Reikningsskil sveitarfélaga
Reikningsskila- og upplýsinganefnd hefur að undanförnu fjallað um svokölluð samstæðureikningsskil sveitarfélaga í þeim tilgangi að samræma framsetningu þeirra eins og kostur er. Reglur nefndarinnar felast í niðurstöðum nefndarinnar er byggist m.a. á sérstakri athugun á framsetningu reikningsskila sveitarfélaga í Svíþjóð, en einnig hafði nefndin hliðsjón að reikningsskilareglum sveitarfélaga í Danmörku.
Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er gert ráð fyrir að um reikningsskil sveitarfélaga gildi ákvæði laga um ársreikninga nema annað eigi við og tekið er fram í reglugerð eða reglum settar á grundvelli hennar. Eðlilegt er því að almennum reglum og reikningsskilavenjum verði fylgt í reikningsskilum sveitarfélaga nema sérstakar ástæður gefi tilefni til annars.
Þrátt fyrir þá viðleitni að gera reikningsskil sveitarfélaga og reikningsskil fyrirtækja á sambærilegan hátt eru hlutverk þessara eininga ólík. Sveitarfélögum hefur verið falið með lögum að sinna tilteknum verkefnum er þau fjármagna með ákveðnum tekjustofnum. Stærsti hluti tekna sveitarfélaga eru skatttekjur sem kveðið er sérstaklega á um í lögum. Í A-hluta sveitarfélags er tilgreindur fjárhagur þeirrar starfsemi sem að hluta eða að öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum. Í reikningsskilum A-hluta er því hvorki markmiðið að draga sérstaklega fram hagnað eða tap af lögbundinni starfsemi þess né hlut þess í afkomu fyrirtækja sveitarfélags sem falla undir B-hluta. Því er ekki hægt að líta á reikningsskil A-hluta sveitarfélags á sama hátt og reikningsskil móðurfélags í félagasamstæðu. Tengsl móðurfélags og dóttur- og hlutdeildarfélaga þess eru afar ólík tengslum A-og B-hluta sveitarfélags og byggð upp á öðrum forsendum en í sveitarfélagi. Innbyrðis tengsl félagasamstæðu eru oftast byggð upp til að ná markmiðum um hámarkshagkvæmni í rekstri félaga eða til að ná markmiðum í markaðs- eða stjórnunarlegum tilgangi. Tengsl A- og B-hluta sveitarfélags eru oftast byggð upp á grundvelli þeirra verkefna sem þau þurfa að sinna með lögum eða valkvæðum hætti og grundvallast niðurstaðan sumpart á pólitískum og tæknilegum sjónarmiðum. Því er talið eðlilegt að í reikningsskilum A-hluta sveitarfélags verði megináherslan lögð á að leiða fram ráðstöfun skatttekna í stað þess að draga sérstaklega fram hagnað eða tap.
Í B-hluta sveitarfélags eru tilgreind fyrirtæki sveitarfélaga, stofnanir og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar, eins og kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum.
Nánari reglur um reikningsskil sveitarfélaga hafa verið settar fram í reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 944/2000, og auglýsingum sem birtar hafa verið í stjórnartíðindum á grundvelli hennar. Í samræmi við reglurnar er gert ráð fyrir að allar rekstrareiningar í eigu sveitarfélaga með sjálfstæðan fjárhag verði tilgreindar í B-hluta þess enda sé þar um fjárbindingu að ræða og, að þær hafi möguleika á að innheimta þjónustugjöld á móti rekstrargjöldum. Í þessu sambandi skiptir rekstrarform starfseminnar ekki máli og ljóst þykir að í mörgum tilvikum er markmið slíkra fyrirtækja að hámarka hagnað sinn að teknu tilliti til lögbundinnar skyldu og/eða pólitískrar stefnu.
Í ljósi framangreinds er eðlilegt að í reikningsskilum B-hluta sveitarfélags verði dregin fram hlutdeild þeirra í dóttur- og hlutdeildarfélögum í þeirra eigu. Þykir því eðlilegt að í B-hlutanum verði beitt hlutdeildaraðferð í reikningsskilum þeirra.
Eins og áður hefur verið vikið byggist niðurstaða reikningsskila- og upplýsinganefndar að miklu leyti á framsetningu reikningsskila sveitarfélaga í Svíþjóð. Í ársreikningi sænskra sveitarfélaga er gert ráð fyrir samfelldum reikningsskilum þerra er nái yfir heildarstarfssemi sveitarfélagsins, þar með talin sú starfsemi sem er rekin í gegnum aðra lögaðila. Áður var hugtakið samstæðureikningur notað sem samheiti fyrir framsetningu á bókhaldslegum niðurstöðum fyrir þá starfsemi sem rekin er í stofnunum sveitarfélagsins og í fyrirtækjum sveitarfélagsins. Í hugmyndafræði reikningsskilaréttar er hugtakið samstæða (koncern) einungis tengt sameiningu móðurfyrirtækis við dótturfyrirtæki sem leiðir til þess að þetta hugtak er ekki notað í lagatexta um reikningsskil sveitarfélaga.
Í 8. kapítula 2. gr laga (1997:614) um reikningsskil sænskra sveitarfélaga kemur eftirfarandi fram:
"Samfelld reikningsskil skulu innihalda rekstrarreikning (resultaträkning) sem felur í sér samfellu af rekstrarreikningi sveitarfélags eða landsþings og rekstrarreikningi annarra lögaðila sem sveitarfélagið eða landsþingið hefur veruleg áhrif á."
"Reikningsskilin skulu einnig innihalda efnahagsreikning sem byggir á samfellu á efnahagsreikning sveitarfélagsins eða landsþingsins og efnahagsreikning annarra lögaðila sem sveitarfélagið eða landsþingið hefur veruleg áhrif á."
Í greinargerð með fyrrgreindum texta kemur fram að með hugtakinu "veruleg áhrif" er meint að sveitarfélag eða landsþing eigi minnst 20% hlutabréfa í öðrum lögaðila. Reglan felur þó ekki í sér nákvæm mörk hvað skilgreininguna varðar.
Í greinargerðinni er einnig vísað til þess sem hefur verið viðtekin venja hjá sveitarfélögum og landsþingum og til leiðbeiningarits bókhaldsnefndar sveitarfélaga "Samstæðureikningar sveitarfélaga", rit nr. 7 árið 1991.
Á vefsíðu reikningsskila- og upplýsinganefndar er hægt að nálgast fyrirmæli sænska reikningsskilaráðsins nr. 8/2001 í heild sinni þar sem gerð er sérstök grein fyrir samfelldum reikningsskilum og framsetningu þeirra