Uppsögn loðnusamningsins
Nr. 118
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Í gær, 30. október 2002, sögðu íslensk stjórnvöld upp samningi milli Íslands, Grænlands og Noregs um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen sem gerður var 18. júní 1998. Uppsögnin kemur til framkvæmda 1. maí 2003.
Norsk stjórnvöld hafa lýst því yfir í samningaviðræðum um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum fyrir árið 2003 að þau sé ekki reiðubúin til að ganga frá samningi á sama grundvelli og á undanförnum árum og hafa þau krafist þess að 70% aflaheimilda úr síldarstofninum komi í hlut Noregs. Íslensk stjórnvöld hafa hafnað kröfu norskra stjórnvalda og lýst sig reiðubúin til að ganga frá samningi á óbreyttum grundvelli.
Náist ekki samningar um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum fyrir árið 2003 vegna framangreindrar afstöðu norskra stjórnvalda telja íslensk stjórnvöld óhjákvæmilegt að taka aðra fiskveiðisamninga milli landanna til endurskoðunar. Loðnusamningurinn milli Íslands, Grænlands og Noregs gildir til 30. apríl 2003 og framlengist hann um tvö ár í senn nema einhver samningsaðilanna segi honum upp með sex mánaða fyrirvara. Með uppsögn sinni á loðnusamningnum skapa íslensk stjórnvöld forsendur til endurskoðunar hans, en Norðmenn njóta samkvæmt samningnum aflaheimilda úr loðnustofninum þótt loðnan hafi ekki gengið inn í lögsögu Jan Mayen á undanförnum árum og haldi sig að langmestu leyti innan íslensku efnahagslögsögunnar. Uppsögn samningsins er afturkallanleg þar til hún kemur til framkvæmda.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 31. október 2002