Hoppa yfir valmynd
11. desember 2002 Matvælaráðuneytið

Elkem ASA kaupir Íslenska járnblendifélagið hf.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/2002





Í dag undirrituðu fulltrúar iðnaðarráðherra, japanska fyrirtækisins Sumitomo Corporation og norska fyrirtækisins Elkem ASA, samninga um kaup Elkem á hlut ríkissjóðs og Sumitomo í Íslenska járnblendifélaginu hf. Kaupverð hlutanna er á genginu 1,15. Kaupverð á 10,49% hlut ríkissjóðs í félaginu nemur kr. 131.542.181,-. Vegna fyrirhugaðra breytinga á rekstri og þörf á aukningu hlutafjár í félaginu, taldi ríkisstjórn rétt að taka tilboði Elkem í hlut ríkissjóðs. Kaupgengi er hátt m.v. markaðsgengi og hagsmunir annarra hluthafa tryggðir, en í samningunum er kveðið á um að Elkem bjóðist til að kaupa hluti annarra hluthafa á sömu kjörum og gildir það tilboð í 15 daga frá deginum í dag að telja. Verður hluthöfum sent bréf þess efnis.

Samningarnir marka tímamót í sögu rekstrar Íslenska járnblendifélagsins hf. en með þeim lýkur þátttöku ríkisins í rekstri þess.

Rekstur Íslenska járnblendifélagsins hf. hefur reynst erfiður undanfarin ár. Hefur félagið gripið til margháttaðra aðgerða til að bregðast við slæmum rekstrarskilyrðum. Þá hefur eiginfjárstaða félagsins verið styrkt með hlutafjáraukningu í tvígang um samtals 1.000 milljónir króna. Ríkið tók þátt í þeim báðum og greiddi samtals 125 milljónir króna í þeim.

Í maí sl. áttu fulltrúar Elkem og iðnaðarráðuneytisins fund um málefni Íslenska járnblendifélagsins hf. Á fundinum kom fram að Elkem hefði hug á að breyta rekstri Íslenska járnblendifélagsins hf. þannig að félagið færi út í annars konar og verðmætari framleiðslu, samhliða núverandi rekstri. Vegna þeirra breytinga yrði þörf á umtalsverðri fjárfestingu, en ekki yrði þörf fyrir meiri orku. Í ljósi þessara fyrirhuguðu breytinga hefði Elkem áhuga á að eignarhald á félaginu yrði einungis á hendi Elkem. Á fundinum var rædd sú stefna ríkisstjórnarinnar að hverfa úr félaginu sem eignaraðili og að ríkissjóður hefði því ekki hug á að taka þátt í frekari hlutafjáraukningu. Ræddu aðilar þá hugmynd að Elkem keypti hlut íslenska ríkisins í félaginu og gæfi öðrum hluthöfum jafnframt kost á að selja á svipuðu verði. Á ríkisstjórnarfundi þann 4. júní 2002 var ákveðið að ganga til viðræðna við Elkem, með það að leiðarljósi að ríkissjóður færi út úr fyrirtækinu, en reynt yrði að tryggja hagsmuni annarra smærri hluthafa eftir því sem kostur væri. Viðræður við Elkem voru teknar upp á ný nú í desembermánuði, sem leiddu til framangreindra samninga um sölu á hlut íslenska ríkisins í Íslenska járnblendifélaginu hf.

Íslenska jánblendifélagið hf. var stofnað 28. apríl 1975 af ríkisstjórn Íslands í samvinnu við fyrirtækið Union Carbide í Bandaríkjunum. Árið eftir stofnun Járnblendifélagsins dró Union Carbide sig út úr samstarfinu en í stað þess kom norska fyrirtækið Elkem. Sumitomo gerðist hluthafi í félaginu árið 1984. Þann 12. mars 1997 undirrituðu ríkisstjórn Íslands, Elkem og Sumitomo samning um aukningu hlutafjár og stækkun verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf. um einn viðbótarofn. Í kjölfarið lagði Elkem aukið hlutafé til félagsins og eignaðist þannig 51% hlut í félaginu, hlutur ríkisins varð 38,5% og hlutur Sumitomo 10,5%. Í apríl 1998 ákvað ríkisstjórnin að selja 26,5% í Íslenska járnblendifélaginu hf. á opnum markaði. Í kjölfar útboðs var félagið skráð á Verðbréfaþingi Íslands í maí 1998.

Í reglum um framkvæmdanefnd um einkavæðingu er að finna heimild til að víkja frá almennum reglum nefndarinnar um að auglýsa fyrirtæki, sem til stendur að selja, almenningi til kaups. Í samráði við nefndina ákvað iðnaðarráðuneytið að víkja frá reglunum við sölu á hlut ríkisins til Elkem.
Reykjavík, 12. desember 2002.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum