Gerð loftferðasamninga við Asíuríki
Nr. 131
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Undanfarna tíu daga hefur íslensk sendinefnd skipuð embættismönnum frá utanríkisráðuneytinu, samgönguráðuneytinu og Flugmálastjórn, ásamt fulltrúum Atlanta, Flugleiða, Íslandsflugs og Bláfugls, átt viðræður við nokkur ríki og landsvæði um gerð loftferðasamninga. Fundað hefur verið með yfirvöldum í Kína, Suður-Kóreu, Singapúr, Japan, Hong Kong og Macau.
Samningaviðræðum við Kína lauk í dag með áritun loftferðasamnings sem felur meðal annars í sér réttindi til handa íslenskum flugfélögum til flugs til Kína með farþega og frakt. Búist er við að samningurinn verði undirritaður fljótlega á næsta ári.
Á mánudag var loftferðasamningur við Suður-Kóreu einnig áritaður, en hann gengur skemur en samningurinn við Kína og semja þarf um frekari útfærslu nokkurra atriða í upphafi næsta árs. Þá er gert ráð fyrir að loftferðasamingar við Singapúr, Hong Kong og Macau verði undirritaðir á fyrri hluta næsta árs.
Japönsk stjórnvöld voru ekki reiðubúin að hefja formlegar samningaviðræður um loftferðasamning á þessu stigi. Á hinn bóginn gáfu stjórnvöld vonir um að mögulegt verði fyrir íslensk flugfélög að stunda leiguflug til Japan á næsta ári.
Formaður íslensku sendinefndarinnar er Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra og fyrrverandi ráðuneytisstjóri.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. nóvember 2002