Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2003 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á stofnanauppbyggingu umhverfisráðuneytisins


Umhverfisstofnun
Nú um áramótin urðu mikilvægar breytingar á stofnanauppbygginu umhverfisráðuneytisins. Umhverfisstofnun tók til starfa 1. janúar í samræmi við lög um umhverfisstofnun nr. 90/2002. Umhverfisstofnun tekur yfir verkefni Náttúruverndar ríkisins, Hollustuverndar ríkisins, Veiðistjóraembættis, Dýraverndarráðs og Hreindýraráðs. Dýraverndarráð verður áfram starfrækt í breyttri mynd en það verður einungis ráðgefandi fyrir Umhverfisstofnun. Hreindýraráð starfar áfram að sömu verkefnum sem ráðgefandi nefnd en stjórnsýsla nefndarinnar færist til Umhverfisstofnunar.

Meginmarkmiðið með sameiningu þessara málaflokka undir Umhverfisstofnun er fyrst og fremst að einfalda og styrkja stjórnsýsluna og gera hana skilvirkari. Starfsemi Umhverfisstofnunar verður að mestu til húsa á Suðurlandsbraut 24, en útibú verða tvö, annað á Akureyri þar sem Veiðistjóri hefur haft aðsetur og hitt á Egilsstöðum þar sem umsýsla hreindýraveiða hefur farið fram. Forstjóri Umhverfisstofnunar hefur verið skipaður Davíð Egilson, en hann gegndi áður starfi forstjóra Hollustuverndar ríkisins.

Umhverfisráðuneytið telur að með öflugri stjórnsýslustofnun verði auðveldara að sækja fram og ná þeim stefnumiðum sem stjórnvöld hafa sett sér við framkvæmd umhverfismála.


Úrvinnslusjóður
Lög um úrvinnslugjald tók gildi nú um áramótin. Meginmarkmið laganna er að stuðla að aukinni endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs og draga úr því magni úrgangs sem fargað er með urðun. fer til endanlegrar förgunar. Svonefnt úrvinnslugjald er lagt á vöru við innflutning eða framleiðslu og því er ætlað að standa undir endurnotkun, endurnýtingu eða förgun þeirra vöruafganga þ.m.t. umbúða vörunnar er verða til við notkun hennar.


Frá árinu 1997 hefur svokallað spilliefnagjald verið lagt á ýmis efni sem geta valdið mengun í umhverfinu sé ekki rétt að förgun staðið. Þar má nefna t.d. smurolíu, kælivökva, leysiefni og eiturefni. Lögin um úrvinnslugjald taka yfir lög um spilliefnagjald og við bætast nýir vöruflokkar eins og hjólbarðar, fiskinet, samsettar pappaumbúðir fyrir drykkjarvörur s.s. mjólkurfernur og heyrúlluplast. Þá eru ótalin ökutæki en á þau verður lagt 1.050 kr. árlegt úrvinnslugjald sem standa á straum af kostnaði við förgun viðkomandi ökutækis að leiðarlokum. Eigandinn fær síðan greiddar 10.000 kr fyrir skil til viðurkenndrar móttökustöðvar bílflaka.

Stjórn úrvinnslusjóðs skipa: Guðmundur G. Þórarinsson formaður, Ólafur Kjartansson, Sigurður Jónsson, Guðfinnur Johnsen og Stefán Hermannsson. Á næstunni mun stjórn ráða framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, en auglýst hefur verið eftir framkvæmdastjóra. Úrvinnslusjóður verður til húsa á Bíldshöfða 16 fyrst um sinn.

Fréttatilkynning nr. 2/2003
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta