Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2002 Dómsmálaráðuneytið

Ráðherra situr ráðstefnu um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Suð-Austur Evrópu

Fréttatilkynning
Nr. 22/ 2002


Sólveig Pétursdóttir dóms- og kirkjumálaráðherra sat í gær mánudag ráðstefnu í Lundúnum þar sem rætt var um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Suð-Austur Evrópu. Til ráðstefnunar var boðað af Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands og David Blunkett innanríkisráðherra Bretlands. Til hennar var boðið 56 sendinefndum frá ríkjum Evrópu og fleiri ríkjum, auk fulltrúa ýmissa alþjóðlegra stofnana og samtaka.

Á ráðstefnunnni var farið yfir stöðu mála í Suð-Austur Evrópu, en margháttuð skipulögð glæpastarfsemi á í mörgum tilvikum upptök sín á þeim slóðum. Meginverkefni ráðstefnunnar var ræða hvernig taka ætti á þeim vanda og gera tillögur í þeim efnum.

Sólveig Pétursdóttir sagði á ráðstefnunni að skipulögð glæpastarfsemi væri ógn við öll ríki Evrópu og það alvarlegasta í þeim efnum væri smygl á fólki, fíkniefnum og mansal. Leita þyrfti allra leiða til að takast á við þessa ógn og létta um leið þjáningar fórnarlamba skipulagðrar glæpastarfsemi sem væru fjölmörg um alla Evrópu og víðar. Samvinna ríkja í þessum efnum væri gríðarlega mikilvæg og Ísland myndi ekki liggja á liði sínu í þeim efnum. Í tengslum við mansal undirstrikaði Sólveig einnig að alþjóðleg samvinna væri mikilvæg og nefndi sérstaklega sem jákvætt dæmi í því sambandi samvinnu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á þessu sviði, sem væri mikil. Einnig væri nauðsynlegt að styrkja alþjóðlegt lagaumhverfi á þessu sviði, og þar væri viðaukinn um verslun með fólk við samning Sameinuðu þjóðanna um skipulagða glæpastarfsemi mjög mikilvægt skref. Almennt um skipulagða glæpastarfsemi sagði Sólveig að alþjóðleg lögreglusamvinna væri mikilvæg, og nefndi sérstaklega í því sambandi samvinnu á vettvangi Interpol og Europol. Ennfremur skipti það höfuð máli að setja á laggirnar virkt samstarf milli ríkjanna í Suð-Austur Evrópu og annars staðar í heiminum til að efla lýðræðisþróun í löndunum í Suð-Austur Evrópu, en lýðræðið væri eitt sterkasta vopnið í baráttunni gegn glæpum.

Að loknum umræðum var samþykkt sérstök yfirlýsing, Lundúnayfirlýsingin um baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Suð-Austur Evrópu. Í yfirlýsingunni lýsa þeir aðilar sem þátt tóku í ráðstefnunni vilja sínum til að vinna í náinni samvinnu hver við annan og berjast þannig gegn glæpum meðal annars þar sem þeir eiga upptök sín. Jafnframt eru þar listaðar upp forgangsaðgerðir í Suð-Austur Evrópu sem eru meðal annars þær að vinna að stefnumótun gegn glæpum, byggja upp almennan og pólitískan stuðning til að verjast skipulagðri glæpastarfsemi og auka samstarf á svæðinu með ýmsum aðgerðum. Yfirlýsingin í heild sinni fylgir hér á eftir.

Með ráðherra í för á ráðstefnunni voru Ingvi Hrafn Óskarsson aðstoðarmaður ráðherra og Ólafur Sigurðsson sendifulltrúi.


Mál Hjálmars Björnssonar

Á fundinum ræddi Sólveig Pétursdóttir sérstaklega við hollensku sendinefndina á fundinum, og vakti athygli á máli Hjálmars Björnssonar, sem lést með svipulegum hætti í Hollandi síðasta sumar. Íslensk yfirvöld hafa í bréfi til hollenskra yfirvalda boðið fram aðstoð við rannsókn málsins og óskað eftir tilteknum upplýsingum. Ítrekaði dómsmálaráðherra þetta boð. Hollenska sendinefndin tók málaleitan dómsmálaráðherra vel, og áður en fundinum lauk voru ráðherra flutt þau skilaboð að erindi íslenskra stjórnvalda yrði svarað þegar í þessari viku.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
26. nóvember 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum