Skipulagsbreytingar í félagsmálaráðuneyti
Hermann Sæmundsson hefur verið settur í stöðu ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu til eins árs í fjarveru Berglindar Ásgeirsdóttur, sem tekið hefur við stöðu eins af fjórum aðstoðarframkvæmdastjórum OECD í París. Hermann hefur gegnt stöðu skrifstofustjóra sveitarstjórnarskrifstofu ráðuneytisins frá 1. febrúar þessa árs, en var áður deildarstjóri á sveitarstjórnarsviði ráðuneytisins.
Unnið hefur verið að því undanfarin misseri að innleiða nýtt skipurit í félagsmálaráðuneytinu. Hið breytta skipulag felur í sér að ráðuneytinu er skipt upp í þrjár fagskrifstofur sem hver um sig gegnir ákveðnum málaflokkum, auk almennrar skrifstofu. Einnig hefur starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga innan ráðuneytisins verið afmörkuð með skýrari hætti.
Skrifstofurnar eru eftirfarandi:
Almenn skrifstofa, skrifstofustjóri er Sesselja Árnadóttir og er hún jafnframt staðgengill ráðuneytisstjóra.
Skrifstofa sveitarstjórnarmála, settur skrifstofustjóri er Garðar Jónsson.
Skrifstofa fjölskyldumála, skrifstofustjóri er Þór Garðar Þórarinsson.
Skrifstofa jafnréttis- og vinnumála, skrifstofustjóri er Gylfi Kristinsson.
Forstöðumaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er Elín Pálsdóttir.