Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Athugasemd vegna fréttar um fjármál Raufarhafnarhrepps

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 2. nóvember sl. er fjallað um erfiða fjárhagsstöðu Raufarhafnarhrepps og rætt við oddvita sveitarfélagsins um orsakir þess vanda og aðkomu félagsmálaráðuneytisins að málinu. Í ummælum sem höfð eru eftir oddvita er að finna nokkrar rangfærslur sem ráðuneytinu þykir ástæða til að leiðrétta.

Það er rétt sem fram kemur í fréttinni að eftir sölu á eign Raufarhafnarhrepps á hlutafé í Jökli hf. í maí 1999 átti sveitarfélagið umtalsverða fjármuni til ráðstöfunar og var einungis hluti þeirra nýttur til framkvæmda í sveitarfélaginu. Til að ávaxta fjármunina keypti sveitarstjórn innlend og erlend hlutabréf á árunum 1999 og 2000 og mun sú ákvörðun hafa verið byggð á ráðgjöf frá verðbréfafyrirtæki.

Ráðuneytið hafði fyrst afskipti af ráðstöfun fjármuna Raufarhafnarhrepps eftir að erindi barst frá fulltrúum minnihluta sveitarstjórnar, dags. 15. október 2000, varðandi lögmæti þess að sveitarstjórn ákvað hinn 9. október 2000 að veita fyrirtækinu Netveri ehf. 10 milljón króna skilyrt lán, en umrætt fyrirtæki var í eigu þáverandi sveitarstjóra Raufarhafnarhrepps. Rétt er að taka fram að í erindinu var í engu minnst á aðrar ráðstafanir á fjármunum Raufarhafnarhrepps.

Með bréfi dags. 16. október 2000 óskaði ráðuneytið skýringa sveitarstjórna á málinu. Í svari sveitarstjóra, dags. 18. október 2000, kom fram að umrædd lánveiting hefði verið afturkölluð.

Þrátt fyrir að því máli sem beint var til ráðuneytisins hafi í raun lokið örfáum dögum eftir að erindi barst ráðuneytinu fylgdist ráðuneytið áfram með fjármálum sveitarfélagsins og í febrúar 2001 sendi ráðuneytið sveitarstjórn bréf þar sem óskað var skýringa á hlutafjárkaupum í þremur fyrirtækjum, samtals að fjárhæð 10 milljónir króna. Jafnframt óskaði ráðuneytið upplýsinga um ráðstöfun fjármuna sem sveitarfélagið eignaðist við sölu á hlutafé í Jökli og bárust umbeðnar upplýsingar í mars 2001. Kom þar meðal annars fram að sveitarfélagið hafði á árinu 2000 tapað umtalsverðum fjármunum vegna kaupa á innlendum og erlendum verðbréfum.

Að fengnum skýringum sveitarstjórnar lauk ráðuneytið afskiptum af málinu með bréfi dags. 4. apríl 2001. Þar áréttaði ráðuneytið mikilvægi þess að sveitarstjórnir gæti ábyrgðar í fjárstjórn sinni, hvort sem um er að ræða ákvarðanir um fjárfestingar eða ávöxtun fjármuna á borð við þá sem Raufarhafnarhreppur eignaðist við sölu á eignarhluta sínum í Jökli hf.

Í bréfinu benti ráðuneytið jafnframt á þá miklu ábyrgð sem sveitarstjórnarmönnum er falin að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins og að sveitarstjórn hljóti að verða að horfa til þess að tryggja örugga ávöxtun fjármuna sveitarfélagsins og sneiða eftir megni hjá áhættusömum fjárfestingum. Sama sjónarmið eigi einnig við um þátttöku í atvinnufyrirtækjum í heimabyggð. Þar verði því að gera þá kröfu til sveitarstjórnarmanna að þeir kynni sér eftir föngum rekstrarhorfur viðkomandi atvinnufyrirtækja áður en ákvörðun er tekin um að leggja fram hlutafé.

Samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar ráða sveitarfélög sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Í þessu felst að ríkisvaldinu er ekki heimilt að grípa inn í stjórnun sveitarfélags nema til þess sé lagaheimild. Í sveitarstjórnarlögum er ekki að finna ákvæði sem takmarka heimildir sveitarstjórna til að velja leiðir til ávöxtunar fjármuna sveitarfélagsins. Eftir ítarlega athugun varð það niðurstaða ráðuneytisins varðandi Raufarhafnarhrepp að ekki væri unnt að ganga lengra en gert var í fyrrgreindu bréfi, þ.e. að minna kjörna sveitarstjórnarmenn á skyldur þeirra til að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins og sneiða eftir megni hjá áhættusömum fjárfestingum.

Ráðuneytið væntir þess að mál Raufarhafnarhrepps verði sveitarstjórnarmönnum og öllum þeim sem fara með opinbert fé víti til varnaðar. Málefni Raufarhafnarhrepps hafa að undanförnu verið til skoðunar hjá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga og mun ráðuneytið leita leiða til að aðstoða nýkjörna sveitarstjórn við að komast út úr þeim fjárhagsvanda sem sveitarfélagið glímir nú við.

Einnig hefur ráðuneytið í hyggju að skoða, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, hvort tilefni sé til lagabreytinga þannig að kveðið verði skýrt á um hvaða heimildir sveitarstjórnir hafa við meðferð fjármuna. Virðist rík ástæða til að gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir að mál af þessu tagi endurtaki sig.

Rétt er að fram komi að samkvæmt þeim gögnum sem ráðuneytið hefur undir höndum virðist sveitarstjórn Raufarhafnarhrepps hafa tekið fullt tillit til athugasemda ráðuneytisins og er ekki að sjá að sveitarfélagið hafi fjárfest í hlutabréfum á árunum 2001–2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum