Hoppa yfir valmynd
18. október 2002 Matvælaráðuneytið

Ráðstefnan Akureyri og atvinnulífið.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á ráðstefnunni
Akureyri og atvinnulífið
18. október 2002.

Í önnum daglegs lífs, ekki síður en í erli stjórnmálanna, hættir okkur stundum til að gleyma okkur í umræðum um það sem kallar að þá stundina. Orka okkar vill þá að miklu leyti fara í það að bregðast við atburðum líðandi stundar og halda hlutum gangandi frá degi til dags. Málefnin sem næst okkur eru í tíma virðast oft stærri og mikilvægari en þau sem lengra eru inn í framtíðinni. En við vitum líka að til að hafa sæmilega stjórn á lífi okkar þurfum við að vita hvert við viljum stefna og hvaða skref er nauðsynlegt að stíga til að ná markmiðum okkar; athafnir okkar mega ekki aðeins vera viðbrögð við atburðum líðandi stundar heldur verða þær einnig að vera meðvituð skref í átt að þeim markmiðum sem við setjum okkur og teljum að sé eftirsóknarvert að ná. Við þurfum sífellt að vera að átta okkur á hvernig samfélagi við viljum búa í, hvernig við getum gert það samfélag að veruleika og hvernig þróunin í samtímanum og framtíðinni hefur áhrif þar á.

Það er hlutverk og skylda stjórnmálamanna að móta stefnu í uppbyggingu og þróun byggðar í landinu sem tekur mið af langtímahagsmunum þjóðarinnar. Í þessu efni sem og öðrum höfum við hvorki efni á né leyfi til að beita handahófskenndum vinnubrögðum eða gera okkur sek um skammsýni og vanmat á aðstæðum. Okkur er það jafn nauðsynlegt og öðrum þjóðum að hin dýra uppbygging á innviðum samfélagsins byggist á raunhæfum markmiðum um þróun byggðarinnar og á raunverulegum þörfum fólks.

Stefna ríkisstjórnarinnar í byggðamálum kemur skýrt fram í þingsályktun um stefnu í byggðamálum sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor. Eitt meginmarkmið þeirrar stefnu er að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og besta möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu. Forsendur þessarar stefnu eru flestum ljósar. Þær eru vaxandi kröfur almennings um fjölbreyttari atvinnukosti, þjónustu og betri lífskjör. Sömu þróun má greina á Norðurlöndum og víða í Evrópu. Fólk sækist eftir að búa í eða í nágrenni við stærri þéttbýlissvæði þar sem fleiri atvinnutækifæri og fjölbreyttari þjónustu er að finna. Því fjölmennari, öflugri og fjölbreyttari sem byggðarlög eru því meira aðdráttarafl hafa þau fyrir fólk og atvinnulíf. Stefna stjórnvalda í byggðamálum hlýtur að taka mið af þessari staðreynd.

Ástæða er til að leggja áherslu á að efling stærstu þéttbýlisstaðanna á landsbyggðinni er ekki á kostnað minni og dreifbýlli svæða umhverfis þá. Þvert á móti. Með greiðum og sífellt betri samgöngum auka sterkir byggðakjarnar möguleika íbúanna í dreifðari byggðum til að búa þar áfram. Vegna bættra samgangna geta íbúar á mjög stóru landsvæði haft beinan hag af uppbygginu stærstu þéttbýlisstaðanna á landsbyggðinni. Öflugir byggðakjarnar gefa jafnframt fólki sem nauðsynlega þarf að flytja um set, svo sem vegna skólagöngu eða öldrunar, aukið færi á að búa áfram í sínum landshluta og í nágrenni við fjölskyldu sína og heimabyggð.

Í nýsamþykktri byggðaáætlun er ennfremur sett fram það meginmarkmið að styrkja sveitarstjórnarstigið með því að sveitarfélögin verði öflugri einingar. Markmiðið þarf ekki aðeins að vera að efla stærstu sveitarfélögin á landsbyggðinni heldur gera sveitarfélögin víðsvegar um land hæfari til að takast á við verkefni sín, meðal annars með stækkun þeirra og tryggum tekjustofnum.

Í samræmi við áðurnefnd markmið er gerð um það sérstök tillaga í núgildandi byggðaáætlun að ríkið og sveitarfélögin vinni saman að gerð byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð. Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið eru öflugasta þéttbýlissvæðið utan höfuðborgarsvæðisins og vel í sveit sett til að þjóna sem miðstöð atvinnulífs og þjónustu á Norður- og Norð-Austurlandi. Hér eru þegar fyrir hendi öflug atvinnufyrirtæki, og mennta- menningar- og heilbrigðisstofnanir sem geta orðið grundvöllur að efldri uppbyggingu á svæðinu. Það er þess vegna margt sem mælir með því að gerð verði sérstök áætlun um uppbyggingu Eyjafjarðarsvæðisins. Gerð hennar verður að vissu leyti tilraun sem ekki hefur áður verið reynd hér á landi. Verði reynslan af henni góð er ekkert því til fyrirstöðu að sambærilegar áætlanir verði unnar fyrir önnur svæði á landinu, svo sem á Vestfjörðum og Austurlandi.

Ástæðulaust er að ég geri mögulegt inntak byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð að ítarlegu umræðuefni að þessu sinni, enda verður það hlutverk sérstakra starfshópa að gera tillögur þar að lútandi. Þó vil ég minnast á fáein atriði sem sérstaklega varða aðkomu ríkisvaldsins að slíkri svæðisbundinni byggðaáætlun.

Í fyrsta lagi vil ég nefna menntamál. Ein augljósasta leið stjórnvalda til að efla Eyjafjarðarsvæðið er að efla Akureyri sem skólabæ á framhaldsskóla- og háskólastigi. Sérstaklega þarf að skoða þau tækifæri sem fyrir hendi eru til að gera Akureyri að miðstöð rannsókna og menntunar í greinum tengdum sjávarútvegi. Meðal annars er mikilvægt að styrkja það rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi sem tengt er Háskólanum á Akureyri með því að efla samstarf við stofnanir á borð við Hafrannsóknarstofnun, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og fleiri stofnanir.

Í öðru lagi þarf að ákveða hvernig efla megi starfsemi ríkisins á Akureyri á fjölmörgum sviðum með flutningi verkefna og stofnana, til dæmis á sviði rannsókna, skóla, orkumála og stjórnsýslu. Liður í þessu er fyrirhuguð stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri.

Í þriðja lagi þarf að styrkja Akureyri sem miðstöð menningar og ferðamennsku á Norðurlandi. Þetta þarf að gera með ýmsum hætti, meðal annars með því að bæta samgöngur milli Akureyrar og Reykjavíkur og með uppbyggingu menningar- og afþreyingarstarfsemi á Eyjafjarðarsvæðinu sjálfu, og aðstöðu til hennar.

Í fjórða lagi vil ég víkja nokkuð að orku- og stóriðjukostum á Norðurlandi. Um þessar mundir er unnið hörðum höndum að því að ljúka samningum við Alcoa um byggingu álvers í Reyðarfirði. Ef þau áform ganga eftir, eins og að er stefnt, skapast atvinnutækifæri fyrir Norðlendinga ekki síður en Austfirðinga við virkjanaframkvæmdir þar strax á næsta ári og byggingu álvers frá árinu 2005. Gert er ráð fyri að þeim ljúki og álverið taki til starfa á árinu 2007. Þá taka við margfeldisáhrifin af rekstri álversins sem verða mun vart um allt land.

Eins og kunnugt er verður árleg framleiðslugeta álversins talsvert miklu minni en Reyðarál hafði fyrirhugað. Þannig er nú gert ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun ásamt jökulsárveitu úr Fljótsdal nægi til þess að sjá álverinu fyrir nauðsynlegri raforku og ekki verði þörf á raforkuflutningum frá Kröflu eða Bjarnarflagi eins og áður var fyrirhugað. Í ljósi þessa má segja að nýir möguleikar hafi skapast til atvinnuuppbyggingar í orkufrekum iðnaði á Norðurlandi, þar sem raforku frá þessum virkjanakostum verður ekki ráðstafað annað.

Um nokkurt skeið hefur Fjárfestingarstofan - orkusvið unnið að staðarvalsathugunum fyrir stóriðju í samvinnu við staðbundin atvinnuþróunarfélög á þremur svæðum á Norðurlandi. Þau eru í Eyjafirði, í Skagafirði og við Húsavík. Af þessum svæðum eru athuganir lengst komnar á iðnaðarsvæðinu við Dysnes í Arnarneshreppi í Eyjafirði, en þar hafa m. a. farið fram umfangsmiklar veðurmælingar, jarðvegsathuganir og hafnarrannsóknir. Er talið að lóðin henti vel fyrir orkufrekan iðnað. Við Húsavík er verið að skoða þrjár lóðir fyrir sunnan og norðan kaupstaðinn.

Þessi svæði hafa sína kosti og galla eftir því hvers konar iðnað er verið að skoða. Þar koma til atriði sem miklu máli skipta við staðsetningu orkufreks iðnaðar eins og landkostir, hafnargerð, þjónustuiðnaður, íbúafjöldi svo og orkuöflun. Það gefur auga leið að þessir staðir eru misvel í sveit settir hvað slíka staðarvalskosti varðar og erfitt að bera þá saman að óbreyttum aðstæðum. Þannig er Húsavíkursvæðið til dæmis best sett fyrir iðnað sem nýtir jarðgufu og Dysnes best sett varðandi fólksfjölda og þjónustuiðnað.

Athygli manna hefur beinst að stóriðju á Norðurlandi að undanförnu. Þar er um að ræða hugmyndir íslenska fyrirtækisins Altech sem í samvinnu við rússneska aðila hefur stofnað hlutafélagið Atlantsál hf til þess að kanna möguleika á að byggja á Íslandi bæði súrálsverksmiðju og álver. Málið hefur verið nokkuð fyrirferðarmeira í fjölmiðlum en efni standa til. Staðreyndin er sú að þessar hugmyndir eru á frumstigi og þurfa talsverða yfirlegu áður en unnt er að taka ákvörðun um það hvort þeim verður fylgt eftir og hvar verksmiðjurnar yrðu staðsettar. Því veldur m.a. að súrálsframleiðsla er nýr og óþekktur atvinnuvegur hérlendis sem getur haft talsverð umhverfisáhrif í för með sér. Iðnaðurinn myndi nota jarðgufu í miklum mæli sem nú er verið að leita að á Þeystareykjarsvæðinu í Þingeyjarsýslu en árangur er í óvissu enn sem komið er. Það er ljóst af því sem áður er sagt að staðsetning súrálsverksmiðu á Norðurlandi kemur ekki til álita nema í nálægð við Húsavík. Álverið gæti verið víðar og er verið að bera saman kosti staðsetningar á Dysnesi og við Húsavík.

Margir ónýttir kostir til raforkuvinnslu finnast á Norðurlandi. Fyrir utan Kröflu (120 MW) og Bjarnarflag (40MW) sem áður er getið og duga myndu fyrir 60.000 t. ársframleiðslu áls, er hugsanlegt að virkja Þeystareykjarsvæðið (80MW), ef vel reynist. Í vatnsafli kemur til greina að virkja Skjálfandafljót við Hrafnabjörg (90 MW), Jökulsár í Skagafirði við Skatastaði (180MW) og Villinganes (30MW). Samtals gætu þessar virkjanir framleitt um 4000 GWh, sem er sambærilegt við það sem Kárahnjúkavirkjun ein sér er talin geta framleitt af raforku. Til þess að geta nýtt alla þessa orku á einum stað er nauðsynlegt að byggja upp og styrkja flutningskerfið á Norðurlandi svo um munar og er það umtalsvert verkefni.

Fundarstjóri, góðir ráðstefnugestir. Í framhaldi af samþykkt byggðaáætlunar síðastliðið vor var skipaður starfshópur sérfræðinga til að móta tillögur um tilhögun vinnu við byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð. Þennan starfshóp skipuðu Bjarki Jóhannesson frá Byggðastofnun, Grétar Þór Eyþórsson frá Byggðarannsóknarstofnun og Sigfús Jónsson frá ráðgjafarfyrirtækinu Nýsi. Starfhópurinn skilaði af sér tillögum í lok júlí. Á grundvelli þeirra hef ég ákveðið að skipa fimm manna verkefnisstjórn er hafi það hlutverk að gera tillögu til ráðherra um stefnumörkun byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð. Í verkefnisstjórninni eiga sæti Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri, formaður, Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, Akureyri, Hilda Jana Gísladóttir, kennari og fjölmiðlamaður, Akureyri, Laufey Petrea Magnúsdóttir, aðstoðarskólameistari, Akureyri og Jón Helgi Pétursson, sparisjóðsstjóri, Grenivík. Starfsmenn verkefnisstjórnarinnar verða Baldur Pétursson, iðnaðarráðuneyti og Guðmundur Guðmundsson, Byggðastofnun. Ég vil þakka öllu þessu fólki fyrir að takast á við þetta ögrandi verkefni og óska þeim alls góðs í starfinu framundan.

Mælst er til þess að með stefnumörkuninni fylgi tillaga að framkvæmdaáætlun þar sem fram komi hver beri ábyrð á framkvæmd einstakra verkefna, áætlun um kostnað þar sem það á við og tímasetning einstakra aðgerða. Að öðru leyti er óskað eftir að verkefnisstjórnin taki mið af þeim tillögum sem unnar voru fyrir ráðuneytið síðastliðið sumar af sérfræðingum á sviði byggðamála. Þá er óskað eftir því að verkefnisstjórnin geri tillögur til ráðherra um skipan starfshópa til að vinna að stefnumótun á einstökum sviðum. Óskað er eftir að verkefnisstjórn skili greinargerð um framvindu verksins til ráðherra tvisvar á ári. Miðað verði við að verkefninu ljúki eigi síðar en við lok ársins 2004.

Sérstök áhersla er lögð á að byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð verði unnin í nánu samráði opinberra stofnanna, og sveitarfélaga, atvinnulífs og verkalýðshreyfingar hér á svæðinu. Verði þannig leitast við að tryggja eins góðan árangur af þessu starfi og kostur er. Vel heppnuð framkvæmd slíkrar byggðaáætlunar byggist á samstarfi ólíkra aðila sem allir hafa hagsmuni af því að hagur svæðisins verði sem bestur.

Eyjafjarðarsvæðið á alla möguleika á að styrkjast í sessi sem annað öflugasta þéttbýlissvæði landsins. Það er mikilvægt að við, heimamenn og stjórnvöld, sameinumst um að finna leiðir til að gera það markmið að veruleika. Ég vænti mikils af því samstarfi sem nú fer í hönd og vona að það geti gefið okkur mikilvæga þekkingu á því hvernig við getum í framtíðinni unnið að því í sátt og samvinnu að efla byggð um allt landið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta