Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2002 Matvælaráðuneytið

Ráðssetu Íslands í FAO lýkur

Fréttatilkynning nr. 13/2002:


Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti.


Stjórnarnefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO-ráðið) kom saman í Róm dagana 28. október til 2. nóvember 2002. Fundinn sátu fulltrúar utanríkis- og landbúnaðarráðuneytis. Á fundinum var fjallað um ýmis málefni tengd stjórnun og rekstri stofnunarinnar, þar á meðal starfsáætlun næstu ára í ljósi niðurstaðna leiðtogafundarins um fæðuöryggi sem haldinn var í Róm í júní síðastliðnum.

Ísland hefur undanfarin þrjú ár setið i FAO-ráðinu fyrir hönd Norðurlandanna, en þeirri stjórnarsetu lýkur um næstkomandi áramót þegar Finnland tekur við sætinu. Stjórnarfundurinn nú var því sá síðasti á kjörtímabili Íslands. Á þessu tímabili hefur Ísland annast verkstjórn og samhæfingu Norðurlandanna á vettvangi stjórnarnefndar FAO, sem er stærsta sérstofnun Sameinuðu þjóðanna med 183 aðildarríki. Stjórnarsetan hefur gefið íslenskum stjórnvöldum tækifæri til að öðlast meiri þekkingu og áhrif innan FAO og stuðlað að því að styrkja ímynd Íslands sem virks þátttakanda í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Á því kjörtímabili sem senn lýkur hefur Ísland meðal annars tekið þátt í því að móta rammaáætlun fyrir starfsemi FAO til ársins 2015 og sértækari starfsáætlanir til skemmri tíma, sem miða almennt að því að vinna gegn hungri, bæta lífskjör, efla framleiðni í landbúnaði og bæta aðstæður fólks í dreifbýli.

Á leiðtogafundi FAO í sumar var samþykkt yfirlýsing til að árétta fyrri fyrirheit um að fækka hungruðum um helming fyrir árið 2015, en yfir 800 milljónir manna búa enn við hungur víðsvegar um heiminn. Undirstrikaði Ísland við það tækifæri mikilvægi sjávarútvegs fyrir fæðuöryggi í heiminum og nauðsyn þess að allar auðlindir hafsins séu nýttar með sjálfbærum hætti. Í því sambandi má nefna að Ísland skipulagði í samstarfi við FAO alþjóðaráðstefnu, sem haldin var í Reykjavík í október 2001 um sjálfbærar fiskveiðar í vistkerfinu.

Þó stjórnarsetu Íslands sé nú um það bil að ljúka munu íslensk stjórnvöld áfram vinna með virkum hætti að málefnum FAO í nánu samstarfi við Norðurlöndin.

Reykjavík, 1. nóvember 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta