Ný reglugerð um hollustuhætti
Umhverfisráðherra hefur staðfest reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og tók hún gildi 10. janúar sl. Markmið reglugerðarinnar er að stuðla að framkvæmd hollustuverndar og samræma heilbrigðiseftirlit í landinu á grundvelli laga nr. 7/1991. Heilbrigðisnefndum er falið skv. reglugerðinni að sjá til þess að ákvæðum hennar sé fylgt en Umhverfisstofnun hefur umsjón með samræmdri framkvæmd reglugerðarinnar.
Reglugerðin heimilar að gera kröfur í starfsleyfi um innra eftirlit í starfsemi þar sem smithætta er fyrir hendi eða sérstakra öryggisráðstafana er þörf. Ítarleg ákvæði um starfsleyfi, m.a. hvað varðar starfsleyfisskyldu, umsókn um starfsleyfi og útgáfu þess. Í reglugerðinni er sérstaklega fjallað um snyrtistofur og sambærilega starfsemi s.s. nuddstofur, ljósastofur, húðflúrstofur og stofur sem framkvæma húðgötun. Á snyrtistofum skal ætla a.m.k. 5 fermetra gólfrými fyrir hvern aðgerðastól. Á ljósastofum eiga að hanga uppi reglur um notkun ljósabekkja og tiltekið er að starfsfólk á ljósastofum skuli þrífa og sótthreinsa ljósabekki. Samkvæmt reglugerðinni er óheimilt að flúra, húðgata eða beita nálarstungu á einstaklingi undir 18 ára aldri nema með skriflegu leyfi forráðamanns. Viðskiptavinir skulu frá fræðslu um varanlega breytingu á húð, mögulega sýkingarhættu og eftirmeðferð á flúraða eða gataða húðsvæðinu.
Öryggisþáttum er gerð ítarlegri skil en í eldri reglugerðum t.d. eru ákvæði um hitastýrð blöndunartæki í handlaugum og böðum í leikskólum, á kennslustöðum, í íþróttarmannvirkum og heilbrigðisstofnunum. Miðað er við að vatnshiti fari ekki yfir 43°C að jafnaði en miðað 38°C gráður í leiksskólum.
Fjallað er um húsrými og lóðir þar sem ekki má hleypa hundum, köttum og öðrum gæludýrum inn á. Þessi ákvæði hafa verið rýmkuð til muna frá fyrri reglugerð og er fötluðu fólki veitt heimild til að hafa með sér hjálparhunda inn á staði sem ekki má almennt hleypa hundum inn. Heilbrigðisnefndir geta veitt heimild til að veita undanþágu til að halda hunda, ketti og önnur gæludýr á heilbrigðis- og meðferðarstofnunum.
Reglugerðin í heild er aðgengileg á Réttarheimild.is
Umhverfisráðuneytið