Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2002 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra við setningu Umferðarþings.

Ávarp Sólveigar Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra við setningu Umferðarþings, 21.nóvember 2002.



Fundarstjóri
Góðir þingfulltrúar.


Umferðarþing á vegum Umferðarráðs hafa ætíð vakið mikla athygli og áunnið sér fastan sess í markvissri umræðu um umferðaröryggismál. Það er mér því fagnaðarefni þegar flautað er til leiks á nýju Umferðarþingi, í þetta sinn þess fimmta í röðinni. Eins og þið vitið hef ég haft mikinn áhuga á auknu umferðaröryggi og ég von svo sannarlega að sérstakt átak í þessum málum skili góðum árangri.

Senn kemur að þeim tímamótum að þess verður minnst að eitt hundrað ár eru liðin frá því að fyrsta bifreiðin kom til Íslands. Þessi tæpa öld er ekki langt tímabil í sögu þjóðar, en í okkar sögu er hún hún framfara- og umbrotatími sem ekki á sér hliðstæðu.

Við sem nú brunum um greiðfæra vegi og götur eigum erfitt með að ímynda okkur hvernig hér var umhorfs þegar Alþingi veitti Thomsen konsúl styrk árið 1903 til þess að gera tilraunir með bifreið á íslenskum vegum. Bifreiðin kom sem kunnugt er til landsins árið 1904 og reyndist hún fremur illa við erfiðar aðstæður hér á landi. Nú er krafan sú að komast hratt og örugglega á milli staða. Ég vil í störfum mínum leggja sérstaka áherslu á það síðarnefnda, það er að hver og einn komist heill og óskaddaður úr sérhverri ökuferð eða öðrum ferðum þar umferð bifreiða kemur við sögu.

Með vaxandi bifreiðaumferð kom í ljós að hún hafði slysahættu í för með sér og var í fyrstu gripið til einfaldra ráða eins og að flauta fyrir horn, en brátt varð ljóst að grípa varð til reglusetningar af hálfu hins opinbera, reglusetningar sem stöðugt verður flóknari og yfirgripsmeiri. Er þar bæði um að ræða reglur um umferð, reglur um gerð og búnað ökutækja, reglur um ástand og hegðun ökumanna svo og ákvæði er mæla fyrir um refsingar þegar út af reglunum er brugðið.

Af tímamótum í reglusetningu má nefna bifreiðalögin voru sett árið 1914, reglugerð um bifreiðar og próf fyrir bifreiðarstjóra árið eftir og árið 1968 komu til framkvæmda lög um að skipta úr vinstri yfir í hægri umferð, sem hafði reyndar verið lögbundið áður, en kom þá ekki til framkvæmda sökum hernáms Breta á landinu. Í undirbúningi og í kjölfar hægri umferðarinnar 1968 var umferðarfræðsla stórlega aukin. Í því skyni að gera hana markvissari var ákveðið að setja á stofn Umferðarráð sem vissulega hefur haft afgerandi áhrif á viðbrögð stjórnvalda í umferðarmálum. Það hefur hamrað áróðri fyrir bættri umferðarmenningu inn í landsmenn, staðið fyrir Umferðarþingum og verið stjórnvöldum til ráðuneytis um hvaðeina sem snertir þennan málaflokk.

Ég hef í starfi mínu reynt að efla þetta starf og tel ég að miklum áfanga í því hafi verið náð hinn 1. október s.l., þegar Umferðarstofa tók til starfa, en hún var mynduð með samruna stjórnsýslu og starfsemi á vegum Umferðarráðs og starfsemi Skráningarstofunnar hf., sem séð hefur um skráningu ökutækja, eftirliti með starfsemi skoðunarstofa ökutækja og ýmsum öðrum verkefnum því tengdu. Umferðarstofa tekur einnig við vinnslu ýmissa verkefna er tengjast gerð og búnaði ökutækja og sem áður voru unnin í dómsmálaráðuneytinu. Með samruna þessara verkefna undir einn hatt koma fram veruleg samlegðaráhrif, starfið verður markvissara og starfsaðstaða batnar. Ég trúi því að við eigum eftir að sjá mikinn og góðan árangur af þessum breytingum, sem hér verður nánar lýst á þinginu. Ég vil nota tækifærið til þess að þakka öllum starfsmönnum þessara stofnana fyrir gott samstarf um breytingarnar.

Einn hluti þeirra er sú breyting, að Umferðarráð, sem starfar áfram, verður eflt. Í því skyni verður formaður þess í fullu starfi og ég hef fengið Óla H. Þórðarson
til þess að taka við því tvíþætta hlutverki. Ég tel ég að þar hafi einstaklega vel til tekist – því fáir eða enginn er betur heima í umferðaröryggismálum og þróun þeirra en hann..

Þann 25. nóvember 1994 samþykkti þáverandi ríkisstjórn stefnumörkun í umferðaröryggismálum og lýsti þeim vilja sínum að, gerð yrði framkæmdaáætlun um aukið umferðaröryggi til ársloka 2000. Þarna var stigið merkt framfaraskref í umferðarmálum og í kjölfar þess hefur verið unnið á undanförnum árum. Umferðaröryggisáætlanir hafa síðan verið samþykktar á Alþingi, síðast þann 29. apríl 2002, þegar samþykkt var þingsályktun um stefnumótun um aukið umferðaröryggi. Samkvæmt henni ályktar Alþingi að á næstu 11 árum, eða fyrir lok ársins 2012, skuli stefnt að fækkun banaslysa og annarra alvarlegra umferðarslysa um 40 % miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Þessu takmarki verði náð með sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja, áhugahópa um umferðaröryggismál og alls almennings. Tillagan gerir ráð fyrir að dómsmálaráðherra kynni Alþingi í byrjun hvers árs stöðu umferðaröryggismála og hvernig miðar í átt að settu marki. Gert er ráð fyrir að starfs- og framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð árlega. Þetta er vissulega metnaðarfullt verkefni, en ég vona að okkur takist að ná markmiðinu.

Með vísan til þessarar ályktunar Alþingis og í því skyni að koma á sem heildstæðustu skipulagi á framkvæmd umferðaröryggisáætlunar hef ég nú skipað sérstaka umferðaröryggisnefnd sem ætlað er að vinna að framgangi þingsályktunarinnar. Skal hún ásamt Umferðarráði leitast við að ná sem víðtækastri samstöðu í þjóðfélaginu um bætta umferðarmenningu og á að leita allra tiltækra leiða til þess að stemma stigu við alvarlegum umferðarslysum. Skal að því stefnt að sem flestir aðila, sem koma að umferðaröryggismálum með einhverjum hætti, setji sér skýr markmið og vinni samkvæmt þeim.

Í nefndinni eru þau Óli H. Þórðarson formaður og framkvæmdastjóri Umferðarráðs, formaður, Ellen Ingvadóttir löggiltur skjalaþýðandi og dómtúlkur, Gunnar Felixson forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar hf., Jón F. Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Kristján Vilhelm Rúriksson verkfræðingur, fulltrúi Umferðarstofu, Rögnvaldur Jónsson framkvæmdastjóri tæknisviðs Vegagerðarinnar, Sandra Baldvinsdóttir lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, varaformaður Umferðarráðs og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eftir að nýskipað Umferðarráð hefur komið saman og tilnefnt þriðja mann í stjórn ráðsins, verður viðkomandi fulltrúi jafnframt skipaður í umferðaröryggisnefndina.

Þá hef ég ákveðið að skipa úr hópi nefndarmanna fimm manna framkvæmdastjórn umferðaröryggisáætlunar. Hlutverk hennar skal vera að gera starfs- og framkvæmdaáætlun um framgang áætlunarinnar. Skal hún í umboði dómsmálaráðuneytis kalla eftir upplýsingum um aðgerðir frá helstu aðilum sem sinna umferðaröryggisstarfi í landinu og gera í framhaldi af því athugasemdir ef þörf krefur. Skal að því stefnt að aðilar setji sér skýr markmið um aðgerðir sem stuðla að auknu umferðaröryggi og vinni síðan samkvæmt þeim. Á þann hátt leggi hver og einn fram sinn skerf til öruggari umferðar svo ná megi þeim meginmarkmiðum sem þingsályktunin gerir ráð fyrir.

Jafnframt er stjórninni ætlað að vinna að tillögugerð til ráðuneytisins um þær breytingar á umferðarlögum og reglugerðum sem hún telur að stuðli að öruggari umferð í landinu.

Formaður framkvæmdastjórnarinnar er Óli H. Þórðarson og aðrir stjórnarmenn þau Sandra Baldvinsdóttir, Jón F. Bjartmarz og Rögnvaldur Jónsson. Fimmti stjórnarmaðurinn kemur síðan úr stjórn Umferðarráðs.

Með þeirri skipan mála sem ég hef nú ákveðið, að skipa í umferðaröryggisnefnd fleiri aðila en fyrr og sérstaka framkvæmdastjórn sem hafi skýrt umboð ráðuneytisins til þess að fylgja eftir ákvörðunum, ásamt því að hafa formennsku þessara nefnda og Umferðarráðs á einni hendi, tel ég að ábyrgð á framgangi umferðaröryggisstarfs í landinu hafi verið sett í traustan farveg sem líklegur sé til þess að ná því metnaðarfulla markmiði að fyrir árið 2012 verði Ísland orðið fyrirmyndarland í umferðarmálum. Dómsmálaráðuneytið mun fylgja þessum málum eftir af festu og stuðla að því að ná um þau breiðri samstöðu á Alþingi. Það er grundvallaratriði til þess að verulegur árangur náist. Við þurfum samstillt átak.

Ráðuneytið hefur haft til skoðunar ýmsar tillögur sem settar hafa verið fram í því skyni að auka umferðaröryggi. Þessar tillögur þarf að vega og meta eins og gengur, en lifandi umræða um umferðaröryggismálin er okkur öllum nauðsynleg. Meðal annars hafa verið raddir um að hækka bílprófsaldurinn upp í 18 ár. Ég tel ekki rétt að við förum að þessu sinni í slíka, en ég bind vonir við þá nýbreytni sem tekin verður upp um næstu áramót, þegar ökumönnum sem nýkomnir eru með ökuréttindi gefst kostur á að fara í svokallað akstursmat og fá þá strax fullnaðarskilríki, ef þeir hafa staðið sig vel. Ég vil skoða reynsluna af þessu nýmæli farið verður í það að hækka bílprófsaldurinn. Akstursmati er ætlað að stuðla að því að nýir ökumenn vandi sig sérstaklega vel í upphafi akstursferils síns og eigi þess kost að fara í akstursmat að ári loknu. Við verðum með einhverju móti að auka ábyrgðartilfinningu ungmennana, sem á ári hverju bætast í hóp ökumanna.

Eitt af því sem gæti aukið færni ungra ökumanna og reyndar allra ökumanna væri að koma á fót sérstökum aksturæfingasvæðum eða því sem nefnt hefur verið "ökugerði".Fyrirmyndir að slíku þekkjum frá nágrannaríkjunum, þar sem notkun slíkra svæða er skyldubundin í ökunámi og ökumenn þar þjálfaðir í hálkuakstri og akstri á malarvegum.

Hér hefur verið unnið að því í nokkurn tíma að koma á fót slíku svæði og er það ekki síst að frumkvæði þeirra Óla H. Þórðarsonar og Guðbrandar Bogasonar formanns Ökukennarafélags Íslands. Erfiðlega hefur gengið að finna fjárhagsgrundvöll fyrir rekstri slíks svæðis eða svæða, því eitt svæði getur trauðla þjónað ökukennslu um land allt. Þó hefur málinu þokað fram að því leyti að Reykjavíkurborg hefur úthlutað Ökukennarafélaginu heppilegu svæði í borgarlandinu. Um tíma stóðu vonir til þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu kæmu að gerð "ökugerðis" á þessari lóð, en þær brugðust því miður.

Ég hef nú falið Umferðarstofu að fara ofan í öll gögn þessa máls og að leita allra leiða til þess að unnt verði að koma fyrsta ökugerðinu á fót.


Fundarstjóri, góðir þingfulltrúar

Ég er þess fullviss að á þessu umferðarþingi verður, eins og á fyrri þingum um málefni sem stuðla muni að þeirri framtíðarsýn sem umferðaröryggisáætlun miðast við. Hér er saman komið fólk sem býr yfir mikilli og margvíslegri reynslu sem hefur margt til málanna að leggja.

Ég óska ykkur velfarnaðar í mikilsverðum störfum ykkar hér á þinginu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta