Fundur sjávarútvegsráðherra Íslands og Færeyja.
Fréttatilkynning
Í dag var haldinn í Reykjavík hinn árlegi fundur sjávarútvegsráðherra Íslands og Færeyja. Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, fór fyrir íslensku sendinefndinni en Jørgen Niclasen, landsstjórnarmaður, fór fyrir þeirri færeysku.
Aðilarnir fóru yfir veiðar Færeyinga í íslenskri lögsögu á síðasta ári, og veiðar Íslendinga í færeyskri lögsögu á sama tíma.
Aðilarnir ræddu botnfiskveiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu. Í framhaldi af því var ákveðið að færeyskum skipum yrði heimilt að veiða samtals 5.600 lestir árið 2003, þar af 1.200 lestir af þorski og 80 lestir af lúðu, sem er sama magn og þeim var heimilt að veiða á síðasta ári.
Rætt var um veiðar á uppsjávartegundum. Ákveðið var að halda veiðiheimildum í þeim óbreyttum. Innan færeysku lögsögunnar er Íslendingum því heimilt að veiða 2.000 lestir af annarri síld en þeirri norsk-íslensku og 1.300 lestir af makríl. Heimildir færeyskra skipa til loðnuveiða á vertíð 2003/2004 verða áfram 30.000 lestir, enda breytist forsendur ekki í verulegum atriðum, auk 10.000 lesta af þeim heimildum sem Færeyjar fá af veiðiheimildum Grænlands. Þá verða gagnkvæmar heimildir til kolmunnaveiða og síldaveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum inna lögsagna landanna óbreyttar á árinu 2003. Einnig var samið um gagnkvæmar heimildir til veiða á túnfiski innan lögsagna landanna.
Ráðherrarnir ræddu ennfremur skoðanir sínar á fiskveiðistjórnun og samvinnu innan alþjóðlegra stofnana. Áhersla er lögð á samvinnu innan fiskveiðisvæðastofnana eins og NAFO, NEAFC, NAMMCO og ICCAT.
Sjávarútvegsráðuneytið
11.janúar 2003.
11.janúar 2003.