Samningur um starfsemi náttúrustofa.
Um næstu áramót munu sveitarfélög taka við rekstri náttúrustofa í samræmi við samþykkt Alþingis um breytingar á lögum nr. 60/1992. Af því tilefni mun umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir undirrita samning til næstu fimm ára við viðkomandi sveitarfélög um rekstur náttúrustofa.
Náttúrurstofurnar eru sex talsins: Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi, Náttúrustofa Vestfjarða í Bolungarvík, Náttúrustofa Norðurlands vestra á Sauðárkróki, Náttúrustofa Austurlands í Neskaupsstað, Náttúrurstofa Suðurlands í Vestmannaeyjum og Náttúrustofa Reykjaness í Sandgerði.
Með undirrituninni í dag er gert ráð fyrir að náttúrustofur verði alfarið á ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem að þeim standa, en með stuðningi ríkisins sem ákveðinn er á fjárlögum hverju sinni. Alls er gert ráð fyrir 45 millj.kr til reksturs náttúrustofanna á næsta ári. Framlag ríkissjóðs er háð því skilyrði að sveitarfélög leggi að lágmarki fram fjárhæð sem nemur 30% af framlagi ríkissjóðs.
Helstu hlutverk náttúrustofu eru:
a. að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
b. að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
c. að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
d. að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
e. að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar; Náttúruvernd ríkisins skal gera samning um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestur er af ráðherra.
Sumar náttúrustofurnar hafa sérhæft sig á ákveðnum sviðum s.s. Náttúrustofa Vesturlands sem rannsakað hefur vistfræði minnksins og Náttúrustofa Austurlands sem sinnt hefur hreindýrarannsóknum.
Sveitarstjórar viðkomandi sveitafélaga munu ásamt umhverfisráðherra undirrita samningana í Grasagarðinum Laugardal (Kaffi Flóra) í dag kl. 14:00.
Fréttatilkynning nr. 27/2002
Umhverfisráðuneytið