Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2002 Forsætisráðuneytið

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands og Landssambands eldri borgara

Í framhaldi af viðræðum fulltrúa Landssambands eldri borgara og ríkisstjórnar Íslands í samráðsnefnd aðila varð að samkomulagi að leita formlegs samráðs og sátta um stefnu og aðgerðir ríkisvaldsins í málum sem mestu varða um afkomu og aðbúnað aldraðra.

Sérstakur starfshópur hefur fjallað um brýn úrlausnarefni í öldrunarþjónustu, um tekjuþróun aldraðra og tilefni til breytinga á greiðslum almannatrygginga. Hópurinn hefur í dag skilað tillögum um margþættar aðgerðir sem bæði snúa að aðbúnaði og skipulagi öldrunarþjónustu og hækkun á greiðslum almannatrygginga.

Það er sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögurnar séu til vitnis um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspegli samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem komi til framkvæmda næstu tvö til þrjú árin eins og nánar er lýst í tillögum hópsins. Ríkisstjórnin hefur þegar fjallað um framangreindar tillögur að stefnumótun og aðgerðir og samþykkt að beita sér fyrir því að þær nái fram að ganga.

Jafnframt árétta aðilar vilja til áframhaldandi samráðs um þau viðfangsefni sem tillögurnar taka til og annað það sem upp kann að verða tekið í samráðsnefnd aðila.

Ráðherrabústaðnum 19. nóvember 2002

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta