Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2003 Dómsmálaráðuneytið

Kynning á reglugerð um útlendinga

Kynning á reglugerð um útlendinga




Um síðustu áramót gengu í gildi lög um útlendinga sem samþykkt voru á Alþingi sl. vor. Í lögunum er gert ráð fyrir að dómsmálaráðherra setji reglugerð þar sem nánar verði útfærð ýmis atriði er snúa að heimild útlendinga til að koma til landsins og um dvöl þeirra hér á landi. Unnið hefur verið að slíkri reglugerð í dómsmálaráðuneytinu undanfarna mánuði í náinni samvinnu við þau ráðuneyti og stofnanir sem málinu tengjast með einum eða öðrum hætti. Auk stofnana sem heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið er hér um að ræða félagsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnun, Hagstofuna og embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Jafnframt voru reglugerðardrög send utanríkisráðuneyti og samgönguráðuneyti til umsagnar, svo og Persónuvernd og ýmsum hagsmunaaðilum og mannréttindasamtökum. Þá var haft samráð við aðra aðila vegna einstakra þátta reglugerðarinnar, t.d. menntamálaráðuneytið vegna íslenskukennslu fyrir útlendinga og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið vegna skilyrða um sjúkratryggingu.

Í reglugerðinni er fjallað um framkvæmd vegabréfaeftirlits, vegabréf, vegabréfsáritanir, dvalarleyfi og skilyrði fyrir útgáfu þeirra, búsetuleyfi, frávísun og brottvísun frá landinu, miðlun upplýsinga úr landi, rannsóknarúrræði, dvöl útlendinga hér á landi sem falla undir EES-samninginn eða stofnsamning EFTA, meðferð umsókna um hæli, tilkynningarskyldu um útlendinga o.fl.

Í stuttri samantekt er ekki unnt að gera efni reglugerðarinnar tæmandi skil. Sem meginlínu má nefna að ekki eru gerðar grundvallarbreytingar á núverandi fyrirkomulagi varðandi heimild útlendinga til að koma til landsins og dvöl þeirra hér á landi. Lögin hafa að sjálfsögðu að geyma þær meginreglur sem gilda á þessu sviði og er einungis um nánari útfærslu á þeim atriðum að ræða í reglugerðinni. Til frekari glöggvunar skulu þó dregin fram nokkur atriði sem fjallað er um í reglugerðinni:
  • Reglugerðin líkt og lögin hefur að geyma ýmsar reglur sem bæta og skýra réttarstöðu útlendinga til mikilla muna frá eldri reglum. Þannig er í reglugerðinni að finna ákvæði um málsmeðferð, t.d. leyfis- og hælisumsókna, svo og atriði sem snúa að skyldu til að kalla til túlk og talsmann, en eldri reglur höfðu fá eða engin ákvæði um allt framangreint. Réttarstaðan á þessu sviði er því til mikilla muna skýrari en áður.
  • Í lögunum er kveðið á um það að tímabundin dvalarleyfi séu tvenns konar, þ.e. dvalarleyfi sem háð eru takmörkunum og dvalarleyfi sem ekki eru háð takmörkunum. Nauðsynlegt er að greina nákvæmlega í reglugerðinni hvorum flokknum mismunandi dvalarleyfi tilheyra, þar sem réttaráhrif leyfanna eru mismunandi. Þannig skapar leyfi sem háð er takmörkunum ekki grundvöll fyrir útgáfu búsetuleyfis (réttur til ótímabundinnar dvalar) og ekki heldur heimild til þess að fá útgefið dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Upptalningu á flokkum dvalarleyfa er að finna í 35. gr. reglugerðarinnar og þau eru í 36.-37. gr. flokkuð í annars vegar dvalarleyfi sem geta skapað grundvöll fyrir búsetuleyfi og hins vegar dvalarleyfi sem ekki geta skapað grundvöll fyrir búsetuleyfi. Skilyrði fyrir útgáfu búsetuleyfis eru skv. lögunum m.a. þriggja ára samfelld dvöl hér á landi samkvæmt fyrrnefndu leyfi. Í reglugerðinni er ráð fyrir því gert að dvalarleyfi án atvinnuþátttöku, óendurnýjanlegt dvalarleyfi, dvalarleyfi vegna námsdvalar eða vistráðningar og bráðabirgðadvalarleyfi myndi ekki heimild til útgáfu búsetuleyfis. Þá er jafnframt ráð fyrir því gert að dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku myndi ekki heimild til útgáfu búsetuleyfis fyrr en eftir eins árs samfellda dvöl umsækjanda hér á landi með atvinnuþátttöku. Önnur dvalarleyfi sem skapað geta grundvöll fyrir búsetuleyfi eftir þriggja ára dvöl eru dvalarleyfi til útlendinga sem falla undir EES-samninginn eða stofnsamning EFTA og dvalarleyfi af mannúðarástæðum, svo og dvalarleyfi þess sem er barn foreldris er var íslenskur ríkisborgari við fæðingu umsækjanda. Flokkun leyfanna í þessa tvo flokka byggist einkum á því að litið er til tilgangs dvalarinnar og lagt upp með að þau leyfi sem gefin eru út með varanlega dvöl í huga skapi að tilteknum tíma liðnum grundvöll fyrir útgáfu búsetuleyfis.
  • Í lögunum er kveðið á um að sá útlendingur sem óskar eftir búsetuleyfi (réttur til ótímabundinnar dvalar) skuli hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, en í lögunum segir að dómsmálaráðherra skuli setja reglur um lengd námskeiðs, lágmarkstímasókn og vottorð til staðfestingar á þátttöku. Samkvæmt reglugerðinni (50. gr.) er gert ráð fyrir að umsækjandi um búsetuleyfi skuli hafa sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga að lágmarki samtals 150 stundir eða staðist próf. Jafnframt skuli hann leggja fram vottorð til staðfestingar á þátttöku í slíku námskeiði og um ástundun sína, en gerð er krafa um að lágmarki 85% tímasókn. Ákvæðið var unnið í samvinnu við menntamálaráðuneytið og að fenginni umsögn starfshóps sem fjallar um málefni er tengjast menntun fullorðinna útlendinga og að höfðu samráði við sérfræðinga sem starfa á þessu sviði. Þeir aðilar víðs vegar um landið sem nú þegar annast íslenskukennslu fyrir útlendinga samkvæmt kennsluleiðbeiningum menntamálaráðuneytisins geta annast slíka kennslu og gefið út slík vottorð.
  • Samkvæmt lögunum þarf umsækjandi að uppfylla ýmis skilyrði áður en sótt er um dvalarleyfi, þar á meðal um framfærslu, sjúkratryggingu og tryggt húsnæði. Í reglugerðinni er að finna ákvæði þar sem kveðið er nánar á um þetta (42.-44. gr.).
  • Ítarleg ákvæði eru í reglugerðinni um rannsóknarúrræði lögreglu og heimildir hennar við eftirlit með útlendingum. Þar er t.d. að finna skýr ákvæði um skyldu útlendings til að gera grein fyrir sjálfum sér og heimildir lögreglu í þeim efnum, heimildir til töku ljósmynda og fingrafara af útlendingi, fingrafaraskrá o.fl. Sérstök ákvæði eru jafnframt um Eurodac, en það er miðlægt fingrafarakerfi sem sett var upp á grundvelli Dyflinnar samningsins um meðferð hælisbeiðna. Ísland er aðili að þeim samningi vegna þátttöku í Schengen samstarfinu. Samkvæmt þeim samningi skal meðferð hælisbeiðnar fara fram í því landi þar sem útlendingur kom fyrst til, í því landi sem gaf út vegabréfsáritun honum til handa, þar sem hann lagði fyrst fram hælisumsókn o.fl. Vandkvæðin við framkvæmd Dyflinnar samningsins hafa verið erfiðleikar við að sanna að viðkomandi einstaklingur hefði t.d. sótt um hæli í öðru landi. Eurodac kerfið geymir fingraför allra hælisumsækjenda og á því eftir að einfalda til mikilla muna alla ákvarðanatöku um það hvar fjalla eigi um hælisbeiðni skv. Dyflinnar samningnum.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti,
23. janúar 2003.

Reglugerð um útlendinga

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta