Fréttapistill vikunnar 26. október - 1. nóvember 2002
Fréttapistill vikunnar
26. október - 1. nóvember 2002
Í skoðun að taka í notkun 70 hjúkrunarrými fyrir aldraða á Vífilsstöðum
Mögulegt er að koma á fót um 70 hjúkrunarrýmum á Vífilsstöðum, nýta þannig húsnæði sem annars stendur ónotað og mæta að einhverju leyti þeim mikla vanda sem við er að etja vegna skorts á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á höfuðborgarsvæðinu. Í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn um málið á Alþingi í vikunni kom fram að samkvæmt frummati arkítekts er unnt að gera breytingar á húsnæði Vífilsstaða og koma þar fyrir 52 einbýlum fyrir aldraða sem uppfylla nútímakröfur um aðbúnað. Áætlaður kostnaður vegna slíkra breytinga nemur um 3,5 milljónir króna á hvert hjúkrunarrými eða samtals um 180 milljónum króna. Til samanburðar myndi kostnaður við að byggja nýtt 52 rýma hjúkrunarheimili vera um 800 milljónir króna. Óbreytt stenst húsnæðið ekki þær kröfur sem gerðar eru í dag um aðbúnað og aðstöðu fyrir langtímabúsetu aldraðra. Hins vegar sagði ráðherra unnt að nýta húsnæðið á Vífilsstöðum nær óbreytt fyrir skammtímavistun aldraðra meðan varanleg úrræði eru fundin. Til viðbótar möguleikum á 52 rýmum á Vífilsstöðum sagði ráðherra einnig hafa verið rætt að nýta hús sem í daglegu tali er kallað ,,húsið á hólnum" undir biðdeild. Þar eru rými fyrir 19 einstaklinga sem gætu dvalið þar tímabundið meðan beðið er varanlegrar vistunar á hjúkrunarheimili eða að nýta mætti þau rými fyrir sjúklinga sem eru að jafna sig eftir útskrift af sjúkrahúsi og þurfa tiltekinnar hjúkrunar við. Rekstrarkostnaður 52. hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum, miðað við 12.000 kr. fyrir hvert rými á sólarhring, er um 230 milljónir króna á ári. Áætlaður kostnaður vegna rekstrar biðdeildar með 19 rými er um 90 milljónir króna á ári. Samtals er því unnt að koma við rekstri 71 hjúkrunarrýmis að Vífilsstöðum þar sem árlegur rekstrarkostnaður yrði samtals um 320 milljónir króna. Ráðherra sagði væntanlegar á næstu dögum tillögur nefndar sem forsætisráðherra skipaði í september síðast liðinn og var falið m.a. að skoða hugmyndir um nýtingu Vífilsstaða fyrir hjúkrunarrými.
SVAR RÁÐHERRA
...
Rekstarvanda stofnana vegna dagvistar- og hjúkrunarrýma mætt með 460 milljóna króna fjárauka
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, svaraði í vikunni fyrirspurn um rekstrarstöðu dvalar- og hjúkrunarrýma á daggjöldum fyrstu átta mánuði ársins. Í svari ráðherra kom fram að flestar daggjaldastofnanir á fjárlagalið 08-495 hafa skilað 8 - 9 mánaða árshlutauppgjöri. Uppgjörin hafa verið reiknuð til heilsársrekstrar og verður samanlagður rekstrarhalli þeirra fyrir allt árið 2002 um 413 milljónir króna. Þar af verður rekstrarhalli hjúkrunar- og dagvistarrýma um 218 milljónir króna og rekstrarhalli dvalarrýma um 195 milljónir króna. Ráðherra sagði 460 milljónir króna ætlaðar til að mæta rekstrarvanda dagvistar- og hjúkrunarrýma samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga. Enn fremur hefði sú breyting verið gerð í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 að rekstrargrunnur hjúkrunarrýma hefði verið lagfærður um 350 milljónir króna. Rekstrarvandi dvalar- og hjúkrunarheimila sem rekja má til dvalarrýma er enn í skoðun og sagði ráðherra niðurstaðna að vænta á næstu vikum. Sama máli gegndi um rekstrargrunn dvalarrýma fyrir árið 2003.
SVAR RÁÐHERRA...
Nefnd um skipulagningu húsnæðis LSH við Hringbraut
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að annast skipulagningu húsnæðis fyrir LSH (Landspítala - háskólasjúkrahús) við Hringbraut. Nefndin á að starfa á grundvelli nefndarálits starfsnefndar sem fjallaði um framtíðarskipulag og uppbyggingu LSH og skilaði heilbrigðisráðherra áliti sínu í janúar s.l. Verkefni nefndarinnar eru m.a. að vinna frumathugun og greinargerð um tillögur starfsnefndarinnar og leggja fyrir ráðuneytið. Þessu verkefni skal lokið fyrir lok þessa árs. Einnig á nefndin að vinna að samningum um lóðir og nýtingu þeirra. Gera þarf deiliskipulag fyrir svæðið og er nefndinni ætlað að sinna því verkefni með Reykjavíkurborg eftir þörfum. Gera skal áætlun um forgangsröðun framkvæmda og bygginga og ber nefndinni að kynna þá áætlun fyrir heilbrigðisráðherra vorið 2003. Einnig skal nefndin kynna tíma- og fjárhagsáætlanir vegna fyrirhugaðra framkvæmda í maí 2003. Loks er nefndinni ætlað að skoða fjármögnunarleiðir sem koma til greina við fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu, m.a. samstarf við einkaaðila. Þessar áætlanir eiga einnig að liggja fyrir í maí á næsta ári. Formaður nefndarinnar er Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og varaformaður er Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss. Aðrir nefndarmenn eru Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands. Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri tækni og eigna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og Magnús Skúlason, deildarstjóri á fjármálaskrifstofu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.
Auglýst eftir styrkjum til gæðaverkefna í heilbrigðisráðuneytinu
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið auglýsir eftir styrkjum vegna gæðaverkefna í heilbrigðiskerfinu í samræmi við Gæðaáætlun ráðuneytisins. Unnt er að sækja um styrki í nafni einstakra stofnana eða starfseininga. Gæðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins var samþykkt árið 1999 og er þar kveðið á um að ráðuneytið auglýsi styrki til gæðaverkefna einu sinni á ári. Markmiðið með styrkveitingunum að efla frumkvæði á þessu sviði heilbrigðisþjónustunnar. Í maí s.l. voru gæðaverðlaun ráðuneytisins veitt og hlutu þrettán verkefni styrk sem nam samtals 2,7 milljónum króna. Verkefnin voru fjölbreytt, ýmist klínísk verkefni sem varða þjónustu við sjúka, ýmis umbótaverkefni, gerð handbóka um gæðamál, viðhorfskannanir, fræðsluátök o.fl. Þeir sem hyggjast sækja um gæðastyrki að þessu sinni þurfa að skila umsókn til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins fyrir 31. desember. Styrkupphæðir eru frá kr. 100.000 upp í kr. 500.000 og fer það m.a. eftir eðli og umfangi verkefnanna.
NÁNAR...
Nefnd um tilhögun ferliverka á Landspítala - háskólasjúkrahúsi
Skipuð hefur verið nefnd um tilhögun ferliverka á LSH (Landspítala - háskólasjúkrahúsi). Nefndinni er ætlað að byggja á vinnu nefndar sem lauk starfi sínu með skýrslu um ferliverk í starfsemi spítalans og skilað var í byrjun desember 2001 og koma málinu á framkvæmdastig. Meðal verkefna nefndarinnar er að fjalla um og gera tillögur um í hvaða greinum og í hve ríkum mæli á að sinna ferliverkum á spítalanum, ráðleggja í hvaða röð á að byggja upp göngudeildarstarf spítalans, meta hverjir skuli sinna ferliverkaþjónustu í einstökum greinum og gera tillögur um greiðslufyrirkomulag til starfsmanna. Nefndin á að skila áfangaáliti fyrir 15. desember og lokaáliti í janúar 2003.
NÁNAR...
Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 umfjöllunarefni hjúkrunarþings Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga efnir til hjúkrunarþings þann 15. nóvember n.k., kl. 9:00-17:00, í Rúgbrauðsgerðinni Borgatúni 6, Reykjavík. Á þinginu verður fjallað um Heilbrigðisáætlun til ársins 2010, hlutverk hjúkrunarfræðinga í áætluninni og á hvern hátt hjúkrunarfræðingar geti stuðlað sem best að því að markmiðum áætlunarinnar verði náð. Fjallað verður sérstaklega um forgangsverkefni heilbrigðisáætlunar sem eru áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir, börn og ungmenni, eldri borgarar, geðheilbrigði, hjarta og heilavernd, krabbameinsvarnir og slysavarnir.
DAGSKRÁIN...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
1. nóvember 2002