Notkun fyrirtækja á upplýsingatækni
Rannsókn Hagstofu Íslands gerð í maí og júní 2002
Hagstofa Íslands hefur gefið út skýrslu sem hefur að geyma niðurstöður rannsóknar á notkun fyrirtækja á upplýsingatæknibúnaði og rafrænum viðskiptum þeirra.Rannsóknin var framkvæmd í maí og júní 2002 og tók hún til allra fyrirtækja í ákveðnum atvinnugreinum, með 10 starfsmenn eða fleiri, alls 1.149 fyrirtækja. Rannsóknin er byggð á samræmdum spurningalista Evrópusambandsins og eru því niðurstöður rannsóknar Hagstofu Íslands samanburðarhæfar við niðurstöður rannsókna í öðrum löndum evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Í skýrslunni er meðal annars gerð grein fyrir tölvunotkun og internettengingu fyrirtækja, hvernig fyrirtæki nýta sér heimasíður, bæði sem notendur og veitendur þjónustu á Internetinu. Rafræn viðskipti eru skoðuð með tilliti til hversu mörg fyrirtæki hafa keypt eða selt vöru í gegnum pöntunarform á heimasíðu. Eins er athugað hvað hindrar fyrirtæki í að selja vörur sínar í gegnum Internetið.
Af helstu niðurstöðum könnunarinnar má nefna eftirfarandi:
· 98% fyrirtækja nota tölvur við starfsemi sína
· 92% fyrirtækja eru með internettengingu
· 65% fyrirtækja eru með ADSL eða aðra hraðvirkari tengingu við Internetið
· 64% fyrirtækja hafa komið sér upp heimasíðu á Internetinu
· 44% fyrirtækja höfðu í árslok 2001 pantað vörur og/eða þjónustu í gegnum pöntunarform á heimasíðu annarra fyrirtækja eða einstaklinga.
· 24% fyrirtækja höfðu móttekið pantanir í gegnum pöntunarform á heimasíðu í árslok 2001.
Skýrsluna í heild sinni, ásamt töflum og frekari niðurstöðum má nálgast á heimasíðu Hagstofu Íslands: