Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2003 Matvælaráðuneytið

Niðurstaða nefndar um arðsemismat Fjarðaáls sf.



Þriggja manna nefnd, sem eigendur Landsvirkjunar skipuðu til að fjalla um arðsemi og fjárhagslega áhættu Kárahnjúkavirkjunar og sölu raforku til Fjarðaáls sf. (Alcoa), lauk störfum í dag og skilaði af sér greinargerð um málið.

Nefndin telur arðsemismat Landsvirkjunar vel rökstutt og að aðferðir, sem fyrirtækið beitir við matið, séu faglegar og í fullu samræmi við það sem almennt er gert við mat á arðsemi fjárfestingarverkefna. Ennfremur telur nefndin að sú aðferð Landsvirkjunar, að nota mat viðurkenndra erlendra sérfræðinga til að spá um þróun álverðs, sé eðlileg.

Landsvirkjun miðar við 11% ávöxtunarkröfu á eigið fé í arðsemismati á Kárahnjúkavirkjun. Gert er ráð fyrir að núvirt sjóðstreymi verði jákvætt um 6,6 milljarða króna og að arðsemi eigin fjár verði 1,8 prósentustigi yfir eiginfjárkröfu, þ.e. 12,8%, að gefnum forsendum um stofnkostnað, álverð, orkusölusamning, gengi, rekstrarkostnað, fjármögnun og líftíma virkjunarinnar. Í niðurstöðukaflanum kemur fram að yfirgnæfandi líkur séu á jákvæðri ávöxtun eiginfjár.

Fram kemur í greinargerðinni að í fyrirliggjandi samningi um raforkusölu og raforkuverð sé m.a. kveðið á um að Alcoa (Fjarðaál sf.) ábyrgist kaup á 85% af samningsbundinni raforku í 40 ár, sem sé mikilvæg trygging fyrir seljanda orkunnar.

Nefndin bendir á að það sé eigenda fyrirtækisins að ákveða hvort metin arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé fullnægjandi að teknu tilliti til áhættu sem felst í verkefninu og annarra þátta sem þeir telja mikilvæga.

Niðurstaða nefndarinnar er nú til meðferðar hjá eigendum Landsvirkjunar.


Reykjavíkurborg - Iðnaðarráðuneyti - Akureyrarbær


Greinargerð nefndarinnar (word-skjal 97Kb)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum