Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2003 Dómsmálaráðuneytið

Samningur SÞ um réttindi barnsins - önnur skýrsla Íslands tekin fyrir í Genf

Fréttatilkynning
Nr. 1/ 2003

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins
- önnur skýrsla Íslands tekin fyrir í Genf 28. janúar 2003




Önnur skýrsla íslenskra stjórnvalda um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna var tekin til umfjöllunar í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna (CRC, Committee on the Rights of the Child) í Genf í dag, 28. janúar 2003. Skýrslunni er skilað í samræmi við 44. grein samningsins, en þar segir að aðildarríki skulu tveimur árum eftir að hann öðlast gildi í viðkomandi landi skila skýrslu til Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og síðan á fjögurra ára fresti eftir það. Skýrslan fjallar m.a. um réttarstöðu barna og skilgreingu á hugtakinu barn, aðstöðu barna og þjónustu við þau á sviði heilbrigðis-, félags-, dóms- og menntamála. Fyrsta skýrsla Íslands var tekin fyrir af nefndinni árið 1996 og grundvallast því innihald skýrslunnar nú af lokaniðurstöðum nefndarinnar árið 1996, svo og þeim lagabreytingum sem átt hafa sér stað síðan þá.
Skýrslu Íslands, sem þótti bæði skýr og upplýsandi, var vel tekið af nefndinni sem skipuð er sérfræðingum í mannréttindum og málefnum barna. Nefndin kom inn á fjölmörg atriði sem varða réttindi barna. Fjallaði m.a. um áhrif samningsins í íslenskum lögum og stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar og málefnum barna. Nefndin lagði áherslu á stöðu og aðbúnað barna af erlendum uppruna á öllum sviðum samfélagsins. Barnaverndarmál voru mikið rædd, réttarstaða barnanna, hlutverk barnaverndaryfirvalda og úrræði, börn og réttarkerfið, börn bæði sem þolendur og gerendur, svo og þjónusta við börn sem búa við erfiðar aðstæður eða glíma við sérstaka erfiðleika. Sérstaklega var komið inn á menntastefnu íslenskra stjórnvalda og þjónustu við börn á öllum skólastigum. Þá beindist athygli nefndarinnar að heilbrigðismálum, stöðu langveikra barna og barna með geðraskanir og ýmis forvarnarverkefni. Nefndin mun fljótlega skila lokaathugasemdum sínum um réttindi barna á Íslandi.
Sendinefnd Íslands við skýrsluvörnina var skipuð eftirfarandi einstaklingnum, Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Genf sem fór fyrir sendinefndinni. Aðrir í sendinefndinni voru Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur hjá Barnaverndarstofu, Guðni Olgeirsson deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiráðsritari hjá fastanefnd Íslands í Genf og Hildur Björns Vernudóttir hjá fastanefnd Íslands í Genf.

Allar nánari upplýsingar og væntanlega lokaskýrslu nefndarinnar munu birtast á vefsíðu nefndarinnar sem er eftirfarandi:
http://www.unhchr.ch/html/menu2/6/crc/



Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
28. janúar 2003.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum