Nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga undirritað
Við lok samráðfundar ríkis og sveitarfélaga sl. miðvikudag afhenti Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, fyrir hönd Sambands ísl. sveitarfélaga, ljósmynd af Jónasi Guðmundssyni sem var frumkvöðull að stofnun sambandsins og jafnframt fyrsti formaður þess.
Jónas var fyrsti skrifstofustjóri félagsmálaráðuneytisins og jafnframt eftirlitsmaður sveitarstjórnarmála.
Í upphafi samráðsfundar ríkis og sveitarfélaga sl. miðvikudag var undirritað nýtt samkomulag um breytingar á fjárhagslegum samskiptum aðilanna.
Í framhaldi af viðræðum um ýmis samskiptamál hafa ríki og sveitarfélaga á grundvelli yfirlýsingar aðila frá 28. desember 2001 komið sér saman um eftirfarandi breytingar á fjármálalegum samskiptum og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga:
a. Að árlegt framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna lækkunar fasteignaskattstekna í kjölfar breytingar á álagningarstofni mannvirkja hækki frá 1. janúar 2003 um 164 milljónir króna. Jafnframt verði lagt til í fjáraukalagafrumvarpi 2002 að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái 260 m.kr. í þessu skyni.
b. Að árlegt framlag ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem ráðstafað er til sveitarfélaga vegna húsaleigubóta hækki um 220 milljónir króna. Í fjáraukalagafrumvarpi 2002 verði jafnframt lagt til að jöfnunarsjóður fái sérstakt 150 m.kr. aukaframlag til úthlutunar framlaga vegna greiðslu húsaleigubóta.
c. Að ríkið yfirtaki 15 % hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiriháttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990.
d. Að vegna breyttrar framsetningar ríkistekna í fjárlögum og ríkisreikningi verði gerðar breytingar á stofni til útreiknings framlaga ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sbr. 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Í stað þess að framlögin séu reiknuð sem hlutfall af innheimtum skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum verði þau framvegis ákvörðuð sem hlutfall af inheimtum skatttekjum ríkissjóðs.
Í samræmi við samkomulagið verður framlag skv. a-lið 8. gr. 2,12% frá og með 1. janúar 2003.
Samkomulagið felur jafnframt í sér skilgreint tilraunaverkefni um mat á áhrifum lagafrumvarpa og reglugerðardraga á fjárhag sveitarfélaga og aukið samráð ríkis og sveitarfélaga um kjaramál.
Samkomulag um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. (128 KB)