Fullyrðingar Konunglega breska fuglaverndarfélagsins um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á heiðagæsastofninn
Umhverfisráðuneytið vill hér með koma á framfæri leiðréttingum vegna fréttaflutnings í fjölmiðlum í gær þegar rætt var við Lloyd Austin framkvæmdastjóra Konunglega breska fuglaverndarfélagsins (RSPB) í Skotlandi.
Framkvæmdastjóri RSPB hélt því fram að Kárahnjúkavirkjun muni hafa áhrif á " eina af hverjum 7 heiðagæsum sem koma til Skotlands". Þessi fullyrðing stenst ekki. Heildarstofn heiðargæsar að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands er um 225.000 gæsir að hausti. Þessi tala er byggð á talningum í Skotlandi. Yfir 90% varpstofns er á Íslandi, en flestar geldgæsir fara um Ísland til Grænlands og eru þar yfir sumarið. Varpstofn heiðagæsar er að mati Náttúrufræðistofnunar 40.000 pör samkvæmt nýjustu gögnum vísindamanna stofnunarinnar. Um 2.200 heiðagæsapör verpa á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. á Snæfellsöræfum, að mati Náttúrufræðistofnunar. Af þessu leiðir að Kárahnjúkavirkjun muni hugsanlega hafa áhrif á eina gæs af hverjum 100 sé litið til heildarstofns, en á eina gæs af hverjum 18 sé horft til varpstofnsins sérstaklega.
Líklegt má telja að framkvæmdastjóri Konunglega breska fuglaverndarfélagsins bæði vanmeti stærð varpstofns heiðagæsa og eins geri mun meira úr áhrifasvæði virkjunarinnar en það er í raun, þ.e. horfi til alls vatnasviðs Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal.
Frekari upplýsingar veitir Náttúrufræðistofnun Íslands.
Fréttatilkynning nr. 4/2003
Umhverfisráðuneytið