Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2002 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samið um lagningu FARICE

Í dag þriðjudaginn 26. nóvember 2002 verður skrifað undir samning um lagningu nýs sæstrengs, FARICE, milli Íslands, Færeyja og Skotlands.

Líkt og þegar hefur verið greint frá í fjölmiðlum, hefur verið stofnað félag sem hefur það að markmiði að leggja sæstreng frá Íslandi og Færeyjum til Skotlands. Strengurinn er í daglegu tali kallaður FARICE, líkt og félagið, er að lagningunni stendur.

Landssími Íslands og Färøya Tele hafa staðið að undirbúningi að lagningu sæstrengsins þ.e. unnið að botnrannsóknum, útboði á lagningu sæstrengsins, undirbúið landtengingar o.fl. Undirbúningur þessi hefur staðið yfir s.l. tvö ár en nú má segja að undirbúningstímanum sé lokið og tími framkvæmda hafinn, því í dag var skrifað undir verksamning um lagningu sæstrengsins við ítalska fyrirtækið Pirelli.

Helstu staðreyndir þessa verkefnis eru þær að fjárfestingin er alls um 4,5 milljarðar íslenskra króna. Samningurinn, sem undirritaður hefur verið í dag við Pirelli er samningur um sæstrenginn sjálfan og er dýrasti einstaki hluti kerfisins. Samningurinn hljóðar upp á um 30,7 milljónir evra (um 2,6 milljarðar króna)

Viðræður hafa átt sér stað milli fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, einkavæðinganefndar og Landssímans um á hvern hátt stjórnvöld og Landssíminn skipta með sér aðkomu að lagningu strengsins. Samkomulag er um að Landssíminn og Färøya Tele ábyrgist greiðslur til verktaka þar til annað verður ákveðið síðar.

Í viðskiptaáætlun verkefnisins kemur fram að nauðsynlegt sé að eigið fé fyrirtækisins verði um 25% af heildar stofnkostnaði sem er um 4.2 - 4.5 mia.kr. Eigið fé verður því um 1200 m.kr. Gert er ráð fyrir að hlutur Íslendinga verði um 960 m.kr. en hlutur Færeyinga um 240 m.kr.

Stefnt er að því að fá 1000 m.kr. lán hjá bönkum og fjárfestingafyritækjum en aðilar sem standa að Farice hf. verða að lána eða veita ábyrgð fyrir 2000 mkr. Af því tryggir Färøya Tele 400 m.kr. og íslenskir aðilar 1600 m.kr.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta