Hoppa yfir valmynd
21. október 2002 Matvælaráðuneytið

Nýr forstjóri Einkaleyfastofu.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
16/2002




Iðnaðarráðherra hefur í dag skipað Ástu Valdimarsdóttur lögfræðing í starf forstjóra Einkaleyfastofu til fimm ára, frá 1. nóvember 2002 að telja.

Ásta Valdimarsdóttir er fædd 29. júlí 1964 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1984 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1990. Lokaritgerð hennar í lagadeild var um aðilaskipti að einkaleyfa- og vörumerkjarétti. Auk þess hefur hún stundað nám í opinberri stjórnsýslu og sótt ýmis námskeið, m.a. á sviði hugverkaréttinda á sviði iðnaðar.

Að loknu laganámi starfaði Ásta fyrst um skeið sem lögfræðingur í vörumerkja- og einkaleyfadeild iðnaðarráðuneytisins og síðar sem sérfræðingur þar við undirbúning að aðild Íslands að ýmsum alþjóðasamningum á sviði hugverkaréttinda. Frá desember 1991 til október 1993 var hún aðalfulltrúi sýslumannsins á Ísafirði og um skeið settur sýslumaður þar. Frá apríl 1995 hefur hún verið yfirlögfræðingur Einkaleyfastofunnar og staðgengill forstjóra en hefur verið settur forstjóri frá nóvember 2001. Hún hefur sinnt ýmsum aukastörfum, m.a. verið ritari áfrýjunarnefndar samkeppnismála, stundakennari í einkaleyfarétti við lagadeild Háskóla Íslands og kennari á ýmsum námskeiðum um einkaleyfa- og vörumerkjavernd hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Þá hefur hún tekið þátt í og m.a. verið formaður ýmissa nefnda sem fjallað hafa um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar og staðið að endurskoðun ýmissa laga á því sviði. Í starfi sínu hefur hún tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi Norðurlandanna, Evrópska efnahagssvæðisins og Alþjóðahugverkastofnunarinnar.

Eiginmaður Ástu er Kristján Gunnar Valdimarsson lögfræðingur. Þau eiga tvö börn.

Aðrir umsækjendur voru eftirfarandi: Birgir Bjarnason, Grétar Erlingsson, Jón Egill Unndórsson og Daði Bragason.
Reykjavík, 21. október 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum