Hoppa yfir valmynd
14. október 2002 Matvælaráðuneytið

Óformlegur ráðherrafundur ESB og EFTA/EES-ríkjanna á sviði samkeppnishæfni.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 14/2002



Óformlegur ráðherrafundur ESB og EFTA/EES ríkjanna
á sviði samkeppnishæfni.

Mynd frá ráðherrafundi Evrópusambandsins


Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sótti óformlegan ráðherrafund ESB og EFTA/EES ríkjanna um samkeppnishæfni atvinnulífs, sem haldinn var 11. -12. október sl. í Nyborg í Danmörku. Danir, sem fara með formennsku í ESB, buðu EES/EFTA ríkjunum til fundarins.

Á ráðherrafundinum var annars vegar fjallað um samkeppnishæfni og hins vegar einföldun laga og reglna til að bæta starfsskilyrði atvinnulífsins. Innan ESB er lögð vaxandi áhersla á þessa málaflokka, og er fundurinn til merkis um það.

Á fundinum ríkti samstaða meðal ráðherranna um mikilvægi markvissrar skipulagningar og starfs á þessu sviði innan ráðherraráðsins og aðildarlandanna. Samstaða var um, að vel virkur innri markaður, bætt starfsumhverfi fyrirtækja, öflugt starf frumkvöðla, gott aðgengi að fjármagni og áhersla á rannsóknir og þróun ásamt nýsköpun væru mikilvægar forsendur hagvaxtar og að ráðið ætti að fjalla um þessi mál með heildstæðum hætti.

Jafnframt var ákveðið að leggja áherslu á framkvæmdaáætlun ESB um einföldun laga og reglna til þess að bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og greiða þannig fyrir hagvexti. Árangur á þessu sviði krefðist þó einnig vinnu innan einstakra landa sem innan ESB.

Í ræðu sinni á fundinum tók Valgerður Sverrisdóttir undir þessi sjónarmið og taldi, að stofnun hins nýja ráðherraráðs gæti opnað ný tækifæri til að vinna að þessum málum með áhrifaríkari hætti.Valgerður sagðist vænta þess, að Ísland sem EES land og hluti af innri markaðnum gæti tekið vaxandi þátt í starfi á sviði samkeppnishæfni.

Ráðherrarnir heimsóttu skipasmíðastöð í Óðinsvéum. Við það tækifæri lögðu þeir hver um sig til hlut frá sínu heimalandi í listaverk, sem tákna á grósku í Evrópu. Framlag Íslands var listaverkið "Egg snjófuglsins", eftir listamanninn Koggu, Kolbrúnu Björgólfsdóttur. Nánari upplýsingar um ráðherrafundinn í Nýborg, má sjá á vef dönsku formennskunnar http://www.eu2002.dk

Þess má geta að á leiðtogafundi ESB í Sevilla 21. - 22. júní sl. var ákveðið að gera skipulagsbreytingar innan ráðherraráðsins. Í stað þess að ráðherraráðum sé skipað niður á sextán ráðssvið, verður í framtíðinni einungis fundað á níu sviðum. Ákveðið var m.a. að sameina í eitt ráðherraráð á sviði samkeppnishæfni ráð, sem áður tilheyrðu iðnaði, innri markaði og rannsóknum. Breyting þessi er hluti af viðamiklum skipulagsbreytingum innan ESB, bæði á sviði ráðherraráðsins og framkvæmdastjórnarinnar, er miðar að aukinni einföldun, skilvirkni og hagræðingu.
Reykjavík, 14. október 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum