Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2002 Matvælaráðuneytið

Ísland aðildarríki að Atlantshafs túnfiskveiðiráðinu.

Fréttatilkynning



Ísland gerðist nýlega aðildarríki að Atlantshafs túnfiskveiðiráðinu (International Commission for the Conservation of Atlantic Tunas, ICCAT). Ársfundi ICCAT lauk í gær, mánudaginn 4. nóvember, í Bilbao á Spáni.
Ísland hefur sótt fundi ráðsins undanfarin ár sem áheyrnaraðili en tók nú þátt í fyrsta sinn sem fullgilt aðildarríki. ICCAT stjórnar veiðum á ýmsum tegundum túnfiska um allt Atlantshaf. Einn túnfiskstofn (Austur Atlantshafstúnfiskur, e. East Atlantic Bluefin Tuna) gengur inn í íslenska lögsögu og á undanförnum árum hafa verið gerðar tilraunir til að þróa túnfiskveiðar við Ísland. Um er að ræða einhverja verðmætustu sjávarafurð sem til er.
Fram að þessu hefur ICCAT úthlutað aflaheimildum eingöngu með tilliti til veiðireynslu en horft algerlega framhjá þáttum eins og rétti strandríkja til að þróa veiðar sínar. Á ársfundinum árið 2001 voru samþykkt ný viðmið fyrir úthlutun veiðiheimilda sem breyttu þessari stöðu og sköpuðu grundvöll fyrir því að Ísland gæti gerst aðili að ICCAT án þess að taka á sig skuldbindingar sem fela í sér að réttindum Íslands sem strandríkis væri fórnað.
Það lá fyrir ársfundinum í ár að hefja vinnu við endurúthlutun veiðiheimilda í samræmi við nýju viðmiðin. Ljóst er að þessi vinna mun taka mörg ár. Niðurstaðan nú varðandi þann stofn sem gengur inn í íslenska lögsögu er sú að samþykkja stjórnunarráðstafanir til fjögurra ára, þar sem ýmis strandríki auka við afla sinn jafnt og þétt. Um er að ræða fyrsta skrefið í endurúthlutuninni, en það ferli mun halda áfram og til stendur að nýta umrætt fjögurra ára tímabil til viðræðna um næstu skref. Almenn sátt er um að endurúthlutunin eigi sér stað smám saman frekar en í stórum skrefum. Strandríkin þurfa tíma til að þróa flota sína til að þau geti nýtt allar þær veiðiheimildir sem þau munu hafa þegar ferlinu er lokið auk þess sem þessi nálgun dregur úr erfiðleikum þeirra þjóða sem þurfa að draga úr veiðum sínum vegna endurúthlutunarinnar.
Samkvæmt þeim fjögurra ára stjórnunarráðstöfununum sem nú hafa verið samþykktar hefur Ísland heimild til að veiða 30 tonn árið 2003, sem er nokkuð meira en íslensk skip hafa mest veitt á einu ári. Aflaheimildir Íslands munu svo tvöfaldast á umræddum fjórum árum. Árið 2004 verður hlutur Íslands þannig 40 tonn, 50 tonn árið 2005 og 60 tonn árið 2006. Ísland mun taka virkan þátt í umræðum um næstu skref í endurúthlutuninni.


Sjávarútvegsráðuneytið
5. nóvember 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta