Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2002 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla starfshóps um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng


Skýrsla starfshóps um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng (341K)


Starfshópur sem dómsmálaráðherra skipaði þann 27. mars 2001 og falið var að fjalla um þingsályktun Alþingis um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng, hefur lokið störfum og skilað skýrslu.

Þingsályktunin sem var samþykkt á Alþingi, þann 15. desember 2000 og dómsmálaráðherra var falin framkvæmd, á var svohljóðandi:

"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja reglur um flutning á hættulegum efnum um jarðgöng.

Í reglunum verði m.a. kveðið á um hvort slíkir flutningar skuli leyfðir og þá með hvaða skilyrðum, þ.e. flutningstækjum, ökuhraða, eftirliti og hvort loka skal göngum fyrir annarri umferð meðan flutningurinn fer fram."


Í starfshópinn voru skipuð Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, sem jafnframt var formaður, Gestur Guðjónsson verkfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, Guðmundur Gunnarsson yfirverkfræðingur, tilnefndur af Brunamálastofnun, Hjálmar Björgvinsson aðalvarðstjóri, tilnefndur af ríkislögreglustjóra, Hreinn Haraldsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Vegagerðinni, Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri, tilnefndur af lögreglustjóranum í Reykjavík, og Víðir Kristjánsson deildarstjóri, tilnefndur af Vinnueftirlitinu. Sandra Baldvinsdóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og síðar Aagot Óskarsdóttir lögfræðingur á sama stað, voru ritarar starfshópsins.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að í jarðgöngum, sérstaklega í löngum göngum, eru slys yfirleitt fátíðari en á opnum vegum. Vegna hins lokaða rýmis geta slys, og þá einkum eldsvoðar, hins vegar haft mjög alvarlegar afleiðingar. Í skýrslunni kemur ennfremur fram að margir hafa bent á að óþarfar takmarkanir á flutningi hættulegra efna skapi aukakostnað fyrir flutningsaðila og þar með neytendur, og geti auk þess valdið aukinni slysahættu á öðrum leiðum sem flutningunum er beint á í staðinn.

Í Hvalfjarðargöngunum hafa verið settar takmarkanir á umferð með auglýsingu lögreglustjórans í Reykjavík í júní 1998 (augl. B 373/1998). Ekki hafa verið auglýstar neinar takmarkanir á umferð í öðrum jarðgöngum.

Reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng eru mjög mismunandi milli landa, og jafnvel milli ganga í einstökum löndum. Skort hefur á þekkingu á þeirri áhættu sem þessum flutningum er samfara, og því hvernig með hana eigi að fara. Það var ekki talið á færi einstakra þjóða að leysa þau mál, og því var á vegum OECD og PIARC (Alþjóðlega vegasambandið) ákveðið að hefja vinnu við alþjóðlegt verkefni um flutning hættulegra efna um jarðgöng. Evrópusambandið lagði einnig töluvert af mörkum til verkefnisins. Markmið verkefnisins var að gera tillögur að reglum og aðferðum til að bæta öryggi varðandi flutning á hættulegum efnum um jarðgöng. Vinna við verkefnið hófst 1995 og lauk henni með útgáfu lokaskýrslu seint á árinu 2001. Í niðurstöðum verkefnis OECD um flutning hættulegra efna um jarðgöng er lagt til að:

1. Hættulegum farmi verði skipt í 5 flokka.
2. Áhætta verði metin á grundvelli áhættumatslíkans (Quantitative Risk Assesment Model). Á sama hátt verði metnar þær breytingar á áhættu sem tilteknar aðgerðir hafa í för með sér. Við ákvarðanatöku verði stuðst við ákvarðanalíkan (Decision Support Model).

Áhættumatslíkanið hefur ekki enn verið opinberlega kynnt eða sett fram, en hefur verið til prófunar og kvörðunar hjá nokkrum þjóðum. Þá hefur ákvarðanalíkanið ekki enn verið tekið í notkun í þeim ríkjum sem ætla að byggja á niðurstöðum OECD verkefnisins, en stefnt er að því að það verði á næstu misserum. Starfshópurinn hafði áhuga á að láta kanna áhættu í Hvalfjarðargöngunum með áhættumatslíkaninu og var að ráði forsvarsmanna þeirra sem stóðu að verkefninu leitað til Norðmanna um að meta áhættu í Hvalfjarðargöngunum, þar eð þar væru mannvirki og umferðaraðstæður líkastar því sem er hérlendis, en norska Vegagerðin er ein þeirra stofnana sem hefur líkanið til prófunar og féllst hún á að taka Hvalfjarðargöngin til skoðunar. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hefur síðan borið niðurstöðurnar saman við fyrri útreikninga með eigin líkani, en verkfræðistofan hafði áður gert áhættumat fyrir Hvalfjarðargöngin.

Það virðist ljóst miðað við niðurstöður úr hinu alþjóðlega áhættumatslíkani að Hvalfjarðargöngin eru örugg þegar litið er til sambærilegra mannvirkja annars staðar. Starfshópurinn telur að þetta tákni hins vegar ekki að ástæðulaust sé að huga að frekari öryggismálum í göngunum og er lagt til að fylgt verði boðuðum tillögum Sameinuðu þjóðanna, og:

  • hættulegum farmi verði skipt í 5 flokka samkvæmt tillögum frá OECD. Flokkuninni er lýst í fylgiskjali 2 í skýrslunni, en í meginatriðum felur hún í sér eftirfarandi:
Flokkur A: Engar takmarkanir á flutningi hættulegs farms.
Flokkur B: Flutningur á eldfimu gasi í tönkum og sprengiefni í >50 kg. farmi er bannaður.
    Flokkur C: Flutningur á eldsneyti í tönkum (og tómum eldsneytistönkum) er einnig bannaður. Aðeins leyft að flytja gas í hylkjum.
    Flokkur D: Sömu takmarkanir að flestu leyti eins og í flokki C.
Flokkur E: Allur flutningur hættulegs farms er bannaður.
  • sett verði upp sérstök skilti við öll jarðgöng á vegakerfinu, þar sem fram kemur hvaða flokka efna er leyft að flytja um viðkomandi göng. Ef um takmörkun er að ræða geti hún verið mismunandi innan ársins, vikunnar og dagsins.
  • gert verði áhættumat fyrir öll jarðgöng með nýju áhættumatslíkani (Quantitative Risk Assessment Model) frá OECD og ákvörðun um hugsanlegar takmarkanir á flutningi hættulegs farms í þeim verði teknar út frá niðurstöðum þess mats.
  • stuðst verði við ákvarðanalíkan frá OECD (Decision Support Model) þegar það liggur fyrir í endanlegri útgáfu, til samanburðar áhættu við flutning eftir mismunandi leiðum.

Lagt er til að framangreind ákvæði verði sett í reglugerð um flutning á hættulegum farmi, og að reglugerð um sektir og önnur viðurlög verði endurskoðuð m.t.t. brota á þeim ákvæðum.

Einnig er lagt til að lögreglustjóri geti í samráði við veghaldara sett sérstök skilyrði um flutningstæki, ökuhraða, eftirlit eða lokun ganga fyrir annarri umferð meðan á flutningi hættulegs farms stendur.

Samkvæmt niðurstöðum nýs áhættumats fyrir Hvalfjarðargöngin er áhættan í göngunum lítil, en þó er unnt að auka öryggið enn frekar með auknum takmörkunum á flutningi hættulegra efna. Með tilliti til þess, og með hliðsjón af því að umferð í göngunum hefur aukist umtalsvert frá því að núverandi takmarkanir voru ákveðnar, leggur hópurinn til að sá tími sem flutningurinn er bannaður verði lengdur. Umferðarþunginn ræður mestu um áhættuna og því er lagt til að flutningur hættulegs farms sem nú er bannaður um helgar verði einnig bannaður á virkum dögum meðan umferðin er mest, en á móti verði banni aflétt að næturlagi um helgar meðan umferðin er í lágmarki.

Lagt er til að Hvalfjarðargöng falli almennt í B flokk, en að frekari takmarkanir verði ákveðnar sem hér segir:

Mánudaga til fimmtudaga kl. 15.00-20.00 falli göngin í C flokk.
Frá kl. 10.00 á föstudögum til kl. 01.00 á laugardögum, frá kl. 07.00 á laugardögum til kl. 01.00 á sunnudögum og frá kl. 07.00 til kl. 24.00 á sunnudögum falli göngin í E flokk.
Um verslunarmannahelgi, páska og hvítasunnu falli göngin í E flokk og verði takmarkanir miðaðar við sömu tímabil og nú gilda.

Að lokum bendir starfshópurinn á mikilvægi þess að tillögur á grundvelli vinnu sem hófst síðla árs 2001að frumkvæði Vegagerðarinnar í samráði við Spöl ehf., og hófst síðla árs 2001, við endurskoðun öryggismála í jarðgöngum nái sem fyrst fram að ganga, ekki síst varðandi eftirlit með hættulegum farmi og réttindum bílstjóra.

Í séráliti Gests Guðjónssonar verkfræðings, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, kemur fram að hann styður flest það sem í skýrslunni stendur ef undan eru skilin ákveðin atriði í tillögum meirihluta hópsins, er varða akstur ólestaðra olíuflutningabíla um Hvalfjarðargöng. Telur hann ekki ásættanlegt að banna akstur tómra olíubíla um göngin á tímabilinu frá kl. 15 til 20 virka daga vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem það hafi í för með sér, enda hafi það ekki mikil áhrif í þá átt að draga úr áhættu. Akstur tómra bíla myndi hafa um 5-10 millj. kr. árlegan kostnað í för með sér vegna lengingar akstursleiðar um Hvalfjörð og frá vinnuverndarsjónarmiði sé stjórnandi bifreiðarinnar settur í óþarfa hættu með því að láta hann aka tómum olíubíl fyrir Hvalfjörð í öllum veðrum.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum