Hoppa yfir valmynd
25. október 2002 Matvælaráðuneytið

Saga sjávarútvegs á Íslandi.

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu



Fyrsta bindi Sögu sjávarútvegs á Íslandi kemur út í dag; föstudaginn 25. október 2002. Ritið verður í þremur bindum og fjallar fyrsta bindið um árabáta- og skútuöldina, þ.e. er um tímabilið frá landnámsöld þar til vélknúin fley leystu árabáta og þilskip af hólmi, í árdaga síðustu aldar. Annað bindið mun fjalla um tímbilið frá 1902 fram til loka síðari heimstyrjaldarinnar og þriðja bindið spannar tímabilið frá nýsköpun til vorra daga, þar verður upphafspunkturinn settur við árið 1946. Annað bindið mun koma út á árinu 2003 og þriðja bindið 2004.

Ritun íslensku sjávarútvegssögunnar á sér bæði töluverðan aðdraganda og er liður í stærra verkefni, en á árinu 1995 var hleypt af stokkunum alþjóðlegu verkefni um ritun sögu sjávarútvegs við norðanvert Atlantshaf. Verkefnið er tvíþætt, annars vegar er það ritun á sjávarútvegssögu hvers ríkis á þjóðtungu þess, eins og hér er til umræðu, og hins vegar ritun hinnar sameiginlegu sjávarútvegssögu á Norður-Atlantshafi á ensku.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi sjávarútvegsráðherra afréð að veita þessu verkefni brautargengi og var dr. Jón Þ. Þór sagnfræðingur ráðinn til að sinna því. Hefur dr. Jón alfarið séð um ritun sögunnar og sjávarútvegsráðuneytið staðið straum af öllum kostnaði við skrifin. Bókaútgáfan Hólar á Akureyri sér hins vegar um prentun og dreifingu ritsins en hlýtur til þess nokkurn styrk frá ráðuneytinu.

Sjávarútvegsráðuneytinu 25. október 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum