Hoppa yfir valmynd
25. október 2002 Dómsmálaráðuneytið

Ræða ráðherra við setningu ráðstefnunnar Björgun 2002.

Ávarp Sólveigar Pétursdóttur dóms- og kirkjumálaráðherra við setningu ráðstefnunnar Björgun 2002 að Grand Hótel Reykjavík.



Ráðstefnustjóri
Formaður Landsbjargar
Góðir ráðstefnugestir


Er ég ávarpaði þáttakendur í ráðstefnunni Björgun 2000 hér á þessum stað fyrir tveimur árum varð mér tíðrætt um hina íslensku leið að virkja áhuga og fórnfýsi fjölda manna og kvenna til þess að byggja upp skilvirkt björgunarkerfi, kerfi, sem vekur bæði athygli og aðdáun víða um heim, kerfi sem stendur ekki að baki viðbragðskerfum margfalt fjölmennari ríkja. Þar styðjast menn oft við her eða heimavarnarlið, sem unnt er að kalla út þegar vá ber að höndum. Hér köllum við á björgunarsveitirnar og þær hafa marg sinnis sannað mikilvægi sitt. Eiga þær stóran þátt í öryggiskennd almennings í landinu og eru vafalaust meðal vinsælustu almannasamtaka þjóðarinnar.

Síðan ráðstefnan Björgun 2000 var haldin hefur ýmislegt gert sem til framfara horfir í leitar- og björgunarmálum. Samkomulag hefur náðst um uppbyggingu leitar- og björgunarmiðstöðvar í Skógarhlíð hér í borg, - miðstöð sem allir helstu viðbragðsaðilar, þ.á m. Slysavarnarfélagið Landsbjörg munu koma að. Þarna verður ein miðstöð með fullkomnum fjarskipta- og boðunarbúnaði, og mun hún leika lykilhlutverk í öllu leitar- og björgunarstarfi í framtíðinni. Í húsinu verða einnig Neyðarlínan og fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, sem eru þar fyrir, skrifstofa Almannavarna og bækistöð Landsbjargar ásamt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins. Í tengslum við þessar breytingar er fyrirhugað að flytja yfirstjórn Almannavarna til embættis ríkislögreglustjóra. Af því verða talsverð samlegðaráhrif þar sem ýmis umsýsluverkefni verða leyst hjá skrifstofu ríkislögreglustjóra, en sérþjálfaðir starfsmenn embættisins verða settir til styrkingar á starfi Almannavarna í Skógahlíðinni eftir því sem þörf krefur.

Stjórnstöðin í Skógahlíð er samstarfsverkefni allra þeirra aðila sem að leit- og björgunarmálum koma og er hugmyndin sú að hún verði eftir atvikum hverju sinni til dæmis samhæfingarstjórnstöð og til stuðnings vettvangsstjórnstöð í stærri viðburðum, auk þess sem hún hefði burði til að taka að sér aðgerðarstjórn þegar aðstæður krefðust þess. Samkvæmt lögum fara lögreglustjórar með yfirstjórn leitar og björgunarstarfa á landi auk þess sem þeir fara með stjórn almannavarna hver í sínu umdæmi. Með tilflutningi verkefna Almannavarna ríkisins til ríkislögreglustjóra og uppbyggingu stjórnstöðvarinnar er lag til að efla enn frekar almannavarnir í landinu, en ríkislögreglustjóri gegnir meðal annars samhæfingarhlutverki gagnvart lögreglustjórum í landinu auk þess sem hann hefur skýrar lagaheimildir til að taka að sér stjórn stærri löggæsluverkefna. Þessar breytingar munu því án efa styrkja almannavarnir og öryggi landsmanna til muna.

Skipulag leitar- og björgunarmála er nú til umfjöllunar í sérstakri nefnd ráðuneytisstjóra, sem skila mun áliti á næstunni. Í framhaldi af þeirri vinnu og uppbyggingu sameiginlegrar stjórnstöðvar leitar- og björgunar í Skógarhlíðinni verða unnar skýrar verklagsreglur um stjórn aðgerða í hverju og einu tilviki.

Til hliðar við leitar- og björgunarmiðstöðina í Skógahlíðinni eru svo vaktstöðvar eins og t.d. í Gufunesi , hjá Landhelgisgæslunni eða Flugmálastjórn sem gera aðvart þegar þörf á aðgerðum kemur upp. Brýnt er í tengslum við þessa vinnu að huga að aðkomu þeirra að sameiginlegu stjórnstöðinni.

Nýjustu áætlanir hljóða upp á það, að húsnæði stjórnstöðvarinnar verði tilbúið í lok janúar n.k., en ég er sannfærð um að tilkoma stjórnstöðvarinnar í Skógahlíð mun jafnan verða talin með merkustu tímamótum í sögu leitar- og björgunarmála hér á landi.

Fyrir nokkrum árum skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að semja drög að frumvarpi til laga um hlutverk björgunarsveita, samstarf þeirra við lögreglu, almannavarnir og önnur stjórnvöld svo og um réttindi og skyldur björgunarsveitarmanna og félagsmanna þeirra, þar sem m.a. yrði kveðið á um ábyrgð á tjóni sem björgunarsveitarmenn kynnu að verða fyrir við störf í þágu almannaheilla og um ábyrgð á tjóni sem kynni að hljótast af störfum þeirra vegna mistaka, vanrækslu eða af öðrum ástæðum.

Nefndin skilaði fyrir nokkru tillögum í formi frumvarps til laga um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn. Þar er að finna ýmsar skilgreiningar og ákvæði um hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna svo og um skyldur sömu aðilar. Um samstarf viðbragðsaðila innbyrðis leggur nefndin til lagaákvæði þess efnis að stjórnvöld skuli í samráði við heildarsamtök björgunarsveita gera samkomulag um samskipti og samstarf björgunaraðila þar sem kveðið er á um skipulag björgunarmála, upplýsingaskyldu, útköll og boðskipti.

Þá er í frumvarpinu lagt til að björgunarsveitum sé skylt að kaupa ýmsar tryggingar m.a. slysatryggingar fyrir björgunarsveitarmenn.

Nokkur dráttur hefur orðið á því að hrinda þessum tillögum í framkvæmd með lagasetningu, m.a. sökum þess að ekki þótti rétt að leggja skyldur á björgunarsveitir til kaupa á tryggingum án þess að fjárstuðningur kæmi á móti frá hinu opinbera. Nú er í burðarliðnum samkomulag milli dómsmálaráðuneytisins og Landsbjargar þar sem fjárstuðningur úr ríkissjóði til þessa verkefnis yrði aukinn í áföngum þar sem hann næði u.þ.b. kostnaðinum við kaup vátrygginga að fullu. Að slíku samkomulagi gerðu sé ég ekkert til fyrirstöðu því að leggja frumvarpið fram á þessu löggjafarþingi og mun ég gera það sem í mínu valdi stendur til þess að afla því brautargengis, þannig að það geti orðið að lögum fyrir vorið.

Ég tel afar mikilvægt að treysta betur öryggi björgunarsveitarmanna sem vinna ómetanleg störf í þágu okkar allra.

Fundarstjóri, góðir ráðstefnugestir.

Ég óska ykkur heilla í störfum þessarar ráðstefnu um leið og ég þakka ykkur og samtökum ykkar farsæl störf á liðnum árum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta