Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2002 Innviðaráðuneytið

Íslensk verkefni unnu til verðlauna í eSchola samkeppni Evrópska skólanetsins

Frétt frá menntamálaráðuneyti

Tvö íslensk verkefni hlutu verðlaun Evrópska skólanetsins um bestu notkun á upplýsingatækni í skólastarfi. Hátt í 800 verkefni bárust í keppnina og komust 16 þeirra í úrslit.

Annað verkefnið er eftir Salvöru Gissurardóttur. Það er vefur fyrir námskeiðið Nám og kennsla á Netinu sem hún kennir við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands. Sá vefur varð í 4. til 12. sæti í aðalkeppninni (Sun Microsystems and Apple Computer eLearning Award).

Hitt íslenska verkefnið sem hlaut verðlaun er eftir Maríu B. Kristjánsdóttur og Sigurlaugu Kristmannsdóttur kennara í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Það hreppti fyrsta sæti í flokki raungreinaverkefna (Digital Brain Award for Innovative Use of ICT in Science). Um er að ræða vef sem notaður er við kennslu í líffræði (NAT 103). Þess má geta að Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur undanfarin fjögur ár tekið þátt í þróunarskólaverkefni á vegum menntamálaráðuneytisins.

Höfundum íslensku verkefnanna var boðið til Stokkhólms þar sem þeir tóku við verðlaununum í gamla þinghúsinu þann 21. nóvember sl. Á vef Evrópska skólanetsins má fá frekari upplýsingar um þau verkefni sem unnu til verðlauna.

Samkeppnin fór fram í tengslum við eSchola 2002 sem var viðburður sem Evrópska skólanetið stóð að sl. vor. Eins og áður segir barst mikill fjöldi verkefna í keppnina, víða að frá Evrópu. Þess má geta að í fyrra hreppti íslenskt verkefni þriðju verðlaun í þessari keppni. Verðlaunasamkeppni eSchola 2003 verður haldin 7. apríl til 9. maí og gefst þá kostur á að senda inn verkefni. Upplýsingar eru á www.menntagatt.is.

Vefur Salvarar er á slóðinni www.asta.is/nkn2/
Vefur Sigurlaugar og Maríu er á slóðinni (vefur ekki lengur tiltækur)
Vefur Evrópska skólanetsins er á slóðinni www.eun.org

Menntamálaráðuneytið, 27. nóvember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta