Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-október 2002. Greinargerð: 21. nóvember 2002.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-október 2002 (PDF 17K)

Nú liggja fyrir tölur um greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrstu tíu mánuði ársins. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðhreyfingar og er sambærilegt við almenn sjóðstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki samanburðarhæfar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.

Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 14,4 milljarða króna samanborið við 1,2 milljarða neikvæða stöðu á sama tíma í fyrra. Hins vegar var þessi breyting að mestu séð fyrir í áætlun ársins, þar sem staða á handbæru fé frá rekstri er aðeins 3,6 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir. Frávikið má alfarið rekja til minni tekna af sölu eigna. Fjármunahreyfingar voru jákvæðar um 7,1 milljarð króna í stað 0,8 milljarða neikvæðrar stöðu í fyrra. Þar munar mestu um sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands í júní sl., en innstreymi vegna hlutafjársölu nam um 5 milljörðum króna. Auk þess hækka innheimtar afborganir um 3,1 milljarða frá sama tíma í fyrra.

Heildartekjur ríkissjóðs námu 191 milljarði króna og hækkuðu um 9,5 milljarða frá fyrra ári, eða um rúmlega 5%. Skatttekjur ríkissjóðs hækka mun minna, eða um 3,3%. Skýringin á þessum mismun felst fyrst og fremst í auknum tekjum af sölu eigna.

Greidd gjöld nema 202,1 milljarði króna og hækka um 19,4 milljarða frá fyrra ári, eða um 10,6%. Miðað við fjárheimildir ársins eru gjöldin hins vegar 4,9 milljörðum umfram það sem ætlað var, eða 2,5%. Útgjöld til félagsmála (þ.m.t. heilbrigðis- fræðslumál og almannatryggingar) eru 124,3 milljarðar, en þau vega 62% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þar munar mestu um útgjöld til heilbrigðismála, sem nema 51,4 milljörðum króna og hækka um 6,2 milljarða króna frá fyrra ári. Þá nema greiðslur til almannatrygginga um 39,1 milljarði og hækka um 3,9 milljarða króna. Greiðslur til atvinnumála eru 30,1 milljarður og hækka um 1 milljarð, eða tæp 4% frá fyrra ári. Vaxtagreiðslur eru 17 milljarðar og hækka um 1,1 milljarð króna milli ára.


Lántökur ríkissjóðs námu 43,5 milljörðum króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Þar af nema erlend langtímalán 34,4 milljörðum króna en þau voru tekin til endurfjármögnunar erlendra lána og til þess að mæta tímabundinni greiðslufjárþörf ríkissjóðs innan ársins. Á móti dregur úr erlendum skammtímalánum um 2,3 milljarða. Lántökur innanlands námu 11,4 milljörðum króna. Á móti lántökum vega afborganir að fjárhæð 28,6 milljarðar króna. Þá voru 7,5 milljarðar greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs. Greiðsluafkoma ríkissjóðs er nú í jafnvægi, samanborið við 28,4 milljarða jákvæða stöðu á sama tíma í fyrra.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta