Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2002 Matvælaráðuneytið

21. ársfundur NEAFC.

Fréttatilkynning
frá sjávarútvegsráðuneytinu


Föstudaginn 15. nóvember s.l. lauk 21. ársfundi Norðaustur - Atlantshafsfiskveiðiráðsins NEAFC, en hann hófst í London 12. nóvember sl.

Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á úthafskarfa, norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl fyrir árið 2003.

Á fundinum var m.a. kynnt ráðgjöf ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðsins, um stjórnun veiða á úthafskarfa. Í ráðgjöfinni felst að haga eigi stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið sé tillit til þess að á svæðinu séu tveir karfastofnar, annar veiddur innan og við landhelgismörk Íslands og hinn sunnan við Hvarf á Grænlandi. ICES lagði til að veiðum yrði dreift þannig að ekki væri hætta á að annarhvor stofninn yrði ofveiddur. Sem kunnugt er hafa úthafskarfaveiðar Íslendinga að mestu leyti beinst að þeim fyrrnefnda þar til á síðustu tveimur vertíðum er veiðum hefur verið stjórnað í samræmi við ráðgjöf ICES. Ísland ásamt Grænlendingum og Færeyingum lögðu á það ríka áherslu á fundinum að stjórn veiðanna yrði hagað í samræmi við ráðgjöf ICES. Þess í stað kom fram tillaga um einn heildarkvóta úr báðum stofnunum sem hljómaði upp á 119.000 tonn. Var tillaga þessi samþykkt á fundinum. Sendinefnd Íslands mótmælti tilllögunni og taldi ófært að fallast á hana þar sem hún gengi þvert á tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsinns um ábyrgar veiðar úr úthafskarfastofnunum og er því ekki bundið af henni.

Eins og kunnugt er hafa Norðmenn krafist þess að skipting heildaraflaheimilda milli strandríkja í norsk-íslenskri síld (Ísland, Noregur, Færeyjar, Rússland og Evrópusambandið) verði endurskoðuð. NEAFC hefur, á síðustu árum séð um stjórnun veiða á úthafinu á grundvelli samkomulags strandríkjanna. Þar sem enn hefur ekki náðst samkomulag milli strandríkjanna um heildarstjórnun veiða, er að svo komnu ekki í gildi neitt samkomulag um veiðar á norsk - íslenskri síld fyrir árið 2003. Ráðgjöf ICES miðast við að heildarveiðin verði ekki umfram 710.000 tonn árið 2003, en það er lækkun úr 850.000 tonnum frá því í ár.

Ekki náðist heldur samkomulag um skiptingu veiðiheimilda í kolmunna og stefnir því í að veiðar á árinu 2003 verði áfram stjórnað einhliða af hverri aðildarþjóð fyrir sig. Hins vegar verður viðræðum haldið áfram milli aðila á næstunni og reynt til þrautar að ná samkomulagi.

Samþykkt var tillaga um stjórn veiða á makríl, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands á því að ekki er í samkomulaginu tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.

Stjónunaraðgerðir varðandi veiðar djúpsjávartegunda (löngu, blálöngu, búra ofl.) og ýsu á Rockall svæðinu voru samþykktar samhljóða á fundinum.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Kolbeinn Árnason skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 19. nóvember 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta