Fréttapistill vikunnar 18. - 24. janúar 2002
Fréttapistill vikunnar
18. - 24. janúar 2003
Áætlun Evrópusambandsins um aðgerðir til að efla lýðheilsu
Evrópusambandið hefur lagt fram nýja áætlun um aðgerðir til að efla lýðheilsu. Áætlunin nær til áranna 2003-2008 og tekur við af fyrri áætlun, sem tók til áranna 1993-2002 og byggðist á átta samstarfsverkefnum. Í áætluninni nú er lögð aukin áhersla á skilvirka heilbrigðistölfræði, aukinn viðbragðsflýti gegn ógnum er beinast að lýðheilsu þjóðanna og aukna áherslu á heilsueflingu og heilsuvernd. Bandalagið hefur veitt 312 milljónum Evra til verkefnisins í heild.
Frumvarp til laga um breytingar á lyfja- og læknalögum
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mælti í vikunni fyrir frumvarpi til breytinga á lyfjalögum, nr. 93/1994, og læknalögum, nr. 53/1988. Í framsöguræðu ráðherra, Jóns Kristjánssonar, kom fram að í kjölfar mikillar umræðu í þjóðfélaginu um meinta misnotkun mikilvirkra ávana- og fíknilyfja hefði hann ákveðið skipa stýrihóp til að skilgreina og meta þarfir Lyfjastofnunar, landlæknisembættisins og Tryggingastofnunar ríkisins fyrir upplýsingar úr lyfjagagnagrunni. Frumvarpið sem nú er lagt fram byggist að meginhluta til á skýrslu stýrihópsins en er að öðru leyti samið af starfsmönnum ráðuneytisins. Megintilgangur frumvarpsins er að skjóta lagastoðum undir starfrækslu Tryggingastofnunar ríkisins á tveimur lyfjagagnagrunnum, öðrum ópersónugreinanlegum og hinum persónugreinanlegum, og mæla fyrir um aðgangsheimildir Tryggingastofnunar, landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar að þeim grunnum í nánar tilgreindum tilvikum. Þá er hlutverk landlæknisembættisins og Lyfjastofnunar til eftirlits á sviði ávana- og fíknilyfja gert skilvirkara. Í framsöguræðu sinni sagði ráðherra meðal annars að þess séu dæmi; "að fíkniefnaneytendur gangi á milli lækna og fái ávísun á ávana- og fíknilyf til eigin neyslu eða jafnvel sölu, oft til að fjármagna neyslu. Nauðsynlegt er að stemma stigu við slíkri óheillaþróun með auknu eftirliti. Þá geta þau tilvik m.a. komið upp að læknir ávísar sjálfum sér óhóflegu magni ávana- og fíknilyfja til eigin nota. Því er mikilvægt að landlæknir geti, í undantekningartilvikum, fengið beinan aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum á rafrænu formi. Þannig getur hann greint vandamálið á mun markvissari og skjótari hátt en áður var hægt og gripið fyrr til viðeigandi aðgerða. Tilgangurinn er að herða eftirlit með ávana- og fíknilyfjum og koma í veg fyrir misnotkun þeirra." Ráðherra lagði áherslu á að verndun persónuupplýsinga yrði rík í umræddum gagnagrunnum, gert væri ráð fyrir dulkóðuðum persónuupplýsingum og að í persónugreinanlega grunninum muni rafrænt eftirlit gera landlækni viðvart þegar þörf sé á skoðun persónuupplýsinga. Ekki verði því unnið með persónueinkenni nema í þeim tilvikum sem skilgreind verði utan marka. Ráðherra sagði að persónuverndar verði því betur gætt gagnvart sjúklingum og læknum en áður, auk þess sem viðkvæm gögn fari um færri hendur.
FRUMVARPIÐ...
Ódýr þvagræsilyf jafngóð til að lækka blóðþrýsting og ný en mun dýrari lyf sem notuð hafa verið í vaxandi mæli
Nýlega voru birtar niðurstöður úr stærstu rannsókn á blóðþrýstingslyfjum sem gerð hefur verið; svokölluð ALLHAT-rannsókn í Ameríku. Þátttakendur voru rúmlega 33.000. Aðal niðurstaða hennar er að ódýr þvagræsilyf eru fyllilega sambærileg að virkni til blóðþrýstingslækkunar og hin nýrri lyf í flokkum kalsíumgangaloka (C08) og ACE-hemla (C09). Ljóst er að menn hafa yfirleitt verið í góðri trú um að nýju lyfin væru betri og skýrir það væntanlega mikla og vaxandi notkun þeirra.
NÁNAR... (Pdf.skjal)
Mælt fyrir frumvarpi til laga um Lýðheilsustöð
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mælti í vikunni nýju frumvarp til laga um Lýðheilsustöð en ráðherra lét vinna frumvarpið á síðasta vetri með það í huga að fylgja eftir markmiðum heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 um forvarnir þar sem áhersla er lögð á langtíma heilbrigðismarkmið í því skyni að bæta heilsufar þjóðarinnar. Lýðheilsustöð er m.a. ætlað að samræma lýðheilsustarf, annast fræðslu til almennings, styðja starfsemi þeirra sem vinna að eflingu lýðheilsu, efla samstarf þeirra, stuðla að rannsóknum og fylgjast með árangri heilsueflingar. Lagt er til að núgildandi lög um áfengis- og vímuvarnaráð, lög um manneldisráð, lög um slysavarnaráð og þau ákvæði laga um tóbaksvarnir sem fjalla um tóbaksvarnanefnd verði felld úr gildi, en starf þeirra falli undir Lýðheilsustöð. Fyrrgreind ráð og tóbaksvarnanefnd verði svonefnd sérfræðiráð og verði Lýðheilsustöð og öðrum aðilum til ráðgjafar hvert á sínu sviði. Þá er gert ráð fyrir að ýmis heilsueflingar- og forvarnaverkefni á vegum ríkisins verði flutt til Lýðheilsustöðvar, má þar t.d. nefna starf tannverndarráðs og gigtarráðs. Í framsöguræðu sinni með frumvarpinu lagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra áherslu á að lýðheilsustarf sé í eðli sínu teymisvinna fjölmargra aðila, sérfróðra jafnt sem leikmanna og sjálfboðaliða: "Bestur árangur næst er saman fer skýr stefnumörkun og markmið, vandað val viðfangsefna, náið samráð og samstarf við þá sem starfa að forvörnum, jafnt opinberra sem einkaaðila, félagasamtök og fjölmiðla. Lýðheilsustöð er fyrst og fremst ætlað að vera frumkvöðull og samræmingarafl í þessari teymisvinnu."
FRUMVARPIÐ...
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir
Frumvarp til breytinga á lögum um tóbaksvarnir var lagt frá á Alþingi í vikunni. Frumvarpið er samið í kjölfar gildistöku Evrópusambandsins nr. 2001/37 vegna lögleiðingar tilskipunarinnar hér á landi. Frumvarpið á að samræma íslensk lög og stjórnsýslufyrirmæli þessari tilskipun en ákvæði hennar verða útfærð nánar í reglugerðum. Sett hefur verið reglugerð um þau ákvæði sem þegar hafa lagastoð en fyrirhugað er að setja nýja reglugerð eftir gildistöku laga þessara. Tilskipunin í heild og lögleiðing hennar á að verða til þess að efla tóbaksvarnir í landinu. Í athugasemd með frumvarpinu segir: "Í forsendum tilskipunarinnar er bent á nauðsyn þess að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum á innra markaði sambandsins vegna mismunandi ákvæða í aðildarríkjunum um framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki. Þar er sagt að setja þurfi um þessi mál sameiginlegar reglur þar sem aðildarríkin geti við sérstakar aðstæður gert þær kröfur sem þau telja nauðsynlegar til að tryggja heilsuvernd. Orðrétt segir: "Gera skal kröfu um vernd á háu stigi að því er varðar heilbrigði, öryggi, umhverfisvernd og neytendavernd, í samræmi við 3. mgr. 95. gr. sáttmálans þar sem sérstaklega er tekið tillit til nýrra framfara sem byggjast á vísindalegum stað reyndum. Þar sem áhrif tóbaks eru sérstaklega skaðleg skal heilsuvernd hafa forgang í þessu samhengi."" Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sagði í framsöguræðu sinni með frumvarpinu að tilskipun Evrópusambandsins feli í sér í senn verulegar breytingar og veigamikil nýmæli.
FRUMVARPIÐ...
Skil öldrunarstofnana á rekstrarupplýsingum
Öldrunarstofnanir þurfa að standa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu skil á rekstrarupplýsingum. Hér er aðgangur að formi til útfyllingar vegna þess undir tengingunni; Rekstur öldrunarstofnana 2002.
NÁNAR...
Laus staða bókasafns- og upplýsingafræðings í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið auglýsir stöðu bókasafns- og upplýsingafræðings lausa til umsóknar. Starfið heyrir undir skjala- og upplýsingastjóra og er fullt starf. Æskilegt er að starfsmaður hefji störf í mars nk. Upplýsingar um helstu verkefni, menntunar- og hæfniskröfur og launakjör er að finna á upplýsingavefnum Starfatorg.is
24. janúar 2003