Dómsmálaráðherra veitir fjórum sýslumannsembættum viðurkenningu vegna Landskrár fasteigna
Fréttatilkynning
Nr. 23/ 2002
Dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, veitir fjórum sýslumannsembættum viðurkenningu vegna Landskrár fasteigna
Hinn 4. maí 2000 samþykkti Alþingi samhljóða lög sem gengu í gildi 1. janúar 2001 og mörkuðu stofnun Landskrár fasteigna. Stýrihópur ráðuneytisstjóra þeirra ráðuneyta sem tengdust málaflokknum ásamt formanni Sambands ísl. sveitarfélaga og borgarritara höfðu þá um árabil unnið að undirbúningi málsins.
Skráning fasteigna varðar mörg stjórnvöld á báðum stjórnsýslustigum. Markmiðið með Landskrá fasteign er að halda eina skrá um fasteignir og að sérhvert stjórnvald sem hefur hlutverki að gegna, skrái þar það sem undir það fellur. Þar má nefna sýslumannsembættin varðandi þinglýsingar, sveitarfélög varðandi lóðir og byggingar og Fasteignamat ríkisins sem annast fasteignamat og brunabótamat og er skráarhaldari.
Tvö sýslumannsembætti tóku virkan þátt í þróun Landskrár fasteigna. Hjá embætti sýslumannsins í Kópavogi hófst tilraun árið 1995 með samræmda skráningu þinglýsingastjóra, sveitarfélagsins og Fasteignamats ríkisins. Eftir að reynsla var komin á það fyrirkomulag hóf embætti sýslumannsins á Selfossi þátttöku í þróunarvinnunni einkum hvað varðaði skráningu eigna í dreifbýli.
Tvö sýslumannsembætti hafa nú lokið innfærslu úr þinglýsingarbókum í Landskrá fasteigna. Það eru embætti sýslumannsins á Akranesi og sýslumannsins á Ólafsfirði en innskráning upplýsinganna fer fram hjá viðkomandi sýslumannsembættum eign fyrir eign.
Í tilefni þessara tímamóta veitti dómsmálaráðherra Þorleifi Pálssyni sýslumanni í Kópavogi og Ólafi Helga Kjartanssyni sýslumanni á Selfossi viðurkenningu til embættanna fyrir brautryðjendastarf við þróun Landskrár fasteigna og Ólafi Haukssyni sýslumanni á Akranesi og Ástríði Grímsdóttur sýslumanni á Ólafsfirði viðurkenningu til embættanna fyrir góðan árangur við innfærslu upplýsinga.
Dómsmálaráðherra og Fasteignamat ríkisins munu afhenda viðurkenningar til sýslumanna vegna Landskrár fasteigna í Þjóðmenningarhúsinu í dag, 9. desember 2002, kl. 16:30.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
9. desember 2002.
9. desember 2002.