Greinargerð Ríkisendurskoðunar
Frétt nr.: 41/2002
Reykjavík, 11. október 2002
Greinargerð Ríkisendurskoðunar um sölu Landsbankans
Að beiðni forsætisráðuneytisins hefur Ríkisendurskoðun yfirfarið vinnubrögð framkvæmdanefndar um einkavæðingu við undirbúning á sölu hlutabréfa ríkisins í Landsbanka Íslands hf. Tilefni beiðninnar voru alvarlegar ásakanir sem Steingrímur Ari Arason lét falla í bréfi til forsætisráðherra þar sem hann sagði af sér sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er birt á vef ráðuneytisins, www.forsaetisraduneyti.is.Meginniðurstaða Ríkisendurskoðunar er að við val á áhugaverðum kaupanda á hlut ríkisins í bankanum hafi verið farið eftir verklagsreglum sem gilda um sölu ríkisfyrirtækja og að sú niðurstaða að ganga til beinna viðræðna við Samson ehf. sé sannfærandi og eðlileg. Niðurstaða stofnunarinnar er að þessu leyti ótvíræð og skýr. Í skýrslu sinni bendir stofnunin á nokkur atriði í söluferlinu sem hún telur að betur hefðu mátt fara. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun taka tillit til þessara ábendinga. Gerðar eru athugasemdir við fyrirkomulag við birtingu ákvarðana um frávik frá verklagsreglunum. Ráðuneytið mun bregðast við þessu með því að hefja nú þegar yfirferð á reglunum með það í huga hvort ástæða sé til að breyta þeim eða skerpa með öðrum hætti á framkvæmd þeirra.
Greinargerð Ríkisendurskoðunar um útboð á fjórðungs-hlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. (pdf - 409Kb)
Greinargerð Ríkisendurskoðunar um útboð á fjórðungs-hlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. (doc - 137Kb)