Hoppa yfir valmynd
14. október 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skipun nefndar um tillögur um þjóðgarð norðan Vatnajökuls

Siv Friðleifsdóttir hefur í dag skipað nefnd til að móta tillögur og vera umhverfisráðherra til ráðgjafar um stofnun verndarsvæðis eða þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Stofnun verndarsvæðis eða þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls er margbrotið verkefni sem kallar á talsverðan undirbúning af hálfu stjórnvalda og víðtækt samráð við hagsmunaaðila og aðra þá sem málið varðar. Nefndinni er falið að fara yfir og skoða þá möguleika sem til greina koma með tilliti til þeirra áætlana um landnýtingu á svæðinu, þ.e. Kárahnjúkavirkjunar, sem Alþingi hefur fyrir sitt leyti fallist á.
Í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar í lok síðasta árs voru framkvæmdinni sett skilyrði til að draga úr umhverfisáhrifum hennar á helstu útivistarsvæði, s.s. við Snæfell.

Nefndinni er ætlað að vinna tillögur að umfangi verndarsvæðis og verndarstigi og skal hún í störfum sínum hafa samráð við viðkomandi sveitarfélög, landeigendur og landnotendur þ.m.t. ferðaþjónustuaðila og umhverfissamtök.

Í nefndinni eiga sæti Alþingismennirnir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson, en formaður nefndarinnar verður Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu. Skal nefndin skila af sér áfangaskýrslu til umhverfisráðherra eigi síðar en 15. mars 2003.

Fréttatilkynning nr. 22/2002
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta