18. ráðsfundur EES í Luxemborg
Nr. 116
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Í dag var haldinn í Luxemborg 18. ráðsfundur EES. Í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sat Sverrir Haukur Gunnlaugsson ráðuneytisstjóri fundinn. EES ráðið er samráðsvettvangur utanríkisráðherra EFTA/EES ríkjanna og Evrópusambandsins. Ísland er með formennsku ráðsins.
Á fundinum var skipst á skoðunum um framkvæmd EES samningsins og útistandandi ágreiningsmál. EFTA/EES ríkin lögðu áherslu á að samkomulag náist sem fyrst um aðild þeirra að þremur nýjum stofnunum ESB sem fara munu með málefni á sviði matvælaöryggis, siglingamála og flugmála.
Sérstaklega var fjallað um stækkun ESB og áhrif hennar á EES samninginn. Voru aðilar sammála um mikilvægi þess að aðild nýju ríkjanna tíu yrði samtímis að EES og ESB. EFTA/EES ríkin minntu á gildandi fríverslunarsamninga þeirra við umsóknarríkin og lögðu ríka áherslu á að aðild þeirra að ESB hafi ekki í för með sér verri markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir.
Á sérstökum hádegisverðarfundi var skipst á skoðunum um ástand alþjóðamála, einkum ástandið í Mið-Austurlöndum, Írak, Sri-Lanka og framkvæmd samningsins um Alþjóðastríðsglæpadómstólinn.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 22. október 2002