Hoppa yfir valmynd
24. október 2002 Dómsmálaráðuneytið

Umferðaröryggisnefnd og framkvæmdastjórn umferðaröryggisáætlunar skipuð.

Umferðaröryggisnefnd og framkvæmdastjórn umferðaröryggisáætlunar skipuð.




Þann 29. apríl 2002 var samþykkt þingsályktun um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Samkvæmt henni ályktar Alþingi að á næstu 11 árum, eða fyrir lok ársins 2012, skuli stefnt að fækkun banaslysa og annarra alvarlegra umferðarslysa um 40 % miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja, áhugahópa um umferðaröryggismál og alls almennings. Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa sérstaka umferðaröryggisnefnd sem ætlað er að vinna að framgangi þingsályktunarinnar. Skal hún ásamt Umferðarráði leitast við að ná sem víðtækastri samstöðu í þjóðfélaginu um bætta umferðarmenningu og leita allra tiltækra leiða til þess að stemma stigu við alvarlegum umferðarslysum. Skal að því stefnt að sem flestir aðilar sem koma að umferðaröryggismálum með einhverjum hætti setji sér skýr markmið og vinni samkvæmt þeim.

Formaður umferðaröryggisnefndar verður Óli H. Þórðarson. Aðrir í nefndinni eru Ellen Ingvadóttir löggiltur skjalaþýðandi og dómtúlkur, fulltrúi dómsmálaráðuneytis, Gunnar Felixson forstjóri, fulltrúi Sambands íslenskra tryggingafélaga, Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn, fulltrúi ríkislögreglustjórans, Kristján Vilhelm Rúriksson verkfræðingur, fulltrúi Umferðarstofu, Rögnvaldur Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar, fulltrúi Vegagerðar, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sandra Baldvinsdóttir lögfræðingur í dómsmálaráðuneyti og varafomaður Umferðarráðs. Eftir að nýtt Umferðarráð hefur komið saman og tilnefnt þriðja mann í stjórn ráðsins, verður viðkomandi fulltrúi jafnframt skipaður í umferðaröryggisnefnd.

Þá hefur dómsmálaráðherra ákveðið að skipa úr hópi nefndarmanna fimm manna framkvæmdastjórn umferðaröryggisáætlunar. Hlutverk stjórnarinnar skal vera að gera starfs- og framkvæmdaáætlun um framgang umferðaröryggisáætlunar, samkvæmt ályktun Alþingis frá 29. apríl 2002. Skal hún í umboði dómsmálaráðuneytis kalla eftir upplýsingum um aðgerðir frá helstu aðilum sem sinna umferðaröryggisstarfi og gera í framhaldi af því athugasemdir ef þörf krefur. Skal að því stefnt að aðilar setji sér skýr markmið um aðgerðir sem stuðla að auknu umferðaröryggi og vinni síðan samkvæmt þeim. Á þann hátt leggi hver og einn fram sinn skerf til öruggari umferðar svo ná megi þeim meginmarkmiðum sem þingsályktunin gerir ráð fyrir. Jafnframt er stjórninni ætlað að vinna að tillögugerð til ráðuneytisins um þær breytingar á umferðarlögum og reglugerðum sem hún telur að stuðli að öruggari umferð í landinu.

Óli H. Þórðarson hefur verið skipaður formaður framkvæmdastjórnar umferðaröryggisáætlunar. Aðrir í framkvæmdastjórninni eru Sandra Baldvinsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og varaformaður Umferðarráðs, Rögnvaldur Jónsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar og Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. Fimmti stjórnarmaður verður skipaður þegar nýtt Umferðarráð hefur valið þriðja mann í stjórn ráðsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta