmegun mikil. Þrátt fyrir það nýtur of stór hluti íbúa þessara landa ekki fullnægjandi þjónustu upplýsingasamfélagsins. Með þessar staðreyndir að leiðarljósi, vil ég leyfa mér að skora á alla okkar tækni- og vísindamenn, svo og fyrirtækjanna á markaðinum, að horfa nú enn frekar en gert hefur verið til þessa hóps, svo unnt verði að koma allri þessari háteækni til sem flestra landsmanna okkar. Við verðum að leggja frekari áherslu á nauðsyn þess að tryggja sem frekast er unnt aðgengi þeirra er búa í dreifbýli að góðri fjarskiptaþjónustu. Að tryggja sem frekast er unnt aðgengi allra að upplýsingasamfélaginu – að tryggja sama verð fyrir alla!.

Þannig tryggjum við, trúi ég, betur en á nokkurn annan hátt, búsetu í hinum dreifðu byggðum landa okkar.

10.10.2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta