Samstarf við Klúbb Matreiðslumeistara.
Fréttatilkynning - matreiðslukeppnin Bocuse d'or
Sjávarútvegráðuneytið, Útflutningsráð Íslands, SÍF og SH hafa gengið til samstarfs við Klúbb Matreiðslumeistara í tengslum við Bocuse d'or matreiðslukeppnina. Ennfremur hefur sendiráð Íslands í París aðstoðað við verkefnið. Tilgangur samstarfsins er að efla hróður íslenskrar matargerðar og íslensks sjávarfangs og efla enn frekar það mikilvæga starf sem Klúbbur Matreiðslumeistara er að vinna við kynningu á íslenskri matargerð á erlendri grund. Samstarfið mun í fyrstu byggja á því að standa á bak við Klúbb Matreiðslumeistara og keppandan Björgvin Mýrdal, fulltrúa Íslands í Bocuse d'or nú 28.-29. janúar. Í framtíðinni er svo stefnt að því að koma íslensku sjávarfangi að í keppninni. Þá hefur Útflutningsráð horft til keppninnar með það í huga að kynna í framtíðinni vörur íslenskra fyrirtækja sem eru að framleiða fyrir erlendan markað.
Þetta er í þriðja sinn sem Klúbbur Matreiðslumeistara sendir fulltrúa í keppnina. Þátttaka í keppni sem þessari krefst mikillar vinnu og fórnfýsi keppandans en Björgvin Mýrdal hefur verið við æfingar í heilt ár og þar af sex mánuði eingöngu og hefur hann stundað æfingarnar í Frakklandi frá því í byrjun mánaðarins. Ekki má heldur gleyma ómældri vinnu þeirra sem standa í framvarðarsveit klúbbsins, þeirra hlutverk er ekki síst að tryggja fjárhaglega afkomu verkefnisins. Áður hafa keppt fyrir Íslands hönd þeir Sturla Birgisson sem hafnaði í fimmta sæti og Hákon Már Örvarsson sem hafnaði í því þriðja. Tuttugu og fjórar þjóðir taka þátt í keppninni að þessu sinni en alls sóttust 35 þjóðir eftir því að taka þátt í Bocuse d'or þetta árið.
Keppnin vekur jafnan mikla athygli fjölmiðla þar sem margir líta á hana sem heimsmeistarakeppni í matreiðslu. Hundruðir fjölmiðla mæta til að fylgjast með henni og hefur árangur Íslands orðið til þess að vekja mikla athygli á Íslandi og íslenskri matargerð. Í því sambandi má nefna að hingað komu fulltrúar bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Food Network til þess að fylgjast með undirbúningi Björgvins. Food Network hefur í kringum 70 milljón áskrifendur í Bandaríkjunum og Kanada.
Þetta er í fyrsta sinn sem Útflutningsráð, Síf og SH taka höndum saman með sjávarútvegsráðuneytinu og styðja við verkefni af þessum toga. Ráðuneytið telur það mjög jákvætt hversu vel þessir aðilar tóku þeirri hugmynd að standa saman að verkefninu og hefur aðkoma þeirra að þróun þess verið mikils virði. Það sama gildir um aðstoð og ráðgjöf sendiráðs Íslands í París.
Sjávarútvegsráðuneytið 15. janúar, 2003