Hádegisverðarfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í Prag
Nr. 128
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, stýrði í dag umræðum utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í vinnuhádegisverði þeirra á leiðtogafundi bandalagsins í Prag, en hann er nú heiðursforseti ráðs utanríkisráðherra bandalagsins.
Á fundinum var fjallað um málefni Balkanskaga, samstarf Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins og loks samstarf bandalagsins og Rússlands í NATO-Rússlandsráðinu.
Utanríkisráðherra undirstrikaði mikilvægi áframhaldandi viðveru NATO á Balkanskaga, en markmiðið væri eigi að síður að draga smátt og smátt úr umfangi þeirra.
Þá ítrekaði utanríkisráðherra nauðsyn þess að NATO og ESB nái samkomulagi um varanlegt fyrirkomulag samvinnu og samstarfstengsla Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.
Að því er varðar samstarf NATO og Rússlands lýsti ráðherra yfir ánægju með hversu vel hefði tekist til með hinn nýja samráðsvettvang, NATO-Rússlandsráðið, sem tekin var ákvörðun um á fundi utanríkisráðherranna í Reykjavík í maí sl. og var staðfest formlega á leiðtogafundinum í Róm.
Á morgun funda utanríkisráðherrarnir með utanríkisráðherra Rússlands í NATO-Rússlandsráðinu og síðan með utanríkisráðherra Úkraínu í samstarfsráði NATO og Úkraínu.
Nánari upplýsingar um fundinn er að finna á heimasíðu NATO http://www.nato.int/
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 21. nóvember 2002