Ræða fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í annarri nefnd allsherjarþingsins
Nr. 121
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Þorsteinn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, flutti hinn 7. nóvember ræðu um Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í annarri nefnd allsherjarþingsins. Í ræðunni er m.a. fjallað um rúmlega tveggja áratuga farsælt samstarf íslenskra stjórnvalda og Háskóla Sameinuðu þjóðanna, en Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna var stofnaður á Íslandi árið 1978 og Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna tuttugu árum síðar.
Í ræðunni kemur fram að sjálfbær nýting nátturuauðlinda er sameiginlegur áhersluþáttur beggja skóla. Staðsetning þeirra á Íslandi byggir á að bæði fiskveiðar og nýting jarðhita eru grundvallarþættir í íslensku efnahags- og þjóðlífi. Á fjórða hundrað vísindamanna hafa stundað nám í skólunum tveimur frá upphafi, flestir þeirra frá þróunarlöndum, en það er í samræmi við þá stefnu íslenskra stjórnvalda að aðstoða þróunarríki við að byggja upp og þróa sjálfbæra nýtingu auðlinda.
Ræða fastafulltrúa fylgir.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 8. nóvember 2002