Hoppa yfir valmynd
6. desember 2002 Matvælaráðuneytið

Skipting byggðakvóta milli landssvæða.

Skipting byggðakvóta
milli landsvæða


Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða hefur ráðherra heimild, að höfðu samráði við Byggðastofnun, til að ráðstafa allt að 1500 lestum af óslægðum botnfiski í þorskígildum talið til stuðnings byggðalögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða þar sem lagt er til að heimildin á yfirstandandi fiskveiðiári verði hækkuð í 2000 lestir. Verði frumvarpið samþykkt má gera ráð fyrir að 1552 lestir af óslægðum þorski, 477 lestir af óslægðri ýsu, 321 lest af óslægðum ufsa og 138 tonn af óslægðum steinbít komi til úthlutunar.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur nú í samráði við Byggðastofnun ákveðið hvernig ofangreindar aflaheimildir koma til með að skiptast milli landsvæða. Við þá ákvörðun hefur verið tekið mið af tekjum, íbúafjölda, fólksfækkun, breytingum á aflaheimildum, lönduðum afla og afla í vinnslu í einstökum sjávarbyggðum. Niðurstaða þessarar vinnu varð sú að væntanlegum aflaheimildum verður skipt þannig:

Landsvæði
%
Suðurland og Suðvesturland (frátalin Reykjavík, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Vatnsleysustrandarhreppur)
11,02
Vesturland frá Akranesi til Snæfellsness
3,94
Syðri hluti Vestfjarða; Vesturbyggð og Tálknafjörður
6,30
Nyrðri hluti Vestfjarða; Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavík
15,26
Byggðir við Húnaflóa
16,54
Byggðir við Skagafjörð og Siglufjörður
2,46
Byggðir við Eyjafjörð og Grímsey
10,14
Byggðir við Skjálfanda og Axarfjörður
5,31
Norðausturland frá Raufarhöfn til Borgarfjarðar
10,43
Miðfirðir Austurlands frá Seyðisfirði til Fjarðabyggðar
7,38
Suðurfirðir Austurlands til Hornafjarðar
9,15
Vestmannaeyjar
2,07

      Sækja þarf sérstaklega um úthlutun eftir svæðum og þarf umsókn að hafa borist eigi síðar en 16. desember 2002. Umsóknir sem eru póstlagðar eftir þann tíma verða ekki teknar til greina.

      Við ákvörðun um úthlutun verður m.a. litið til eftirfarandi atriða:
          a) Stöðu og horfa í einstökum byggðum, m.t.t. þróunar veiða, vinnslu og atvinnuástands.
          b) Hvort telja megi líklegt, miðað við þær áætlanir sem fram kom í umsóknum um aflaheimildir, að úthlutunin styrki byggðina eða landsvæðið til lengri tíma.
          c) Hvort um sé að ræða samstarfsaðila í veiðum og vinnslu innan byggða eða landsvæða.
          d) Hvort gripið hafi verið til annarra sértækra aðgerða í sjávarútvegi að undanförnu til styrkingar viðkomandi sjávarbyggðum.

      Ráðuneytið leggur áherslu á að umsóknir verði rökstuddar.

      Sjávarútvegsráðuneytið, 5. desember 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum