Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2003 Matvælaráðuneytið

Frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 1/2003





Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun tillögu Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að leggja fyrir þingflokka stjórnarflokkanna og Alþingi þegar þing kemur saman þann 21. janúar nk., frumvarp til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði.

Eins og fram hefur komið hafa samninganefndir iðnaðarráðuneytis, Alcoa og Fjarðabyggðar áritað samninga vegna byggingar og reksturs álverksmiðju í Reyðarfirði. Í frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að undirrita fjárfestingar-, lóðar- og hafnarsamninga.

Frumvarpið er að flestu leyti efnislega sambærilegt lögum um heimild til samninga um álverksmiðju á Grundartanga sem samþykkt var á 121. löggjafarþingi.

Samningar um verkefnið verða ekki undirritaðir nema fyrir liggi heimildarlög frá Alþingi og jákvæð niðurstaða stjórna Alcoa og Landsvirkjunar um samninga milli aðila, sem þegar hafa verið áritaðir.

Stjórn Alcoa kemur saman til fundar um málið 9. og 10. janúar nk. og verður stjórnarformanni og forstjóra tilkynnt niðurstaða ríkisstjórnarinnar frá í morgun fyrir þann fund.

Reykjavík 7. janúar 2003

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta