Hoppa yfir valmynd
4. desember 2002 Matvælaráðuneytið

"Launavinnsla og mannauður" - launaráðstefna Tölvumiðlunar hf.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Setning launaráðstefnu Tölvumiðlunar hf.
"Launavinnsla og mannauður"
á Grand Hóteli miðvikudaginn 4. desember 2001.


Ágætu ráðstefnugestir.

Undanfarin tvö ár hafa verið erfið flestum þeim sem starfa innan þekkingariðnaðarins. Íslenskt atvinnulíf er orðið svo samofið hinu alþjóðlega viðskiptalífi að breytingar á gengi hlutabréfa á helstu mörkuðum heims endurspeglast hér heima. Auðvitað er þetta ekkert undrunarefni, enda sækja íslensk þekkingarfyrirtæki mikið af tekjum sínum á hinn alþjóðlega samkeppnismarkað.

Upplýsingaiðnaðurinn hefur ekki farið varhluta af þessum breytingum. Það er þó eftirtektarvert að þrátt fyrir að við höfum siglt í mótbyr í meira en tvö ár þá hefur upplýsingaiðnaðurinn staðið mótlætið af sér með undraverðum hætti og ekki látið svo mjög á sjá. Vissulega hafa mörg hinna smærri fyrirtækja og viðskiptahugmynda sem litu dagsins ljós á síðustu árum tíunda áratugarins, ekki náð þeim árangri sem að var stefnt, enda var bjartsýnin þá langt umfram það sem raunhæft var. Vegna þeirra skipbrota sem margir urðu fyrir er mikilvægt að hafa í huga, að á tímum þenslu ríkir bjartsýni sem getur skapað oftrú á arðsemi í framtíðinni - í þeim heimi þar sem breytingarnar gerast stöðugt hraðar. Sennilega varð afleiðing þessa ekki aðeins sú að margir réðust í ótímabærar fjárfestingar - heldur hafa þessar ótímabæru fjárfestingar komið niður á þeim fyrirtækjum sem höfðu þá náð fótfestu á markaðinum.

Þrátt fyrir þetta mótlæti hefur veltan í upplýsingaiðnaði ekki minnkað. Þvert á móti hefur hún aukist ár frá ári og er sennilega með mestan vöxt atvinnugreina um þessar mundir. Veltuaukningin var úr 16 milljörðum kr. árið 1999 í 20 milljarða árið 2001, þ.e. í fyrra. Störfum í greininni fækkaði þó á sama tíma um fáein prósent, sem leiddi til að velta á starfsmann óx að sama skapi. Þrátt fyrir þetta hafa síðustu tvö ár verið erfið rekstrarlega séð og hagnaðurinn hefur látið á sér standa. Hvað sem líður sveiflum síðustu ára fer ekki á milli mála að upplýsingaiðnaðurinn er í sókn og stefnir í rétta átt.

Eitt af því sem einkennt hefur íslenska upplýsingaiðnaðinn er að honum hefur tekist að nýta sér þau íslensku sérkenni sem að gagni geta komið. Hér á ég m.a. við smæð þjóðfélagsins, stuttar boðleiðir og gegnsæi atvinnulífsins. Eftir því sem ég best veit hefur Tölvumiðlun m.a. nýtt sér þetta við þróun launakerfanna sem eru megin umfjöllunarefni þessarar ráðstefnu - og við þróun á landsskrárkerfinu fyrir Fasteignamat ríkisins, svo eitthvað sé nefnt.

Ráðstefnan ber yfirskriftina "Launavinnsla og mannauður" og langar mig nú til að víkja fáeinum orðum að síðarnefnda lykilorðinu - mannauðnum.

Ég reikna með að í náinni framtíð þurfi öll þekkingarfyrirtæki að hafa sterka stjórn á þekkingarauði sínum og geta gert grein fyrir honum gagnvart viðskiptavinum, hluthöfum og væntanlegum fjárfestum. Segja má að margir starfsmenn þekkingarfyrirtækja - labbi út úr fyrirtækjunum - að loknu dagsverki og taki um leið með sér drjúgan hluta þess þekkingarauðs sem í fyrirtækjunum er að finna. Ég hef orðið vör við aukinn áhuga hjá framsæknustu fyrirtækjunum á því að stýra þessari þekkingu inn í fyrirtækin á kerfisbundinn hátt og eru nokkur fyrirtæki komin vel á veg með að nýta sér svokallaða þekkingarstjórnun. Ég geri þetta að umfjöllunarefni á þessum vettvangi vegna þess að ég veit að starfsmenn Tölvumiðlunar hafa staðið framalega í þessum efnum. Hér er um að ræða lykilatriði fyrir þau fyrirtæki sem vilja og þurfa að starfa í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Mergur málsins er nefnilega sá að þekkingin er að verða sú auðlind sem mestu mun ráða um afkomu fyrirtækja og samkeppnishæfni þeirra.

Fyrir nokkrum árum kynntist ég Norrænu verkefni á sviði þekkingarbókhalds. Það nefndist "Nordica" og nú er framhaldi þess, er nefnist "Frame" um það bil að ljúka. Ég tel að með þessum tveim verkefnum hafi verið unnið það mikil grunnvinna að ástæða sé til fyrir íslensk þekkingarfyrirtæki að huga að hagnýtingu hennar. Hvað sem því líður þá vil ég hvetja til þess að íslensk fyrirtæki haldi áfram á þeirri braut sem þau hafa þegar markað á sviði þekkingarbókhalds og þekkingarstjórnunar. Ég vil minna á að þekkingin mun í auknum mæli taka við sem viðurkennt viðmið á auðlegð fyrirtækja á sama hátt og vægi véla og fasteigna minnkar.

Góðir fundarmenn.

Með þessum orðum lýsi ég ráðstefnu Tölvumiðlunar "launavinnsla og mannauður" setta og óska ykkur öllum velfarnaðar við störf ykkar hér í dag.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta