Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2002 Matvælaráðuneytið

Haustráðstefna Félags löggiltra endurskoðenda

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á haustráðstefnu Félags löggiltra endurskoðenda,
8. nóvember 2002.

Ágætu endurskoðendur og aðrir gestir. Það er kunnara en frá þurfi að segja í þessum hópi að ímynd endurskoðenda hefur mjög breyst á undanförnum áratug eða svo. Áður fyrr voru endurskoðendur málaðir í skrítlum sem leiðinlegir baunateljarar og sjálfsagt hefur það endurspeglað að hluta til viðhorf almennings til stéttarinnar. Nú á dögum er endurskoðendum fátt óviðkomandi í rekstri fyrirtækja og reyndar færist það mjög í vöxt að endurskoðendur skipti um starfsvettvang og stýri fyrirtækjum.
Því er þó ekki að leyna að ímynd hins nýja endurskoðanda hefur beðið hnekki út í hinum stóra heimi að undanförnu, sér í lagi í Bandaríkjunum. Ýmislegt hefur misfarist í reikningsskilum skráðra fyrirtækja þannig að tiltrú manna á þessum fyrirtækjum og reyndar markaðnum öllum hefur minnkað.

Þessir atburðir hafa hrundið af stað mikilli umræðu um stöðu og hlutverk endurskoðenda. Umræðan er þó ekki nema að litlu leyti komin til Íslands en óhjákvæmilegt er að hún fari vaxandi. Hér þarf meðal annars að huga að því hvort þörf sé á opinberu eftirliti með endurskoðendum. Þá er einnig mikið starf óunnið í því að samhæfa íslenskt regluverk á sviði reikningsskila að hinni alþjóðlegu þróun. Í því skiptir mestu máli að Evrópusambandið hefur nú ákveðið að reglur Alþjóða reikningsskilaráðsins skuli almennt gilda innan Evrópusambandsins. Það er ljóst að það er mikil vinna framundan í fjármálaráðuneytinu að búa svo um hnúta að regluverkið fullnægi ítrustu kröfum.
Góðir fundarmenn. Í mínu ráðuneyti hefur farið mikill tími í að móta regluverk fyrir fjármálamarkaðinn. Miklar líkur eru á að hlutverki ríkisins sem eiganda fjármálafyrirtækja fari nú senn að ljúka. Hlutverk ríkisins verður þá það eitt að bæta samkeppnishæfni fjármálamarkaðarins og gæta hags viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Af nógu er að taka í því efni því markaðnum fleygir fram og fjármálalöggjöf sömuleiðis.
Við þurfum að nýta okkur fjármálalöggjöfina til að búa til sem bestar aðstæður fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Með því á ég ekki við að regluverk sem þessi fyrirtæki búa við sé sem léttbærast fyrir þau. Þau ríki sem þannig hafa búið um hnúta njóta almennt ekki trausts. En regluverkið verður að vera skilvirkt og réttlátt. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að regluverkið sé sem umfangsmest.

Regluverk á fjármagnsmarkaði er til muna meira heldur en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það kemur til af mikilvægi fjármagnsmarkaðarins í hagkerfinu. Fjármálafyrirtæki geyma sparnað almennings, veita almenningi og fyrirtækjum lán og ráðgjöf og sinna greiðslumiðlun. Fjármálafyrirtæki eiga allt sitt undir trausti viðskiptavina. Viðskiptavinir fyrirtækjanna verða að geta treyst því fullkomlega að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna þess eða aðrir hagsmunir. Þetta er lykilatriði. Gjaldþrot eins fjármálafyrirtækis hefur víðtækari áhrif á virkni hagkerfisins heldur en í öðrum atvinnugreinum. Með umfangsmiklu eftirliti og ítarlegri reglusetningu reyna stjórnvöld því að stuðla að sem mestu öryggi í starfsemi lánastofnana.

Grunnur flestra laga á fjármagnsmarkaði var að mestu mótaður um það leyti sem við Íslendingar skrifuðum undir Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það var mjög stórt skref á sínum tíma. Við uppfylltum tilskipanir ESB á mjög skömmum tíma og höfum síðan verið að byggja ofan á þann grunn. Nú þegar markaðurinn er orðinn þroskaðri er kominn tími til að endurskoða grunninn.
Síðastliðin þrjú ár hefur verið að störfum sérstök bankalaganefnd í því skyni að endurskoða bankalöggjöfina og gera hana skilvirkari. Ég hef nú lagt frumvarp nefndarinnar um fjármálafyrirtæki fyrir Alþingi. Í frumvarpinu er safnað saman ákvæðum um stofnun og starfsemi allra tegunda fjármálafyrirtækja, en þau eru viðskiptabankar, sparisjóðir, fjárfestingarbankar, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða. Með þessari heildarlöggjöf falla úr gildi fern eldri lög á sviði fjármálamarkaðar. Þá mun ég leggja fram á þessu þingi ný heildarfrumvörp um verðbréfaviðskipti annars vegar og verðbréfasjóði hins vegar.
Góðir fundarmenn. Þar sem umhverfi sprotafyrirtækja verða hér til umfjöllunar í dag get ég ekki látið hjá líða að kynna stuttlega frumvarp um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum. Hér er um að ræða veigamestu breytingu sem gerð hefur verið á stuðningsumhverfi opinberra rannsókna frá því að lögin um rannsóknir í þágu atvinnuveganna voru sett árið 1965. Frumvarpið, sem er eitt þriggja samstæðra frumvarpa um nýskipan vísindarannsókna og nýsköpun, snertir starfsskilyrði fjölda fólks, stofnana og fyrirtækja.

Markmið frumvarpsins er að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Því markmiði verður best náð með því að byggja upp tæknilega getu fyrirtækja og frumkvöðla, til að takast á við tækniþróun sem leitt geti til nýsköpunar atvinnulífsins. Frumvarpið fjallar um þær aðgerðir sem beita þarf til þess að vísindaleg þekking geti orðið að söluhæfum afurðum, vöru og þjónustu og þannig skilað fjárfestingum í vísindarannsóknum út í atvinnulífið. Farvegur þessara aðgerða er annars vegar nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og hins vegar Tækniþróunarsjóður.

Nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er ætlað að verða vettvangur fyrir miðlun þekkingar til fyrirtækja og frumkvöðla, þar sem m.a. verður veitt leiðsögn um stofnun og rekstur fyrirtækja, tæknileg úrlausnarefni leyst og nýrri þekkingu miðlað til atvinnulífsins. Þessi þekkingarmiðlun er forsenda þess að atvinnulífið geti fylgst með alþjóðlegri þróun og staðist aukna samkeppni á alþjóðamarkaði. Að auki er nýsköpunarmiðstöðinni ætlað að hafa frumkvæði um gagnvirkt samstarf á milli vísindamanna, stofnana og fyrirtækja um málefni er lúta að nýsköpun. Hér er ekki um nýja starfsemi að ræða, heldur er fyrst og fremst verið að festa í sessi og útvíkka starfsemi sem rekin hefur verið í nokkur ár sem reynsluverkefni hjá Iðntæknistofnun undir nafninu IMPRA.

Tækniþróunarsjóði er ætlað að koma að fjármögnun þróunar nýsköpunarverkefna í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs. Um er að ræða aðkomu á frumstigi nýsköpunarinnar við lok hagnýtra rannsókna. Á frumstigi nýsköpunar eiga sér stað markvissar rannsóknir og tækniþróun með markaðs- og notendatengdum áherslum. Það er á þessu stigi sem reynir á hvort hin vísindalega þekking getur orðið að söluhæfri vöru.

Áherslur Vísinda- og tækniráðsins á hverjum tíma, verða ráðandi um starfsemina en mikilvægt er að ráðið geti tryggt það að vísindaþekkingin fái eðililega útrás og leiði í reynd til eflingar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara fyrir þjóðina. Sjóðnum er ætlað að vera brú á milli þess er stuðningur Rannsóknarsjóðs, skv. frumvarpi menntamálaráðherra, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sleppir og þess að framtaksfjárfesta fýsir að koma að nýjum nýsköpunarverkefnum. Mjög hefur skort á opinberan stuðning við þetta frumstig nýsköpunarinnar.



Ágætu fundarmenn. Efni ráðstefnunnar hér í dag er víðfemt og sýnir vel að áhugi endurskoðanda nær langt út fyrir fræðilega umræðu um reikningsskil. Ég vonast til að ráðstefnan verði til gagns og gamans fyrir alla hlutaðeigandi. Ég þakka fyrir.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta