Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2002 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra á aðalfundi Dómarafélags Íslands

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra á aðalfundi Dómarafélags Íslands 15. nóvember 2002.



Hr. formaður
Góðir dómarar

Það er mér ávallt ánægja að fá að ávarpa ykkur á aðalfundi Dómarafélags Íslands og svo er einnig í dag.

Þegar þið haldið aðalfundi ykkar í nóvember ríkir venjulega eins konar umsátursástand í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem og í öðrum fagráðuneytum, þegar straumur skriflegra og munnlegra orðsendinga streymir frá ráðuneytunum til starfsmanna og ráðherra fjármálaráðuneytisins til þess að minna á ýmsar breytingar sem gera þurfi á fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.

Og af fenginni reynslu get ég vitnað um að árangur af allri þessari fyrirhöfn er sjaldnast mikill þótt einhverjir sigrar vinnist við og við.

Í ár ríkir einnig það ástand sem upp kemur á fjögurra ára fresti að við stjórnmálamennirnir þurfum að leggja störf okkar fyrir dóm kjósenda, fyrst fyrir dóm samherjanna, sem velja fólk á framboðslista og síðan í dóm hins almenna kjósenda. Hér dæma ekki atvinnudómarar eins og þið eftir fyrirfram settum reglum, heldur hinir almennu borgarar ríkisins sem dæma um verk okkar og traust og fara þá jafnt eftir reynslu sinni og tilfinningu. Það reynum að sjálfsögðu að auka og bæta reynslu kjósenda af okkur með störfum okkar á kjörtímabilinu, en það er erfiðara að hafa áhrif á tilfinningu fólks fyrir okkur. Stundum er því haldið fram að hárgreiðsla eða fataburður geti haft þar meiri áhrif er verk okkar og skoðanir. Í þeim vísindum eða kenningum sem framboðsfræðingar nútímans boða , skipta alls konar "aukaatriði" miklu og sagt er að þeir taki að sér að "hanna" frambjóðendur frá grunni með stuðningi nýjustu markaðsrannsókna á smekk kjósenda fyrir fötum fólks og útliti.
Kannski verða dómsmálaráðherrar framtíðarinnar þannig sérhannaðir, en vonandi verður það ekki um mína daga.

En við skulum segja skilið við kosningafræðin að sinni og snúa okkur að öðrum málum.

Nýlega bárust mér í hendur tillögur frá dómurum um breytingar á dómstólalögum, þar sem stungið er upp á því að þau verði endurskoðuð með það í huga að taka upp starfsheitið aðstoðardómari við héraðsdóma og lagt er til að tiltekin verkaskipting ríki milli þeirra það starfsheiti myndu bera og héraðsdómaranna. Segja mætti að hér sé um afturhvarf að ræða varðandi dómsvald aðstoðarmanna, sem um langt skeið nefndust dómarafulltrúar. Tillögur þessar eru til skoðunar í ráðuneytinu. Ég vil fá nákvæma úttekt á áhrifum þeirra breytinga sem hér um ræðir og jafnframt samanburð á tillögunum og öðrum hugmyndum sem stefna að sama marki, það er að gera héraðsdómstólunum kleyft að anna því álagi sem á þeim hvílir og sem nú um stundir fer vaxandi.

Að sjálfsögðu viljum við halda þeim góða árangri sem dómstólar landsins hafa náð í skömmum málsmeðferðartíma og kanna ber allar þær leiðir sem færar eru í því sambandi.

Miklar breytingar eru að verða á framkvæmd náms í lögfræði eins og öllum er kunnugt og sýnist sitt hverjum um þær breytingar. Nú ætla fjórir háskólar hér á landi að taka upp kennslu í lögfræði og dugir ekkert minna til, en í Danmörku eru tveir háskólar með slíka kennslu og í Noregi þrír. Ekki verður hjá því komist að taka afstöðu til þeirra breytinga af hálfu dóms- og menntamálaráðuneytanna og má þar nefna ákvæði í lögum um sem skilyrða kandidatspróf frá Háskóla Íslands ýmist til allra embætta, eins og lög frá 1911 mæla fyrir um , eða til einstakra starfsgreina svo sem starfa lögmanna og dómara.

Því hefur verið varpað fram að ekki bráðliggi á með lagabreytingar, þar sem hinir nýju lögfræðingar, "viðskiptalögfræðingar" og "heimskautalögfræðingar" verði ekki komnir á götuna með rós í hnappagati fyrr en að nokkrum árum liðnum.
En þetta er ekki svo. Það unga fólk sem nú er að hefja laganám í hinum nýju lögfræðideildum, þarf að fá fullvissu fyrir því að menntun þeirra verði einhvers metin við námslok og þá til hvers. Málið er því til meðferðar þótt ákvörðun liggi enn ekki fyrir.
Við þekkjum dæmi þess frá öðrum ríkjum, að unnt sé að ljúka lögfræðiprófi með margs konar þverfaglegri menntun, sem þó inniberi fræðslu í grundvallarfögum lögfræðinnar. Síðan er aðgangur að embættum háður viðbótarnámi, reynslu- og starfstíma og prófum til lagakennslu, málflutnings eða dómarastarfa.

Tekið hefur verið upp hér á landi all víðtækt námskeiðshald fyrir verðandi lögmenn, sem lýkur með prófi og er það í átt við það sem víða tíðkast og sem enskumælandi menn nefna "bar-examination" eða "admission to the bar". Þetta á vafalaust eftir að þróast áfram í framtíðinni. Varðandi dómendur þá eru þess einnig dæmi á meginlandi Evrópu að þeir þurfi að ljúka sérstöku "dómaranámi" eða reynsluvist við dómstörf. Má nefna ríki eins og Austurríki og Frakkland, sem hafa slíka skipan á og ég get nefnt það dæmi að fyrir fáum árum lauk íslenskur héraðsdómari námi við franskan dómaraskóla. Ég ætla ekki að leggja til stofnun námsbrautar eða skóla fyrir dómendur hér á landi, en hins vegar varpa fram þeirri spurningu hvort ekki megi haga störfum aðstoðarmanna við héraðsdómstóla á þann veg að þeir færist frá einföldum til flókinna dómstólsverka í samfelldu ferli undir umsjón héraðsdómara, sem ljúki með einhvers konar viðurkenningu, - viðurkenningu sem létt geti þeim aðgang að öðrum störfum í þjónustu "frú justitiu" síðar meir, jafnt í stjórnsýslu, við dómstóla eða lögmennsku svo að dæmi séu nefnd.

Góðir áheyrendur,

Ég ætla að ljúka máli í dag með því að óska ykkur og félagi ykkar allra heilla á ókomnum árum og góðrar skemmtunar í lok þessa fundardags.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta