Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2002 Matvælaráðuneytið

400 ár frá einokun.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp í Norræna húsinu - 400 ár frá einokun -
6. nóvember 2002.


Góðir fundarmenn!

Fyrr á þessu ári voru fjórar aldir liðnar frá því að Danakonungur kom á verslunareinokun hér á landi. Fræðimönnum sem sérstaklega hafa sinnt verslunarsögu þótti af því tilefni ástæða til að bera saman bækur sínar um viðfangsefni og rannsóknir og tengja það lifandi umræðum um ástand mála á líðandi stund.
Þrátt fyrir þær breytingar sem orðið hafa á ellefu öldum eru viðskipti og öruggar samgöngur við önnur ríki Íslendingum jafn mikil lífsnausðyn og í árdaga sögu okkar þegar "skrautbúin skip fyrir landi / flutu með fríðasta lið / færandi varninginn heim". Þannig lýsti Jónas rómantískri draumsýn sinni þegar farið var að styttast í að verslun yrði gefin frjáls og vekja þurfti þjóðinni kjark og framtíðarvonir. En raunsæið birtist í afstöðu þeirra forfeðra okkar sem stóðu frammi fyrir bláköldum pólitískum veruleika ársins 1262 og áskildu í Gissurarsáttmála að Noregskonungur tryggði landsmönnum siglingu og þar með erlenda nauðsynjavöru.

Í seinni tíð hafa ýmis gömul viðhorf í sagnfræði verið tekin til endurskoðunar í ljósi nýrrar vitneskju og nýrra athugana, m.a. ýmislegt sem varðar verslunarsögu Íslendinga. Langt fram eftir 20. öld var það ríkjandi skoðun meðal sagnfræðinga og rithöfunda, sem fjölluðu um verslunarsögu, að vegna einokunarinnar mætti jafnvel kenna Dönum um enn meiri áþján og einangrun en sumir telja unnt að sýna fram á. Sjaldnar var á það bent að einokun er þess eðlis að sé henni beitt á annað borð verður niðurstaðan svipuð hvað sem þjóðerni líður. Óvíst er t.d. að Íslendingum hefði til lengdar fallið betur við enska eða þýska einokunarkaupmenn en danska.

Heildarmyndin verður ekki heldur skilin nema menn átti sig á því að með því að fá kaupmönnum sinna eigin borga einkarétt á Íslandsversluninni vildi Kristján fjórði efla vaxandi borgarastétt í Danmörku og stuðla að því að þegnar hans nytu ágóðans af þessum atvinnuvegi fremur en Þjóðverjar. Um leið þóttist hann vera að tryggja hagsmuni danska ríkisins sem Ísland taldist hluti af, þótt misbrestur vildi verða á því að þeim hlutanum væri þjónað eins og til var ætlast á pappírnum. Ýmislegt bendir líka til þess að danskir kaupmenn hafi ekki verið færir um það í byrjun sautjándu aldar, og hugur landsmanna birtist löngum í bænarskrám út af verslunarólagi og kvörtunum yfir vörum og verðlagi eða óbilgirni kaupmanna og stjórnvalda. Einna þungbærust var einokunin svo þegar kaupsvæðaverslunin hófst 1684 og þungar refsingar lágu t.d. við því ef bændum af Svalbarðsströnd varð það á að versla á Akureyri, en ekki Húsavík. Dæmi frá þeim dögum hafa fræg orðið í sögu og bókmenntum. Þótt slakað væri á klónni upp úr aldamótunum 1700 og einokunarverslunin sem slík væri loks afnumin 1787 hafði það kostað harða glímu. Í þeirri baráttu stóðu íslenskir valdsmenn 18. aldar fremstir með Skúla Magnússon í fylkingarbrjósti og hafa orðið tákn hennar í hugum okkar. Baráttan fyrir auknu verslunarfrelsi var síðan samofin þjóðfrelsisbaráttu 19. aldar og leiddi loks til frjálsrar verslunar sem í sívaxandi mæli færðist á innlendar hendur. Af þeirri þróun er ekki minni saga en verslunareinokuninni forðum.

Allt þetta, sem ég hef minnst á, og ótalmargt annað er vitaskuld viðfangs- og rannsóknarefni þeirrar sögu íslenskrar utanlandsverslunar frá upphafi til okkar daga sem unnið er að útgáfu á. Að baki því verkefni býr fræðilegur og menningarlegur metnaður og kannski getur sú saga líka að einhverju leyti orðið til leiðbeiningar nú ef eitthvað má af sögunni læra. Í pallborðsumræðunum í dag tengjast svo fortíð og nútíð þegar spurt verður hvort einokunar gæti í íslensku atvinnulífi á okkar tíð. Það er mér sérstakt ánægjuefni að þar ætla að leiða saman hesta sína fulltrúar fræðimanna, neytenda og verslunar á líðandi stund. Eitt er fræði, annað atvinnuvegur, og fulltrúar beggja þurfa að talast við.

Við erum ekki lengur háð komu vorskipanna á sama hátt og forðum og tæknin gerir okkur kleift að stunda rafræn viðskipti heimshornanna á milli á örskotsstund. Verslun og viðskipti í harðri og hraðri samkeppni nútímans eru samt engu síður flókinn og áhættusamur atvinnuvegur en áður var. Öll eigum við jafn mikið undir því nú sem fyrr hvernig hann er stundaður og hvaða skilyrði honum eru búin. Og rannsóknir á honum og sögu hans geta verið bæði fræðilegar og hagnýtar.
Ég óska Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og þeim sem að verslunarsögunni og verkefni dagsins hafa unnið góðs og gagnlegs árangurs af því starfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta