Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2003 Dómsmálaráðuneytið

V-dagurinn styrktur

21. janúar 2003

V-dagurinn styrktur


Samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í dag að tillögu Sólveigar Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra að styrkja verkefni í tilefni V-dagsins um eina milljón króna.

V-dagurinn var haldinn í fyrsta skipti á Íslandi þann 14. febrúar á síðasta ári og voru þá stofnuð samtök sem hafa það að markmiði að vinna gegn ofbeldi á konum á Íslandi. Þann 14. febrúar nk. verður V-dagurinn haldinn hátíðlegur í annað sinn á Íslandi. V-dagurinn hefur verið haldinn víða um heim en að honum standa alþjóðleg samtök sem kennd eru við hann og stofnuð voru í Bandaríkjunum 1998 fyrir tilstuðlan rithöfundarins Eve Ensler. Markmið alþjóðlegu V-dags samtakanna er að binda enda á ofbeldi gegn konum um allan heim og munu samtökin starfa þar til því markmiði hefur verið náð. Markmiðið með hinum íslenska V-degi er það sama og á hinum alþjóðlegu V-dögum, að vekja fólk til umhugsunar um kynferðisofbeldi gegn konum og breyta hugarfari fólks varðandi nauðganir. Áhersla er lögð á vinnu að forvörnum gegn nauðgunum og hafa ýmsir þekktir aðilar úr þjóðfélaginu veitt málefninu lið. Það sem gerir V-daginn ólíkan fyrri baráttuhópum er að karlar jafnt sem konur taka þátt í baráttunni þar sem viðfangsefnið á ekki síður erindi til karlmanna.

V-dagurinn í ár mun ná hámarki með fjölbreyttri hátíðardagskrá í Borgarleikhúsinu þar sem fram munu koma fjöldi listamanna. Auk þess munu samtökin formlega opna heimsíðu sína þennan dag. Einnig verður haldið málþing í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem leitast verður við að beina sjónum fólks að kynferðisbrotum. Þá munu samtökin ennfremur hrinda af stað auglýsingarherferð sem mun verða hluti af V-deginum 2003.

Mikil umræða hefur farið fram í þjóðfélaginu á síðustu árum um kynferðisbrot og þá einkum dóma í kynferðisbrotamálum. Ein leið til þess að stemma stigu við kynferðisofbeldi sem og annars konar ofbeldi, er að draga vandamálið fram í dagsljósið og leita lausna á því. Má ætla að framtak sem þetta geti stuðlað að upplýstri og málefnalegri umræðu og þar með reynst mjög mikilvægur liður í þessari baráttu gegn kynferðisofbeldi gegn konum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta