Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2002 Matvælaráðuneytið

Opnun Evrópuhúss

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðsiptaráðherra


Ávarp við opnun Evrópuhúss
í Perlunni 22. nóvember 2002



Góðir gestir
Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin í Evrópuhúsið í Perlunni og opna sýningu þá sem hér er að hefjast.

Tilgangur hennar er:

1. að veita innsýn í árangur sem náðst hefur í Evrópusamstarfi með þátttöku Íslands í áætlunum á sviði mennta, menningar, vísinda og nýsköpunar á undanförnum árum.
2. að kynna þá möguleika sem standa Íslendingum til boða í evrópsku samstarfi á þessum sviðum á næstu árum.

Fyrr í dag fór fram kynning á nýjum áfanga í rannsóknaáætlun Evrópusambandsins sem er ein af þeim áætlunum sem hér er kynnt. Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eru meðal okkar af þessu tilefni og vil ég bjóða þá velkomna.

Dear representatives of the European Commission who are with us here today. Let me welcome you to this opening ceremony of the exhibition that celebrates some of the results from our participation in the cooperative programmes open to us through the agreement on the European Economic Area between EFTA and the European Union. In particular we take note of the important role of the Framework Program on R&D co-operation. We also promote the future possibilities open to Icelanders under the various programmes on youth-exchange and education, culture, science and technology. We think these programmes have served us well and wholeheartedly encourage a vigourous further pariticipation by Icelanders in these programmes.

We thank you for taking the time to come to Iceland to present to the Icelandic science and business community the 6th Framework Programme, which was formally opened in a grand way in Brussels only last week at one of the largest scientific gatherings ever, - attended by some 8.500 people. We are aware that the preparation of this new programme has been an ambitious undertaking by the Commission and introduces a number of new and innovative concepts intended to change the research landscape of Europe under the heading of the European Research Area.

We know that the so-called new instruments for participation in the Framework Programme will present considerable new challenges to our small scientific institutions and enterprizes. But we also know that the objectives of the various thematic programmes are of sufficient relevance to our national priorities to warrant serious efforts to find the right partners and present proposals of high quality to the Commission. We trust they will be as successful as they have been under the 4th and the 5th Framework Programme. Finally I ask you to convey our greetings to Commissioner Busquin for his visionary leadership.

Góðir gestir,
Íslands undirritaði samninginn um evrópska efnahagssvæðið árið 1992. Með honum fengu Íslendingar aðild að margvíslegu samstarfi innan Evrópu á sviði æskulýðs og íþróttamála, - mennta- og menningarmála, rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Á sýningunni sem hér er verið að opna gefur að líta dæmi um verkefni sem Íslendingar hafa tekið þátt í. Jafnframt gefst kostur á að kynna sér möguleika á styrkjum til frekari þátttöku í þessum áætlunum á næstu árum.

Stærst þessara samstarfsáætlana er svonefnd rammaáætlun um rannsóknasamstarf, sem við viljum nú kalla rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Íslendingar greiða ákveðið framlag til áætlunarinnar samkvæmt EES samningnum og eiga rétt á styrkjum úr henni til samstarfsverkefna sem þeir eiga aðild að og fara í gegnum faglegt mat samkvæmt reglum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins setur. Áætlunin er til fjögurra ára í senn og endurskoðuð reglulega. Nú er sú 6. í röð slíkra áætlana að hefjast. Í fjórðu og fimmtu áætluninni sem nú er að ljúka tóku Íslendingar virkan þátt og náðu afar góðum árangri. Þannig hefur engin þjóð tekið þátt í fleiri verkefnum miðaða við fólksfjölda, né fengið hærra hlutfall styrkja í sinn hlut en Íslendingar. Jafnframt hafa Íslendingar sjálfir gegnt forystu í hærra hlutfalli verkefna sem þeir taka þátt í en aðrar þjóðir. Hagur okkar af áætluninni er því ótvíræður. Ekki aðeins er viðskiptajöfnuðurinn hagstæður heldur eru samlegðaráhrifin sem fást úr samstarfsverkefnum við aðrar þjóðir okkur afar mikilsverð til að efla þekkingargrunn þjóðarinnar og margfalda áhrifamátt þess fjár sem við sjálf verjum til rannsókna. Þegar upp er staðið snýst þetta um samkeppnisstöðu okkar meðal þjóða á tímum hraðrar alþjóðavæðingar og vaxandi samkeppni á öllum sviðum.

Það er Íslendingum reyndar mikil og stöðug ögrun að standa okkur í því efni. Við höfum að undanförnu fengið tækifæri til að bera okkur saman við aðrar þjóðir á grundvelli ýmissa tölulegra mælikvarða sem sýna að við höfum verið að sækja í okkur veðrið og stöndum á mörgum sviðum í fremstu röð. Þar má nefna framúrskarandi stöðu okkar í hagnýtingu tölvu- , samskipta- og upplýsingatækni og að framlög hér á landi til rannsókna eru komin yfir 3% af þjóðarframleiðslu. Íslendingar eru þar nú meðal 5 efstu þjóða innan OECD. Þá má nefna að Íslendingar standa sig orðið afar vel í birtingu vísindagreina í virtum, alþjóðlegum vísindaritum. Íslendingar eru t.d. fremstir á sviði hugvísinda, jarðvísinda og klínískrar læknisfræði mælt í fjölda birtra greina miðað við fólksfjölda. Í nýlega birtri athugun á frammistöðu í nýsköpun meðal Evrópuþjóða erum við í fremstu röð og í alþjóðlegri athugum á virkni í frumkvöðlastarfi sem Háskólinn í Reykjavík birti í síðustu viku er Ísland fremst meðal OECD ríkja. Í sömu átt bendir hraðvaxandi útflutningur á íslenskum þekkingarvörum. Sum fyrirtækjanna í þeim greinum hafa náð alþjóðlegri lykilstöðu á markaðssviði sínu.

Margir munu einnig telja athyglina sem íslenskir hljómlistarmenn hafa vakið að undaförnu okkar merki um lifandi sköpunarmátt og framtakssemi meðal þjóðarinnar sem styður við nýsköpun í landinu. Það sama er að segja um íslenska kvikmyndagerðarmenn. Þetta eru auðvitað afar jákvæð merki og allt styrkir þetta hvað annað. Við sjáum sívaxandi fjölda starfa hér á landi í nýjum þekkingargreinum og við virðumst á góðri leið með að skapa þekkingarþjóðfélag. Reyndar tökum við eftir því að ungt og vel menntað fólk sem hefur lært og starfað erlendis, sækist eftir því að koma heim og taka þátt í athafnalífi hér á landi en vinna jafnframt á alþjóðlegum vettvangi. Þær áætlanir sem kynntar eru hér í dag eiga sinn þátt í að skapa möguleika í þeim efnum og tengja okkur við grannþjóðirnar. Ég vil því hvetja fólk til að kynna sér markmið þeirra og kosti sem bjóðast.

Nú liggja fyrir Alþingi þrjú frumvörp um yfirstjórn vísinda- og tæknimála hér á landi. Þeim er ætlað að auka vægi þess málaflokks í þjóðarbúskapnum og treysta samvirkni milli ráðuneyta og milli stofnana og efla samstarf ríkisvaldsins við atvinnulífið um stefnumótun á þessu mikilvæga sviði þjóðmála. Ég geri mér miklar vonir um að góð reynsla undafarinna ára af fjárfestingu í menntun, rannsóknum og nýsköpunararstarfi með vaxandi þátttöku atvinnulífsins skapi grundvöll að endurnýjun og áframhaldandi framfaraskeiði. Ég geri mér jafnframt vonir um enn meiri samvirkni en áður hefur þekkst milli opinberra aðila og fyrirtækja í landinu, - þvert á hina hefðbundnu atvinnuvegaskiptingu í landinu. Vísindi og tækniþekking er ekki bundin þeirri skiptingu og raunar er óeðlilegt að skipulag vísinda og tækni sé við hana miðuð. Hið nýja skipulag á að opna okkur leiðir til að brjótast út úr því mynstri og taka skipulag og starfshætti til endurskoðunar. Það mun vafalaust verða eitt af fyrstu verkefnum nýs vísinda- og tækniráðs að taka þau mál til endurskoðunar.

Ljóst er að þáttur vaxandi alþjóðasamstarfs mun einnig verða ofarlega á baugi, því mikilsvert er að skapa meira bolmagn til þátttöku í því meðal hinna mörgu smáu og dreifðu stofnana og fyrirtækja okkar. Við þurfum að geta mætt til samstarfsins með betur samhæft vísindasamfélag og mæta nýjum alþjóðlegum kröfum sem gerðar eru, - m.a. af Evrópusambandinu. Við eigum að vera tilbúin að tengja vísinda- og nýsköpunarkerfi okkar við hliðstæður þess í grannlöndum okkar. Norrænt samstarf mun einmitt snúast um þetta á næstu árum.

Á sviði grunnvísinda leita menn samstarfs um rekstur öndvegissetra og öndvegisneta þar sem hópar framúrskarandi vísindamanna vinna saman og m.a. þjálfa upp unga vísindamenn. Þar verða vísindaleg gæði og sköpunarmáttur í fyrirrúmi. Á sviði hagnýtra rannsókna leita menn víðtæks og þverfaglegs samstarfs um lausn mikilvægra tækniþróunarverkefna eða þjóðfélagslegra mála á sviði sjálfbærrar þróunar. Þar verður spurt um árangur í þágu þjóðfélagsins auk vísindalegra og faglegra vinnubragða. Á sviði nýsköpunar kemur til kasta stjórnvalda að skapa hagstæð skilyrði svo framtaksvilji og hugkvæmni fái notið sín sem best.
Við höfum lagt góðan grunn að starfi á þessum forsendum á undanförnum árum og nú er að byggja á þeim árangri í sókninni framundan.

Góðir gestir,
Með þessum orðum vil ég undirstrika skilning og áhuga íslenskra stjórnvalda á því starfi sem sýning þessi vottar og hvetja aðstandendur hennar til frekari dáða. Mikilvægt er að boðskapur hennar og upplýsingar nái til sem flestra og að Íslendingar kynni sér þá möguleika í Evrópusamstarfi sem standa þeim til boða í gegnum EES samninginn. Þetta er einn mikilvægasti ávinningurinn af þeim samningi sem við eigum að nýta sem mest, - hvað sem líður afstöðu okkar hvers og eins til inngöngu í Evrópusambandið sjálft. Hér erum við fullgildir aðilar og höfum séð að áhrif okkar og sóknarmáttur fá að njóta sín, ef við berum okkur eftir því sem stendur til boða.

Með þessum orðum lýsi ég sýninguna opna - gjörið svo vel.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta